Bandslam (2009) ***


Will (Gaelan Conell, fyrir miðju) lendir í menntaskólarokkbandi með einfaranum Sa5m (Vanessa Hudgens, til vinstri) og klappstýrunni Charlotte (Aly Michalka) í “Bandslam.”
 
Will Burton er mikið innan í sjálfum sér. Hann er framhaldsskólanemi í nýjum bæ og er of mikið nörd til að komast á stefnumót með stelpunum sem hann tekur eftir í skólanum. Hann hefur umbreytt herbergi sínu í hof til dýrðar David Bowie (sem hann hefur samskipti við einu sinni á dag með tölvupósti) og óskar þess að hann hefði fæðst nógu snemma til að geta stundað GBGB, klúbb í New York sem var einn af stökkpöllum pönksins. 
 
Ekki að þú haldir að hann væri pönkari þegar þú sérð hann. Hann er bara venjulegur strákur, alltaf tengdur iPodnum. Þar til dag einn að líf hans breytist þegar hin vinsæla Charlotte (Aly Michalka, úr Aly & AJ) fær hann til liðs við sig vegna sérfræðiþekkingar hans á tónlist. Hún leiðir þriggja manna hljómsveit sem ætlar að taka þátt í fylkjakeppninni Hljómsveitabardagi, og Will heldur (réttilega) að hún eigi ekki neinn möguleika á sigri.

Hann tekur eftir einmana stúlku að nafni Sa5m ("5 heyrist ekki"). Hún er leikin af Vanessa Hudgens ("High School Musical") sem hlédræg, yfirleitt svartklædd, dularfull. Eitt af leyndarmálum hennar er að hún er hæfileikaríkur tónlistarmaður. Will fær hana með í hljómsveitina og aðra tónlistarmenn sem hafa verið til hliðar, meðal þeirra mjög hljóðláta asíska stúlku að nafni Kim Lee (Lisa Chung), sem er klassískur píanóleikari en spilar frábærlega á hljómborð jafnvel þó að henni sé lífsómögulegt að brosa.

Hljómsveit Charlotte heitir Glory Dogs. Will endurskýrir hana sem "Ég get ekki haldið áfram ég mun halda áfram," sem óhjákvæmilega endurspeglar aðstæður sem koma upp í myndinni. Hann leggur sig allan fram við að endurútfæra tónlist bandsins, svo mikið að yfirþyrmandi móðir hans (Lisa Kudrow) verður áhyggjufull - en hún kemur til að hlusta á hljómsveitina og heillast.

Will veit ekkert um stelpur. Þegar Charlotte segir að henni líki virkilega við hann, trúir hann því, jafnvel þó að fyrrverandi klappstýra sé ólíkleg til að velja nörd eins og hann. Sa5m sýnir mikinn áhuga á tilhugalífi og er augljóslega rétta stúlkan fyrir hann. Einnig er í myndinni myndarlegi útskriftarneminn Ben (Scott Porter), en hljómsveit hans sigraði tónlistarkeppnina árið áður, auk þess að hann er fyrrverandi kærasti Charlotte. Hann er svona ruddi sem þykist rekast óvart utan í þig á göngunum.

Kvikmyndin leiðir að fylkiskeppninni, að sjálfsögðu, þar sem mörg sambönd eru ræktuð og vandamál leyst. Þannig að sögufléttan inniheldur í sjálfu sér ekkert óvænt. Það sem fær myndina til að virka er tilfinning hennar fyrir persónum sínum, og heillandi aðalleikarar. Gaelan Connell hefur verið líkt við ungan John Cusack og Tom Hanks, af góðri ástæðu; hann er aðlaðandi en svolítið sérstakur, ekki of myndarlegur, góður í að skipta úr sjálfhverfu viðhorfi yfir í nýfundið traust sem framleiðandi hljómsveitar. Það gerir ótrúlegustu hluti fyrir mannorð manns í framhaldsskóla þegar allir trúa því að vinsælasta stelpan sé hrifin af honum.

Flestir nemendur eru að sjálfsögðu algjörlega blindir á hæfileika Sa5m, sem er reyndar regla í veruleikanum frekar en undantekning. Líttu í kringum þig á skólalóð eftir þeim snjöllu sem passa ekki inn, og þú munt finna þá sem ná lengra en "hinir vinsælu"; það er ekki óbrigðull sannleikur, en gagnlegt að kannast við tilhneiginguna. Þú munt líka finna einhvern sem gæti sagst líka við þig og meint það bókstaflega.

Bæði Aly Michalka og Vanessa Hudgens eru tónlistarmenn, nokkuð sem gerir æfingar og framkomu á tónleikum sannfærandi. Þær búa einnig yfir fegurð og nærveru, og virðast samt raunverulegar. Lisa Kudrow forðast gildrur hinnar ofverndandi móður; við lærum eitthvað um það af hverju hún hefur svona miklar áhyggjur. Þetta er ekki skotheld mynd, en fyrir það sem hún er, þá er hún heillandi og ekkert saklausari en hún þarf að vera


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband