District 9 (2009) ***


Wikus van der Merwe (Sharlto Copley) er ráðinn til að takast á við geimver, sem eru uppnefndar "rækjur".
 
Ég geri ráð fyrir að það sé engin ástæða til að fyrstu geimverur sem rata til Jarðar líti út öðruvísi en eitthvað sem kötturinn gubbaði út úr sér. Þegar allt kemur til alls, þá elska þær að éta kattamat. Geimverurnar í "District 9", uppnefndar "rækjur" vegna þess að þær líta út eins og blanda af humar og engisprettum, koma til jarðar í geimskipi sem svífur yfir Jóhannesarborg. Inni í geimskipinu finnast geimverurnar þar sem þær hjúfra sig hungurmorða saman, en þeim er bjargað með flutningi til jarðar.
 
Þær eru ekki velkominn gestur, heldur óttast fólk þær, og búðir geimveranna breytast fljótt í fangelsi. Af ótta við árás frá geimverunum ákveður mannfólkið að flytja geimverurnar út úr borginni. Grunlaus skrifstofublók að nafni Wikus van der Merwe (Sharlto Copley) fær stjórn verkefnisins í sínar hendur. Verurnar hafa engan áhuga á að flytja. Sjálfstætt rekin öryggissveit sem leidd er af van der Merwe ekur inn á svæðið í brynvörðum bifreiðum vopnuðum eldvörpum sem van der Merwe notar til að gjöreyða, sér og öðrum til gamans, hreiðrum sem eru full af eggjum geimvera.
 
Hverjar eru þessar geimverur? Hvaðan komu þær? Hvernig stendur á því að skip þeirra virðist hafa orðið rafmagnslaust (fyrir utan þá orku sem nauðsynleg er til að halda þessum gífurlega massa á floti yfir borginni)? Enginn spyr: Þær eru bara hérna, okkur líkar ekki við þær, komið þeim út úr borginni. Fátt virðist aðlaðandi við þær. Þær eru ógeðslegar í útliti, haga sér á viðbjóðslegan hátt og vekja svo litla samúð að dráp á einni þeirra er eins og að láta tveggja metra humar falla ofan í sjóðandi vatn.

Þessi vísindafantasía, leikstýrð af nýjum leikstjóra, Neill Blomkamp og framleidd af Peter ("The Lord of the Rings") Jackson, er að upphafi í formi skopheimildarmyndar þegar kemur að verkefni van der Merwe við flutning geimveranna, sýkingu hans af dularfullum vírus, flótta hans til Svæðis 9 og óvænta vináttu við geimveru sem hagar sér gáfulega og í ljós kemur að hefur, ef ég má orða það svo, mannlegar tilfinningar. Þessi geimvera, nefnd Christopher Johnson - já, Christopher Johnson - hefur undir húsi sínu falið vinnustofu þar sem hann undirbýr flótta til móðurskipsins, en markmið hans er að koma fólki sínu heim.

Mikið af söguþræðinum tengist þráhyggju einkarekins öryggisfyrirtækis til að læra um vopn geimveranna. em manneskjur geta ekki notað þau. Áhugavert er að geimverurnar nota ekki þessi vopn sér til varnar. Skiptir ekki máli. Eftir að út úr handleggi van der Merwe sprettur humarkló í stað handar, getur hann notað vopnin, og verður þar af leiðandi eftirsóknarverður af öryggisfyrirtækinu og nígerískum glæpamönnum sem misnota sér geimverurnar með því að selja þeim kattamat. Allt þetta er framsett á afar alvarlegan máta.

Suður Afrísk staðsetning myndarinnar kallar óhjákvæmilega á hliðstæður við fyrrum Apartheit aðskilnaðarstefnuna. Margar þeirra eru augljósar, eins og sú að færa heilan þjóðflokk út úr borginni og á fjarlægt svæði. Aðrar hitta beint í mark. Titillinn "District 9" er vísun í District 6 í Höfðaborg, þar sem Höfðalitaðir (eins og þeir voru kallaðir þá) áttu heimili og fyrirtæki til margra ára áður en þeim var rutt úr vegi með jarðýtum og fólkið flutt nauðugt af svæðinu. Nafn hetjunnar, van der Merwe, er ekki algengt nafn meðal Afríkana, hinna hvítu Suður Afríkumanna af hollenskum uppruna, en er nafn sem notað er mikið í hinum svokölluðu van der Merwe bröndurum, þar sem hetjan er yfirleitt afar heimsk. Suður afrískt eyra myndi ekki láta framhjá sér fara að tungumál geimveranna er samsett af klikkandi smellum, rétt eins og Bantu, tungumál stórs hóps af skotmörkum Apartheid stefnunnar. Hér má einnig finna harða ádeilu um útlegð og meðferð flóttamanna.

Sannarlega er þessi van der Merwe ekki skýrasta ljósaperan í krónunni. Í peysuvesti yfir stuttermaskyrtu, gengur hann upp að kofum geimvera og biður þær vinsamlegast um að undirrita eyðublað til samþykktar flutnings. Hann hefur lítið skynbragð á varkárni, sem er ástæða þess að hann lendir í töluverðum vandræðum. Neill Blomkamp tekst einhvern veginn að vekja samúð með Christopher Johnson og syni hans, litla CJ, þrátt fyrir útlitið. Þetta tekst honum með því að gefa þeim, en engum öðrum geimverum, líkamlega og mannlega tjáningu, og litli CJ hefur jafnvel stór og rök augu, rétt eins og E.T.

“District 9” gerir margt rétt. Eitt af því er að sýna okkur geimverur sem líta ekki út eins og áttfættir englar eða úr ryðfríu stáli. Þær eru greinilega ekki héðan. Heimildarmynd og tæknibrellum (geimverurnar eru gerðar með tölvugrafík) er blandað saman á afar faglegan hátt.

Ég varð fyrir vonbrigðum með þriðja hluta myndarinnar, sem innihélt staðlaða skotbardaga og hasar. Engin tilraun var gerð til að leysa vandamálið, og ef það er góður endir, hef ég séð þá betri. Þrátt fyrir sköpunargleði, er myndin geimópera og forðast að feta sig út í metnaðarfyllri svæði vísindafantasíunnar.

Mér þykir áhugavert að sjá hvort að áhorfendur sætti sig við þessar geimverur. Ég sagði að þær væru ógeðslegar í útliti og viðbjóðslegar í framkomu, og ég held að það sé ekki bara ég. Einnig kemur fram í myndinni að nígerískar vændiskonur selja sig kynferðislega geimverunum, en sleppir til allrar hamingju að skemmta okkur með að sýna hvernig svoleiðis fer fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband