Avatar (2009) ****


Þegar ég horfði á "Avatar" leið mér eiginlega eins og þegar ég sá "Star Wars" árið 1977. Það var önnur mynd sem ég fór á með óráðnar eftirvæntingar. Kvikmynd James Cameron hefur vakið mikla og blandna eftirvæntingu kvikmyndaáhugamanna, rétt eins og þegar hann gerði "Titanic". Enn og aftur tekst honum að þagga niður í efasemdum með því að framreiða stórfenglega kvikmynd. Það er ennþá að minnsta kosti einn maður til í Hollywood sem kann að eyða 250 milljón dollurum viturlega, eða var það 300 milljónum?

"Avatar"er ekki bara myndræn skemmtun, þó að hún sé það vissulega. Hún er tæknibylting. Hún inniheldur skýr skilaboð um umhverfisvernd og gegn stríði. Hún er eins og sköpuð til að vera dýrkuð af hópum fólks. Hún inniheldur slík sjónræn snilldaratriði að það borgar sig að horfa á hana oftar en einu sinni. Hún finnur upp nýtt tungumál, Na'vi, eins og "Lord of the Rings" gerði, þó að ég efist um, til allrar hamingju, að manneskjur geti talað það, ekki einu sinni unglingar. Í myndinni verða til nýjar kvikmyndastjörnur. Hún er viðburður, ein af þessum myndum sem þér finnst þú verðir að sjá bara til að vera samræðuhæfur.

Sagan gerist árið 2154 og fjallar um ferð bandarískra hersveita til tungsl sem er á stærð við Jörðina, og á sporbaug umhverfis gríðarstóra stjörnu. Þessi nýi heimur, Pandora, er fullur af náttúruauðlindum sem Jörðin þarf nauðsynlega á að halda. Pandara ógnar ekki Jörðinni á neinn hátt, en við sendum samt árásarher inn til að ná yfirráðum. Vígbúnir sjóliðar beita vélbyssum og fljúga víggirtum svifskipum yfir regnskóga og láta sprengjum rigna yfir þá. Þér er frjálst að skilja þetta sem táknsögu um nútímastjórnmál. Cameron gerir það greinilega.

Pandora er þakin skógi sem nær yfir alla plánetuna. Þar búa hinir friðsömu Na'vi, kynþáttur með bláa húð og gullin augu, tignarlegir risar, um þrír og hálfur metri á hæð. Manneskjur geta ekki andað að sér andrúmsloftinu og landslagið gerir okkur dvergvaxna. Við vogum okkur einungis út úr lendingarskipinu með svipmyndum-- Na-vi klónum sem ræktaðir eru og hugum stjórnað af mönnnum sem eru í einhvers konar dái á meðan þeir eru nettengdir í skipinu. Á meðan þeir eru í hlutverki svipmyndanna; sjá þeir, finna fyrir ótta, finna bragð og hafa tilfinningar eins og Na'vi, og hafa sömu líkamlegu burði.

Þetta síðasta er frelsandi fyrir hetjuna, Jake Sully (Sam Worthington), sem er lamaður fyrir neðan mitti. Hann hefur verið kallaður til starfa þar sem hann hefur sömu gen og látinn tvíburabróðir hans, sem þessi rándýra svipmynd var sköpuð fyrir. Í stöðu svipmyndar getur hann gengið aftur, og þóknunin fyrir þessa þjónustu verður að hann fær framkvæmda afar dýra aðgerð til að koma aftur lífi í fætur hans. Kenningin er sú að hann er ekki í neinni hættu, því að ef svipmynd hans eyðist, helst líkami hans ósnertur. Það er kenningin.

Á Pandora byrjar Jake sem góður hermaður og verður síðan eins og innfæddur eftir að hin lipra og hugrakka Neytiri (Zoe Saldana) bjargar lífi hans. Hann uppgötvar að það er satt, eins og hinn árásargjarni ofursti Miles Quaritch (Stephen Lang) hafði tilkynnt þeim, að næstum hver einasta lífvera á þessari plánetu vill fá þá í hádegismat. (Svipmyndir eru ekki gerðar úr Na'vi kjöti, en reyndu að útskýra það fyrir 30 tonna nashyrningi í árásarhug, með hákarlatrýni).

Na'vi kynþátturinn kemst af á þessari plánetu með því að þekkja hana vel og lifa í jafnvægi við náttúruna, og með því að búa yfir visku gagnvart öllum þeim dýrum sem deila með þeim plánetunni. Á þennan og óteljandi fleiri vegu líkjast þeir frumbyggjum Ameríku. Eins og þeir, temja þeir aðrar tegundir til að koma þeim á milli staða--ekki hesta, heldur tignarlegar fljúgandi skepnur sem líkjast helst drekum. Atriðið þar sem Jake veiðir og temur eina af þessum miklu skepnum er eitt af stórfenglegustu atriðum myndarinnar.

Eins og "Star Wars" og "LOTR," beitir "Avatar" nýrri kynslóð tæknibrellna. Cameron sagði að hún myndi gera það, og margir efuðust. Hún gerir það. Pandora er að mestu tölvubrella. Na'vi eru gerðir með þrívíðum upptökum af hreyfingum leikara. Hver þeirra hefur einstakt útlit, eru sannfærandi einstaklingar, og tekst að finna leið framhjá þeirri gryfju að gera þá að kynjaverum úr furðudal. Cameron og listamönnum hans tekst að gera hina bláhúðuðu og risavöxnu Neytiri með gullnu augun og langan, sveigjanlegan hala, --svei mér þá. Kynþokkafulla.

Þó að myndin sé 163 mínútur fannst mér hún ekki löng. Hún inniheldur svo mikið. Mannlegu sögurnar. Na'vi sögurnar, því að Na'vi eru líka skapaðir sem einstaklingar. Fjölbreytileiki plánetunnar, sem inniheldur hnattrænt leyndarmál. Styrjöldina, þegar Jake tekur þátt í uppreisn gegn fyrrverandi félögum sínum. Lítil tignarleg atrið eins og fljótandi skepna sem lítur út eins og blanda af fjúkandi fiðurkollu og marglyttu sem rekur áfram, og er holdgervingur hins góða. Eða undraverðar eyjur sem fljóta í skýjunum.

Ég hef kvartað yfir því að margar nýlegar myndir fórni sögunni þegar kemur að lokaþættinum og hella sér út í brjálæðislegan hasar í staðinn. Cameron gerir það í raun hérna, en hann hefur byggt persónur sínar svo vel að það skiptir máli hvað þær gera í bardögunum og hvernig þær gera það. Það eru mál að veði sem hafa meira vægi en einfaldlega hver sigrar.

Cameron lofaði að afhjúpa næstu kynslóð þrívíddar í "Avatar." Ég er alræmdur fyrir gagnrýni mína þegar kemur að þessari tækni, sem mér finnst óþarfa truflun frá hinu fullkomna raunsæi tvívíddarmynda. Útgáfa Cameron er það besta sem ég hef séð -- og það mikilvægara, útfærslan er afar vönduð. Myndin notar aldrei þrívídd bara vegna þess að hún hefur hana, og reynir ekki stöðugt að brjótast í gegnum fjórða vegginn. Cameron virðist einnig vera mjög meðvitaður um veikleika þrívíddar þegar kemur að því að ferlið deyfir birtu myndarinnar, og jafnvel með kvikmynd sem gerist að mestu innan dyra og í regnskógi, er nóg af ljósi. Ég sá myndina á góðu tjaldi í þrívídd í AMC kvikmyndahúsinu við River East, í Chicago, og var hrifinn. Hún gæti verið stórfengleg í sönnu IMAX. Gangi þér vel að fá miða fyrir febrúar.

Það þarf helvíti taugasterkan mann til að standa í miðri Óskarútsendingu og titla sjálfan sig Konung Heimsins. James Cameron var rétt í þessu að ná endurkjöri.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

var að koma af þessari mynd og eins og ég sagði við tengdó eftir að ég kom heim var einfaldlega.

James cameron takst það enn og aftur bara miklu miklu miklu betra.

og peningarnir voru 400 milljónir dollara, lang dýrasta mynd í sögunni

Hörður Rafnsson (IP-tala skráð) 19.12.2009 kl. 23:28

2 identicon

Vil ekki vera partý púpper... Lúkkið var fínt en söguþráðurinn hálfgerð klisja á köflum. Eins fannst mér holningin á Navíunum hálfgert prump, blanda af Jar Jar frænda þínum og strumpum. Kjartan garlakarl hefði átt að dúkka upp til að trompa ræmuna :)

Eigðu góð áramót og gott ár vinur.

Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband