Toy Story (1995) ****

 
Roger Ebert fjallar hér um 1995 útgáfu Toy Story, ekki hina endurútgefnu Toy Story 3D.

"Toy Story" skapar nýjan alheim út frá nokkrum barnasvefnherbergjum, bensínstöð og hluta af hraðbraut. Hetjurnar eru leikföng sem lifna við þegar enginn fylgist með þeim. Aðal átök myndarinnar eru á milli gamaldags kúreka sem hefur alltaf verið uppáhalds leikfang stráksins sem á hann, og nýju geimlöggunnar sem gæti orðið hið nýja eftirlæti. Skúrkurinn er illkvittinn strákur í næsta húsi sem tekur leikföng í sundur og setur þau aftur saman á djöfullegan hátt. Niðurstaðan er myndræn rússíbanareið.

Mynd eins og þessi virkar fyrir börn vegna þess að hún segir skemmtilega sögu, inniheldur fullt af gríni, og er spennandi að fylgjast með. Eldri áhorfendur verða kannski jafnvel enn djúpt sokknari í myndina, vegna þess að "Toy Story" fyrsta kvikmyndin sem gerð er eingöngu í tölvu, tekst að grípa þrívíddarveruleika og frelsi í hreyfingum sem er bæði frelsandi og ferskt. Því meira sem þú lærir um hvernig myndin var gerð, því dýpri virðingu berðu fyrir henni.

Rifjaðu upp hið fagra teiknimyndaatriði í "Beauty and the Beast" þar sem Fríða og Dýrið dönsuðu saman í stórum sal undir gullfallegri ljósakrónu, og ímyndaðu þér þetta atriði sem teiknimynd í fullri lengd, og þá nærðu hugmyndinni. Kvikmyndin lætur ekki bara persónur hreyfast fyrir framan málaðan bakgrunn; hún gefur bæði persónum og umhverfi þeirra líf, og gerir sjónarhorni myndavélarinnar mögulegt að að fljóta í kring um atburðina. Tölvugrafík er orðin það vel unnin að stundum tekurðu ekki eftir henni (eldflaugaskotið í "Apollo 13" var gert að mestu í tölvu). Hér tekurðu eftir þessu, enda ferðastu gegnum rýmið með ferskri frelsistilfinningu.

Hugsum til dæmis um atriði þar sem Buzz Lightyear, nýja geimleikfangið, hoppar fram af rúmstokknum, skoppar af bolta, þýtur í átt til lofts, spinnur í hringi á meðan hann heldur í leikfangaþyrlu og stekkur inn í bílabraut sem tekur hann í hringi eftir brautinni. Horfðu á Buzz, bakgrunninn og sjónarhornið -- sem teygist og þjappast saman til að hafa áhrif á tilfinninguna fyrir hraða. Þetta er ótrúleg ferð.

Ég lærði úr nýrri grein í Wired tímaritinu að kvikmyndin var framleidd með 300 öflugum Sun örgjörvum, þeim hröðustu sinnar tegundar, og það tók þá um 800.000 klukkustundir af tölvutíma að vinna þetta og önnur atriði -- um tvær til fimmtán klukkustundir fyrir hvern ramma. Hver rammi krefst allt að 300 MB af upplýsingum, sem þýðir að á 1 GB harða disknum mínum, hefði ég pláss fyrir um það bil þrjá ramma, eða einn áttunda úr sekúndu. Að sjálfsögðu eru tölvur jafn heimskar og kassi með múrsteinum ef þær eru ekki vel forritaðar, og leikstjórinn John Lasseter, frumkvöðull í tölvugrafík, hefur tekist að virkja óvenjulegt ímyndunarafl og mikla orku til að gera þetta mögulegt.

En nóg af þessu þotuhausadóti. Við skulum tala um myndina. Lasseter og teymi hans opna myndina í svefnherbergi barns, þar sem leikföng vakna til lífs þegar eigandi þeirra er fjarverandi. Ótvíræður konungur leikfanganna er Woody, kúreki með rödd Tom Hanks. Meðal vina hans eru herra Kartöfluhaus (Don Rickles), Gormahundur (Jim Varney), Svínið Skinka (John Ratzenberger) og Bo Peep (Annie Potts). Leikföngin úr leikherberginu eru flest kunnugleg enda endurgerðir vinsælla leikfanga úr veruleikanum (sem gæti verið auglýsingabrella, en hverjum er ekki sama), meðal þeirra eru stafsetningartölva sem skráir atburði líðandi stundar (þegar herra Kartöfluhaus finnur loks frú Kartöfluhaus, eru skilaboðin "Húbba! Húbba!").

Dag einn verða smá hrókfæringar í þessum litla heimi. Eigandi leikfanganna, Andy, á afmæli. Woody fær alla tindátana í hermannafötunni til að njósna um það sem gerist niðri í veislunni, en tindátarnir nota talstöðvar frá Playskool til að láta vita um þróun mála. Hæsta viðvörunarstig fer í gang þegar nýtt leikfang kemur á svæðið, Buzz Lightyear (Tim Allen), geimlögga.

Buzz er viðkunnanlegasta leikfang kvikmyndarinnar, því að hann fattar ekki brandarann. Hann heldur að hann sé alvöru geimlögga, sem hefur tímabundið villst af leið í mikilvægum leiðangri, og hann ætlar að laga geimskip sitt hvað sem það kostar -- pappakassann sem hann kom í. Það er alvöru dýpt seinna í myndinni þegar hann sér sjónvarpsauglýsingu um sjálfan sig, og uppgötvar að hann er bara leikfang.

Sögufléttan fer virkilega í gang þegar fjölskyldan ákveður að flytja, og Woody og Buzz eru skyldir eftir á bensínstöð án hugmyndar um hvernig þeir geta komist heim. (Það gjörbreytir aðstæðunum þegar leikfangið sjálft segir, "Ég er týnt leikfang!") Og seinna er hrollvekjandi atriði í svefnherbergi Sid, hins hryllilega drengs í næsta húsi, sem tekur leikföng sín í sundur og setur þau aftur saman til að þau verði eins og skrímsli úr martröð. (Systir hans sem þjáist stöðugt vegna grimmdar hans neyðist til að halda teveislu með hauslausum dúkkum).

Þegar ég sá "Toy Story", fann ég fyrir sömu hrifningu og ég hafði þegar ég sá "Who Framed Roger Rabbit". Báðar myndirnar taka hinn þekkta heim í sundur á myndrænan hátt og setja hann svo aftur saman til að við getum séð hann upp á nýtt. "Toy Story" er ekki jafn uppfinningasöm í sögufléttum eða jafn snjöll í húmor sínum og "Rabbit" eða Disney teiknimyndir eins og "Beauty and the Beast"; hún er meira mynd um vináttu á ótroðnum slóðum. Mesta ánægjan er fyrir augun. En hvílík ánægja! Þegar ég horfði á myndina fannst mér að ég væri staddur í dögun nýrra tíma teiknimynda, sem blandar saman því besta úr teiknimyndum og veruleikanum, skapar heim sem er einhvers staðar á milli, þar sem rýmið beygir ekki bara heldur snappar, krakkar og poppar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband