Avatar (2009) ****


Þegar ég horfði á "Avatar" leið mér eiginlega eins og þegar ég sá "Star Wars" árið 1977. Það var önnur mynd sem ég fór á með óráðnar eftirvæntingar. Kvikmynd James Cameron hefur vakið mikla og blandna eftirvæntingu kvikmyndaáhugamanna, rétt eins og þegar hann gerði "Titanic". Enn og aftur tekst honum að þagga niður í efasemdum með því að framreiða stórfenglega kvikmynd. Það er ennþá að minnsta kosti einn maður til í Hollywood sem kann að eyða 250 milljón dollurum viturlega, eða var það 300 milljónum?

"Avatar"er ekki bara myndræn skemmtun, þó að hún sé það vissulega. Hún er tæknibylting. Hún inniheldur skýr skilaboð um umhverfisvernd og gegn stríði. Hún er eins og sköpuð til að vera dýrkuð af hópum fólks. Hún inniheldur slík sjónræn snilldaratriði að það borgar sig að horfa á hana oftar en einu sinni. Hún finnur upp nýtt tungumál, Na'vi, eins og "Lord of the Rings" gerði, þó að ég efist um, til allrar hamingju, að manneskjur geti talað það, ekki einu sinni unglingar. Í myndinni verða til nýjar kvikmyndastjörnur. Hún er viðburður, ein af þessum myndum sem þér finnst þú verðir að sjá bara til að vera samræðuhæfur.

Sagan gerist árið 2154 og fjallar um ferð bandarískra hersveita til tungsl sem er á stærð við Jörðina, og á sporbaug umhverfis gríðarstóra stjörnu. Þessi nýi heimur, Pandora, er fullur af náttúruauðlindum sem Jörðin þarf nauðsynlega á að halda. Pandara ógnar ekki Jörðinni á neinn hátt, en við sendum samt árásarher inn til að ná yfirráðum. Vígbúnir sjóliðar beita vélbyssum og fljúga víggirtum svifskipum yfir regnskóga og láta sprengjum rigna yfir þá. Þér er frjálst að skilja þetta sem táknsögu um nútímastjórnmál. Cameron gerir það greinilega.

Pandora er þakin skógi sem nær yfir alla plánetuna. Þar búa hinir friðsömu Na'vi, kynþáttur með bláa húð og gullin augu, tignarlegir risar, um þrír og hálfur metri á hæð. Manneskjur geta ekki andað að sér andrúmsloftinu og landslagið gerir okkur dvergvaxna. Við vogum okkur einungis út úr lendingarskipinu með svipmyndum-- Na-vi klónum sem ræktaðir eru og hugum stjórnað af mönnnum sem eru í einhvers konar dái á meðan þeir eru nettengdir í skipinu. Á meðan þeir eru í hlutverki svipmyndanna; sjá þeir, finna fyrir ótta, finna bragð og hafa tilfinningar eins og Na'vi, og hafa sömu líkamlegu burði.

Þetta síðasta er frelsandi fyrir hetjuna, Jake Sully (Sam Worthington), sem er lamaður fyrir neðan mitti. Hann hefur verið kallaður til starfa þar sem hann hefur sömu gen og látinn tvíburabróðir hans, sem þessi rándýra svipmynd var sköpuð fyrir. Í stöðu svipmyndar getur hann gengið aftur, og þóknunin fyrir þessa þjónustu verður að hann fær framkvæmda afar dýra aðgerð til að koma aftur lífi í fætur hans. Kenningin er sú að hann er ekki í neinni hættu, því að ef svipmynd hans eyðist, helst líkami hans ósnertur. Það er kenningin.

Á Pandora byrjar Jake sem góður hermaður og verður síðan eins og innfæddur eftir að hin lipra og hugrakka Neytiri (Zoe Saldana) bjargar lífi hans. Hann uppgötvar að það er satt, eins og hinn árásargjarni ofursti Miles Quaritch (Stephen Lang) hafði tilkynnt þeim, að næstum hver einasta lífvera á þessari plánetu vill fá þá í hádegismat. (Svipmyndir eru ekki gerðar úr Na'vi kjöti, en reyndu að útskýra það fyrir 30 tonna nashyrningi í árásarhug, með hákarlatrýni).

Na'vi kynþátturinn kemst af á þessari plánetu með því að þekkja hana vel og lifa í jafnvægi við náttúruna, og með því að búa yfir visku gagnvart öllum þeim dýrum sem deila með þeim plánetunni. Á þennan og óteljandi fleiri vegu líkjast þeir frumbyggjum Ameríku. Eins og þeir, temja þeir aðrar tegundir til að koma þeim á milli staða--ekki hesta, heldur tignarlegar fljúgandi skepnur sem líkjast helst drekum. Atriðið þar sem Jake veiðir og temur eina af þessum miklu skepnum er eitt af stórfenglegustu atriðum myndarinnar.

Eins og "Star Wars" og "LOTR," beitir "Avatar" nýrri kynslóð tæknibrellna. Cameron sagði að hún myndi gera það, og margir efuðust. Hún gerir það. Pandora er að mestu tölvubrella. Na'vi eru gerðir með þrívíðum upptökum af hreyfingum leikara. Hver þeirra hefur einstakt útlit, eru sannfærandi einstaklingar, og tekst að finna leið framhjá þeirri gryfju að gera þá að kynjaverum úr furðudal. Cameron og listamönnum hans tekst að gera hina bláhúðuðu og risavöxnu Neytiri með gullnu augun og langan, sveigjanlegan hala, --svei mér þá. Kynþokkafulla.

Þó að myndin sé 163 mínútur fannst mér hún ekki löng. Hún inniheldur svo mikið. Mannlegu sögurnar. Na'vi sögurnar, því að Na'vi eru líka skapaðir sem einstaklingar. Fjölbreytileiki plánetunnar, sem inniheldur hnattrænt leyndarmál. Styrjöldina, þegar Jake tekur þátt í uppreisn gegn fyrrverandi félögum sínum. Lítil tignarleg atrið eins og fljótandi skepna sem lítur út eins og blanda af fjúkandi fiðurkollu og marglyttu sem rekur áfram, og er holdgervingur hins góða. Eða undraverðar eyjur sem fljóta í skýjunum.

Ég hef kvartað yfir því að margar nýlegar myndir fórni sögunni þegar kemur að lokaþættinum og hella sér út í brjálæðislegan hasar í staðinn. Cameron gerir það í raun hérna, en hann hefur byggt persónur sínar svo vel að það skiptir máli hvað þær gera í bardögunum og hvernig þær gera það. Það eru mál að veði sem hafa meira vægi en einfaldlega hver sigrar.

Cameron lofaði að afhjúpa næstu kynslóð þrívíddar í "Avatar." Ég er alræmdur fyrir gagnrýni mína þegar kemur að þessari tækni, sem mér finnst óþarfa truflun frá hinu fullkomna raunsæi tvívíddarmynda. Útgáfa Cameron er það besta sem ég hef séð -- og það mikilvægara, útfærslan er afar vönduð. Myndin notar aldrei þrívídd bara vegna þess að hún hefur hana, og reynir ekki stöðugt að brjótast í gegnum fjórða vegginn. Cameron virðist einnig vera mjög meðvitaður um veikleika þrívíddar þegar kemur að því að ferlið deyfir birtu myndarinnar, og jafnvel með kvikmynd sem gerist að mestu innan dyra og í regnskógi, er nóg af ljósi. Ég sá myndina á góðu tjaldi í þrívídd í AMC kvikmyndahúsinu við River East, í Chicago, og var hrifinn. Hún gæti verið stórfengleg í sönnu IMAX. Gangi þér vel að fá miða fyrir febrúar.

Það þarf helvíti taugasterkan mann til að standa í miðri Óskarútsendingu og titla sjálfan sig Konung Heimsins. James Cameron var rétt í þessu að ná endurkjöri.


Coco Before Chanel (2009) ***1/2


Audrey Tautou sem Coco Chanel: Hún er ánægð með sjóarablússuna sína.

Við tölum um að fólk "finni sig upp". Það gerir ráð fyrir að þau viti hvern það vill skapa. "Coco Before Chanel" hefst með yfirgefinni munaðarlausri stúlku að nafni Gabrielle, fylgist með henni vaxa úr grasi og verða söngkona, sem síðan sveigir hjá vændi með því að verða hjákona. Hún virðir heiminn fyrir sér bakvið sígarettureyk og sér hann með miskunnarlausu raunsæi og þrjóskum metnaði. Hún ætlar sér ekki í upphafi að verða áhrifaríkasti tískuhönnuður 20. aldarinnar. Hún byrjar með því að hanna hatt, afla sér smá tekna og reyna að bæta sig. Hún sækist eftir peningum og sjálfstæði. Mann grunar að hún hefði verið álíka metnaðarfull hefði hún fundið upp á betri músargildru og stofnað heimilistækjastórveldi.

Náttúruisminn í kvikmynd Anne Fontaine ætti vel við í skáldsögum eftir Dreiser. Stjarna hennar, Audrey Tautou, sem gæti starfað við það eitt að vera elskuleg, forðast að gera Coco Chanel ljúfa, mjúka eða vekja með henni sérstaka samúð. Tískulínur hennar tóku kannski þátt í að frelsa konur undan óhófi 19. aldarinnar, en hún hannar þær ekki út frá hugsjónum, heldur vegna þess að þær endurspegla óbreytilegan persónuleika hennar. Hún setti konur ekki í sjóarablússur vegna sannfæringar. Henni fannst einfaldlega gott að vera í þeim.

Kannski vegna væmnilausrar nálgunar á lífi Chanel, finnst mér "Coco Before Chanel" vera minni ævisaga og meira drama. Hún er ekki um leið fátækrar manneskjur að ríkidæmi, heldur um að vera sá hæfasti til að komast af. Er hin unga og fátæka Coco, notuð af ríka glaumgosanum Etienne Balsan (Benoit Poelvoorde)? Kannski hélt hann það snemma í sambandi þeirra, en hún notar hann líka. Henni líkar við hann, en hún er með honum vegna peninga, stöðu og til að fá inngöngu, ekki bara kynlíf og rómantík. Hún lítur á þetta sem sanngjörn skipti. Hún er ekki ósvífið tálkvendi, heldur kapítalisti sem rukkar fyrir fjárfestingu sína.

Í gegnum Balsan kynnist hún hinni frökku leikkonu Emilienne (Emmanuelle Devos) og Boy Capel (Alessandro Nivola), Englendingi. Það er ljóst að fyrir Chanel þýðir ástarlot með manni eða konu nánast það sama, en Boy elskar hana í raun og eru, og það er sérstök lífsreynsla fyrir Coco. Hlutirnir hefðu líklega þróast á annan hátt en þeir gerðu í hennar lífi hefði samband þeirra lifað af. Baron Balsan, ekki blinduð af ást, sér Boy sem nákvæmlega það sem hann er -- nokkuð sem Coco, í þetta skiptið, tókst ekki að átta sig á. 

Tautou er ekki falleg á þennan hefðbundna hátt, heldur meira einstaklega aðlaðandi. Það er jafnt anda hana sem andliti að þakka, og hvernig hún lyftir efri vörinni frekar en útlínunum. Hún er umfram allt afar öguð; í lok myndarinnar lærum við að Chanel dó árið 1971 -- "á Sunnudegi," í vinnunni, rétt eins og hún vann hvern einasta dag ævi sinnar. Hún hafði frumlega sýn á tísku, já, en við fáum á tilfinninguna að hún þurfti ekki á henni að halda til að ná árangri. Hún vann sína vinnu, samdi við fólk á raunsæjan hátt, var hörð í samningagerð og sá tísku sem vinnu, ekki starfsframa eða köllun.

Með því að undirstrika það verður kvikmyndin áhugaverðari. Við höfum séð nógu margar kvikmyndir um kvenhetjur sem fljóta með í flóðbylgju blessaðra örlaga sinna. Þannig virkar þetta ekki. Sigurvegarinn fær verðlaunin. Jafnvel í lífinu byrjarðu langt frá endamarkinu. Í tilfelli Gabrielle litlu og systur hennar Adrienne (Marie Gillain), gaf munaðarleysingjahæliið þeim líklega betri möguleika í lífinu en foreldrarnir sem þær misstu. Þær fengu menntun, og það er mögulegt að tilfinning Chanel fyrir tísku hafi orðið fyrir áhrifum af hinum óskreyttu, hörðu línum svarthvítra nunnuklæða. Byrjaði hún að kenna einfaldan klæðaburð við konur með völd?

Ungu táningsstelpurnar brjótast inn í lægstu hringi tónlistarhalla, flytja lög í dúettum þar sem æskan er meira hrífandi en hæfileikar þeirra.Tónleikahallir laða að sér sykurpabba sem bæði meta aðstæðurnar og velja. Myndin missir eitthvað af því sem er heillandi við hana þegar Coco er skotið á framabrautina. En það er þegar sögunni líkur; myndin heitir ekki "Coco Before Chanel" að ástæðulausu.

Saga hennar heldur áfram í allt annarri mynd, "Coco Chanel & Igor Stravinsky," sem frumsýnd verður síðar á þessu ári.


The Twilight Saga: New Moon (2009) *


Robert Pattinson og Kristen Stewart: Hversu hvít húðin, hversu rauðar varirnar.

Það ætti að handtaka persónurnar í þessari mynd fyrir að hanga slórandi með gremjusvip. Aldrei hafa unglingar haft jafn mikla þörf fyrir rafstuði. Reyndar eru sumir þeirra meira en 100 ára gamlir, en samt: persónutöfrar þeirra eru í anda Madame Tussaud.

"The Twilight Saga: New Moon" tekur hinn daufa sigur "Twilight" (2008), rekur hana í gegn og skilur eftir sem uppvakning. Þú veist að þú ert í vanda með framhaldsmynd þegar gárungar mæla með að þú sjáir frekar fyrstu myndina tvisvar. Persónurnar hafa greinilega gert það. Löng opnunaratriði þessarar myndar eru algjörlega óskiljanleg nema þú hafir séð fyrstu myndina, lesið báðar fyrstu bækur Stephanie Meyer og kunnir þær utanað. Edward og Bella eyða drungalegum augnablikum saman þar sem þau horfa hugsandi hvort á annað. Sama sagan.

Bella (Kristen Stewart) býr ennþá heima hjá fráskildum föður sínum (Billy Burke), löggu sem agar dóttur sína með því að lýsa yfir að hún fái aldrei aftur að fara út úr húsi, hann hverfur síðan svo að hún geti stokkið fram af hömrum, gengið um ógnandi skóg, og flogið til Ítalíu svo að myndin geti minnt þig á hið sorglega lokaatriðið úr, bíddu, Rómeó og Júlía! Sama leikriti og Edward las upp úr í sjálfhverfri og hégómalegri baráttu upphafsatriðsins.

Já, Edward (Robert Pattinson) er kominn aftur í skólann þar sem hann endurtekur gaggó í 84. sinn. Bella sér hann á bílastæði skólans þar sem hann gengur til hennar í hægmynd, klæddur einum af þessum Edwörsku Bítlajökkum með fjólubláum kraga, þrunginn af fegurð. Hversu hvít húð hans, hversu rauðar varirnar. Miðaldra hrörnun gæti breytt honum í Jókerinn. 

Edward og hinir meðlimir Cullen vampíruhópsins standa mikið á sama stað með fýlusvip. Langar pásur trufla lengri pásur. Hlustið krakkar! Þið eruð kannski ódauðleg, en við erum að missa af strætó!

Edward fer burt vegna þess að Bellu var ekki ætlað að vera með honum. Þrátt fyrir að hann og félagar hans séu yfirlýstar grænmetisætur og vampírur, þegar hún sker sig í afmælisveislu sinni á pappír stekkur einn úr hópnum á hana eins og hákarl á túnfisk.

Í fjarveru hans kynnist hún Jake (Taylor Lautner), indælum Indíánastrák. "Þú ert kominn í gott form!" segir hún. Já, virkilegt form, og fljótlega hættir hann að nota skyrtu og stendur úti í vetrarrigningunni eins og ef hann væri--hvað, ekkert annað en villt skepna. Þau þurfa ekki yfirhafnir eins og okkar, manstu, af því að Guð gaf þeim þeirra.

Þeir sem eru ekki á meðal þeirra fimm prósent áhorfenda sem vita það þegar (bannað að segja) verða hissa á því að Jake er varúlfur.

Bella: Svo…þú ert varúlfur?
Jake: Síðast þegar ég gáði.
Bella: Geturðu ekki fundið leið til að... bara hætta því?
Jake (þolinmóður): Þetta er ekki val um lífstíl, Bella.

Jake er undir áhrifum, eða stjórnað, eða eitthvað, af Sam, öðrum meðlimi fjölskyldunnar. Hann er einhvers konar aðal úlfur. Sam og vinir hans þrír birtast yfirleitt í löngum skotum, skyrtulausir í rigningunni, hangandi við jaðar rjóðursins eins og þeir vonist til að hlaupa af stað og sökkva tönnunum í ferskt kjöt.

Bella skrifar löng bréf til fjarverandi vampíruvinkonu sinnar Alice (Ashley Greene), þar sem hún gerir ekkert annað en að útskýra af hverju hún getur ekkert að því gert hvernig hún laðast að þessum grimmu, húmorslausu og hégómalegu mönnum. Það getur ekki verið kynlífið. Eins og ég útskýrði þegar í rýni minni á fyrstu myndinni, þá er "The Twilight Saga" uppblásin myndhverfing af skírlífi unglinga, þar sem refsingin fyrir að missa meydóminn verður næsta verkefni fyrir ímyndunarafl þitt. 

Í myndinni eru falleg tún full af pottablómum sem virðast hafa verið gróðursett fyrir einhverjum klukkustundum af starfsfólki myndarinnar, og engum sem þekkir ekki til söguþráðarins. Þar sem þau vita þetta allt og við vitum allt, er reynslan af myndinni eins og að keyra á traktor í lægsta gír gegnum þungbúið haf brilljantíns.


A Serious Man (2009) ****

Sy Ableman, besti vinur Larry Gopnik, hefur stolið eiginkonu hans frá honum og hughreystir hann í kjölfarið. (v-h, Michael Stuhlbarg og Fred Melamed).
 
Við lærum úr Jobsbók: "Maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi." Þannig maður er Larry Gopnik. Hann kennir eðlisfræði fyrir framan krítartöflu fulla af furðulegum formúlum sem eru stærðfræðilegar sannanir að nálgast fullvissu, og hvað veit hann með fullri vissu um eigið lífi? Ekkert, þannig er það. 
 
Eiginkona hans fer frá honum með besta vini hans. Sonur hans hlustar á rokktónlist í hebreuskskóla. Dóttir hans stelur pening til að borga fyrir nefaðgerð. Mágur hans sefur á sófanum og hangir á skuggalegum börum. Byssuóður nágranni hans skelfir hann. Nemandi reynir að múta honum og kúga af honum pening á sama tíma. Fastráðningarnefnd skólans fær nafnlaus og frjálslega skrifuð bréf um hegðun hans. Eiginkona hins nágrannans er kynóð. Guð bannar þessum manni að vitja læknis. 

"Þetta er svona mynd sem þú gerir eftir að þú hefur unnið Óskarsverðlaunin," skrifar Todd McCarthy í Variety. Ég gæti ekki orðað það betur. Eftir hina virkilega frábæru "No Country for Old Men," hafa Coen bræðurnir gert hina ekki svo alvarlegu "A Serious Man," sem ber með sér öll merki um alúðarvinnu.

Hún gerist í því sem ég geri ráð fyrir að sé úthverfi í Minneapolis barnæsku bræðranna, sléttlendi fullu af flötum heimilum með stóra bílskúra en ekki mikið af trjám í kring. Í þessum heimi þráir Larry Gopnik (Michael Stuhlbarg) einskis heitar en að vera tekinn alvarlega og gera hið rétta, en tekur Guð hann alvarlega? "Ég las Jobsbók í gærkvöldi," sagði Virginia Woolf. "Mér finnst Guð ekki komast vel frá sínu." Einhver þarna uppi er ekki hrifinn af Larry Gopnik.

Myndin byrjar með skuggalega fyndinni forsögu á jiddísku, "A Serious Man" fjallar um samfélag Gyðinga þar sem hið rökrétta (eðlisfræði) skiptir engu máli í samanburði við hið dularfulla (örlögin). Gopnik getur fyllt út allar þær krítartöflur sem hann langar til, og það mun ekki gera honum neitt gagn. Kannski vegna þess að einhver forfaðir hans bauð draug yfir þröskuldinn á heimilu sínu er Larry bölvaður að eilífu. Slíkur draugur, eða dybbuki er ráfandi sál látinnar manneskju. Þú vilt ekki gera þau mistök að bjóða einni slíkri inn á heimili þitt. Þú þarft ekki að vera Gyðingur til að átta þig á því.

Mikið af því besta í "A Serious Man" kemur frá leik Michael Stuhlbarg í aðalhlutverkinu. Hann leikur ekki Gopnik sem aula eða aumingja, vælukjóa eða þunglyndissjúkling, heldur vongóðan mann sem getur ekki trúað því sem hann lendir í. Hvað annað getur farið úrskeiðis? Hvar getur hann fundið hamingju? Hvern getur hann glatt? Í kynlífsdeildinni, af hverju hræðist hann jafnvel sína eigin blautustu drauma, með blygðunarlausri nágrannakonu hans í aðalhlutverki (Amy Landecker)? Af hverju tekur besti vinur hans Sy Ableman (Fred Melamed) konu hans frá honum og huggar hann síðan með slíkri sorg, meðaumkun og skilningi? Veit Fred að Larry hefur verið dæmdur af æðri öflum?

Af hverju hunsa börnin hans hann? Af hverju er einskis nýtur mágur hans (Richard Kind) þetta miskunnarlausa sníkjudýr? Af hverju getur ekki einu sinni rabbíni hughreyst hann eða gefið honum gagnleg ráð? Af hverju skyldi nemandi hans (David Kang) greinilega falla á prófi, skilja mútufé eftir á skrifborði hans og reyna síðan að rústa lífi hans?

Af hverju, af hverju, af hverju? Þú hefur sjálfsagt heyrt gamla brandarann þar sem Job spyr Drottinn af hverju allt í lífi hans fór úrskeiðis. Manstu hverju Drottinn svarar? Ef þú manst ekki brandarann, spurðu einhvern. Ég get ekki sannað það, en ég er algjörlega viss um að helmingur mannkyns hafi heyrt einhverja útgáfu af þessum brandara.

Hef ég sagt að "A Serious Man" er rík og fyndin? Þetta er ekki hláturskallamynd, heldur blikka-blikka mynd. Þær geta líka verið fyndnar. Coen bræður hafa fundið að mestu ókunnuga leikarara eins og Stuhlbarg, Kind og Melamed sem þú hefur séð áður, en ert ekki viss um hvar. Ég ímynda mér (en veit það ekki) að Joel og Ethan hafi verið að sparka þessari sögu á milli sín í mörg ár, og minnt hvorn annan á mögulegar persónur, þegar þeir hafa séð leikara og tekið eftir þeim: "Þessa getum við notað sem Frú Samsky." Leikarar þeirra voru ekki ráðnir, þessi hlutverk voru ætluð þeim.

Uppáhaldið mitt er Melamed sem Sy Ableman. Hlutverk hans er ekki stórt en hann er svo góður að hann býr til fullskapaða manneskju í sínu fyrsta atriði, þegar hann er bara rödd í síma. Þetta er svikarinn sem hefur stolið eiginkonu Gopnik, og hann heldur að þeir hefðu gott af því að ræða saman í vinsemd. Ableman er ekki bara sorgin sjálf, heldur ráðgjafi til að hjálpa Gopnik út úr sorginni. Þú hlýtur að dást að slíkri tæfu.

Amy Landecker er fullkomin sem Frú Samsky. Hún gerir persónuna kynæsandi á afar rökréttan hátt, en allir hyggnir karlmenn myndu við fyrstu sýn vita að þeir ættu að viðhalda góðri fjarlægð. Judith Gopnik, sem eiginkona Larry, tekst að tjá í örfáum atriðum að hún er ekki að yfirgefa hann vegna ástríðu eða reiði, heldur hefur hún á tilfinningunni að hann sé sökkvandi skip og að Sy Ableman sé björgunarbátur.

Sögð er smásaga í "A Serious Man" sem passar kannski ekki inn í myndina. Ég held að hún virki sem dæmisaga um myndina, líf Gopnik, og Jobsbók. Það er þessi um Gyðingatannlækninn sem uppgötvar orðin "hjálpaðu mér" á hebresku bakvið lægri framtennur á kristnum manni. Mundu að skilaboð margra dæmisaga birtast fyrst í blálokin. 


Disney's A Christmas Carol (2009) ****

"Disney's A Christmas Carol" eftir Robert Zemeckis (og Charles Dickens, að sjálfsögðu) er hressandi myndræn upplifun og sannar að hann er einn af fáum leikstjórum sem veit hvað hann er að gera með þrívídd. Sagan sem Dickens skrifaði 1838 er enn klassísk, og þó að hún sé svolítið ofhlaðin hérna með Skrögg fljúgandi jafn frjálslega og Superman yfir götur Lundúnaborgar, tja, fyrst myndin hefur drauga, þá er pláss fyrir hvað sem er.

Ég mun ekki endursegja söguna fyrir þig. Draugar liðinna jóla, nútíðar og komandi jóla eru engar fréttir. Ég hef meiri áhuga á útliti myndarinnar, sem er í samræmi við anda Dickens (á suman hátt) þar sem hann ýkir af mikilli gleði. Yfirleitt byrjar hann með ungar hetjur og umkringir þær með samansafni persóna og teiknimyndafígúra. Hér er aðalhetjan teiknimyndafígúra: Ebenezer Skröggur, aldrei jafn grannur, aldrei jafn álútur, aldrei jafn bitur. 

Jim Carrey er þarna einhvers staðar undir lögum af skönnuðum teiknimyndaleik; þú kannast við svipmikinn munn hans, en í aðalatriðum líkjast Zemeckis persónurnar ekki leikurum sínum alltof mikið. Í "The Polar Express" vissir þú að þetta var Tom Hanks, en hérna ertu ekki jafn viss um Gary Oldman, Tim Roth, Robin Wright Penn eða Bob Hoskins.

Zemeckis treður þessum persónum í Lundúnaborg sem skekkist og teygist eftir þörfum til að endurspegla draugalegt andrúmsloftið. Sjáðu fyrir þér stofu Skröggs, jafn þrönga og háa og hann er sjálfur. Heimili frænda hans Fred, sem mótvægi, er jafn víð og hlý og persónuleiki Fred.

Teiknimyndir gefa frelsi til að sýna nánast hvað sem er, og Zemeckis notar það. Stundum virðist hann jafnvel vera að vekja upp draug Salvador Dali, eins og í sláandi atriðið þar sem öll húsgögn hverfa og turnlöguð afaklukka hangir yfir Skröggi og gólfið hallast inn í fjarlægt sjónarhorn.

Draugarnir þrír eru líka sérstaklega fígúrulegir. Ég hafði gaman af þeim fyrsta, álfi með sílogandi haus og hatt í laginu eins og kertaslökkvari. Stundum hristir hann loga sína til eins og strákur sem kastar hárlokk frá augum sínum. Eftir að annar draugur flýgur út um gluggann, hleypur Skröggur á eftir honum og sér göturnar fullar af fljótandi draugaverum, allar þeirra hlekkjaðar við þungan stein, eins og svo margir Chicago glæponar sem sofa með fiskunum.

Geturðu talað um leik í persónum sem búnar eru til í hópvinnu? Þú getur rætt um raddirnar, og Carrey vinnur yfirvinnu sem ekki aðeins Skröggur heldur allir þrír jóladraugarnir. Gary Oldman talar fyrir Bob Cratchit, Marley og Tim litla.

Ég er enn ósannfærður um að framtið kvikmynda felist í þrívíddartækni, en það segir þér eitthvað að þrjár þrívíddarmyndir Zemeckis (þar á meðal "Beowulf") hafa hrifsað af mér 11 af 12 mögulegum stjörnum.

Mér líkar við hvernig Zemeckis gerir þetta. Hann virðist öruggari en margir aðrir leikstjórar, og notar þrívídd frekar en að vera notaður af henni. Ef forgrunnurinn inniheldur nálæga hluti, þá halla þeir yfirleitt inn á við, ekki út yfir höfuð okkar. Taktu eftir í forgrunninum bjöllum sem hanga á vegg sem við þurfum að horfa framhjá þegar Skröggur, langt fyrir neðan, fer inn á heimili sitt; þegar ein og síðan hin byrja að hreyfast hægt, þetta er mjög vel gert.

Annað: tónlistin eftir Alan Silvestri laumast inn í nokkur hefðbundin jólalög, en þú þarft að hlusta sérstaklega eftir því þegar taktur "God Rest Ye Merry, Gentlemen" verður drungalegri á meðan hættuflugið gegnum Lundúnaborg stendur yfir.

Ættirðu að taka börnin með? Hmmm. Ég er ekki viss. Þegar ég var lítill, hefði þessi mynd hrætt lifandi áruna út úr mér. Í dag hafa krakkar séð meira og eru harðari. Samt sem áður, "A Christmas Carol" hefur þennan eina eiginleika sem foreldrar vonast eftir í fjölskyldumynd: Hún er skemmtileg fyrir fullorðna.


My Life in Ruins (2009) *1/2


Nia Vardalos og Alexis Georgoulis í "My Life in Ruins."
 
Nia Vardalos leikur í flestum atriðum "My Life in Ruins" með tannkremsbros fast á andlitinu, sem er engin furða, því að leikur hennar í myndinni minnir óþægilega á uppstillta myndatöku. Sjaldan hefur kvikmynd einblínt á jafn yfirborðskenndan og ósannfærandi persónu, leikinni af jafn viðstöðulausri samsemd. Ég hataði hana ekki jafn mikið og mér þótti þetta leitt.
 
Vardalos leikur Georgia, bandarískan fararstjóra í Aþenu, í samkeppni við Nico (Alistair McGowan), sem fær alltaf nýju rútuna með Kanadabúum sem haga sér vel, á meðan stúlkan okkar fær druslu sem inniheldur gangandi mennskar klisjur sem voru gamlar þegar "If It's Tuesday, This Must Be Belgium" var ný. Þú færð hávaðasama kana, ástralskar fyllibyttur, aðskilið spánskt par, fornlega Breta og að sjálfsögðu ekkil, gyðing sem hlær á yfirborðinu en er sorgmæddur innan í sér.

Þessar persónur eru jafn víðar og augljósar og skælbros, fyrir utan Richard Dreyfuss, sem gefur Irv líf, kannski of mikið líf, en hann segir slæma brandara jafnvel þó að hann sé orðinn nógu gamall til að hafa lært þá betri. Fyrir hann, mæli ég með hinu bráðskemmtilega vefsetri www.oldjewstellingjokes.com, þar sem allir gamlir Gyðingar eru fyndnari en hann. Auðvitað kemur síðar í ljós að Irv á sér viðkvæmari hliðar og gerir svolítið annað sem krafist er af Endurvinnsluhandbók Kvikmyndahandrita. (Hefurðu áhuga á að lesa hana? Sendu mér fimm dollara. Ég mun ekki senda þér hana, en takk fyrir peninginn. Trommuslátt, vinsamlegast.)

Aðal spurningin sem "My Life in Ruins" spyr er, hvað kom eiginlega fyrir Nia Vardalos sem skrifaði og lék aðalhlutverkið í "My Big Fat Greek Wedding"? Hún var svo indæl, jarðnesk, litrík, þybbnari, meira í rugli, og myndin halaði inn meira en 300 milljón dollurum. Hér er hún þynnri, ljóshærðri, betur klædd, lítur út fyrir að vera yngri og er meðvituð um það. Hún lítur út eins og sigurvegari förðunarkeppni í Hollywoodmyndvera. Hún hefur þetta snertu ekki farðann minn! útlit. Og ef einhver í Hollywood hefur hvítari, beinni, meira glansandi tennur, þá munum við aldrei vita af því, því að flest fólk heldur vörum sínum lokuðum.

Að giska á hug fólks er hættulegt og getur verið ósanngjarnt. Leyfðu mér að stinga vinsamlegast upp á því að þegar Nia Vardalos gerði "My Big Fat Greek Wedding," var hún ólíkleg, litrík kvikmyndastjarna sem tók sjálfa sig ekki of alvarlega. Hún var líka ósambærilega betri handritshöfundur en Mike Reiss, gamall gamanþáttahöfundur á sjálfsstýringu sem púslaði saman þessu slaka handriti.

Nú er hún rík, fræg og tekur sjálfa sig líklega alvarlega eftir að hafa birst á of mörgum forsíðum tímarita. Hún hefur líka gert þau mistök að koma sér í aðstæður sem eiga sér bara stað í ódýrum rómantískum skáldsögum. Rútustjórinn er drungalegur Grikki, Poupi (Alexis Georgoulis) með skegg sem virðist innblásið af Smith bræðrum. Eftir að hafa rakað það af, kemur í ljós ósennilega myndarlegur, síðhærður Adonis sem stundar að sofa hjá eldri konum ef hann telur þær vera ríkar. Þessi ástarsaga er skömmustuleg.

Í stuttu máli sagt er ekkert sem mér líkaði við "My Life in Ruins," fyrir utan nokkrar rústir. Ferðamennirnir fá jafnvel ráðgjöf frá Véfréttinni í Delfum. Það atriði minnti mig á þegar við Chaz heimsóttum fornt hof á Ise í Japan. Fyrir utan hliðin sátu munkar á pöllum og rituðu á uppvafin blöð. "Þú mátt spyrja þá um það sem þér sýnist," sagði fararstjórinn okkur. "Verður friður á okkur tímum?" spurði Chaz. Munkurinn gaf fararstjóranum okkar ákveðið augnaráð. Fararstjórinn okkar sagði, "Ó, ég held að betri spurning væri eitthvað í líkingu við, 'Hvað búa margir munkar í musterinu?"

Minnisatriði: "Poupi" er borið fram "púpí". Það hefði aldrei sloppið framhjá ritstjóra ástarsögu. 


2012 (2009) ***1/2


John Cusack í "2012."
 
Aðalmálið er ekki að Jörðin sé eyðilögð, heldur hversu gjörsamlega þessari eyðileggingu eru gerð skil. "2012", móðir allra hörmungarmynda (og faðir, frænkur og frændur líka) eyðir hálftíma í undirbúning fyrir hörmungarnar (vísindamenn uppgötva og vara við að undarlegir hlutir séu að gerast, dularfullir atburðir eiga sér stað, spámenn spá af miklum krafti og að sjálfsögðu er fjölskylda kynnt til sögunnar) og síðan er tveimur klukkustundum af stórhörmungum sem hamra miskunnarlaust á Jörðinni sleppt lausum.
 
Þetta er skemmtilegt. "2012" skilar því sem hún lofar, og þar sem engin skynsamleg vera mun kaupa sér miða og búast við einhverju öðru, mun hún verða, fyrir áhorfendur sína, ein af ánægjulegustu kvikmyndum ársins. Það eru meira að segja alvöru leikarar í henni. Eins og er með allar bestu hörmungarmyndirnar, þá er hún fyndnust á meðan hún er algjörlega móðursjúk. Heldurðu að þú hafir séð enda-lok-heimsins kvikmyndir? Þessi klárar heiminn, traðkar á honum, hakkar hann í sig og hrækir honum svo út úr sér.

Hún fylgir tískunni um eyðileggingu á heimsfrægum byggingum. Roland Emerich, leikstjóri og meðhöfundur, hefur unnið skemmdarverk á frægum byggingum í mörg ár, eins og í "Independence Day," "The Day After Tomorrow" og "Godzilla". Ég er ennþá svolítið fúll út í hann fyrir að kalla borgarstjórann í New York Ebert án þess að láta Godzilla traðka á mér og fletja mig út.

Í öllum hörmungarmyndum hrynja kennileiti eins og dómínókubbar. Empire State byggingin er gerð úr plasti. Golden Gate brúin fellur saman eins og upptrekkt leikfang. Big Ben klukkan fer loksins í gang. Eiffel turninn? Quel dommage!

Minnismiði til allra sem eru að skoða þjóðfræga minnisvarða Þegar jarðskorpan er á hreyfingu, ekki standa nálægt turninum í Washinton. Chicago sleppur oft; við erum ekki jafn merkileg og Manhattan. Það er ekki margt nógu áberandi í Los Angeles til að vera eyðilagt, en það fer samt allt.

Emmerich hugsar stórt. Já, hann eyðileggur venjulegt dót. Það kemur ekki á óvart (enda hefur, þegar þetta er skrifað, sýnishornið fyrir myndina fengið meira en 7.591.413 áhorf á YouTube) að flugmóðurskipið John F. Kennedy ríður á risaöldu og skellur á Hvíta Húsið. Þegar dómhús St. Peter er eyðilagt, eru Guð og Adam Leónardós aðskildir nákvæmlega þar sem fingur þeirra snertast (loftið í Sistine kapellunni hefur verið flutt inn í St. Peter af þessu tilefni). Síðan þegar Emmerich fer að hitna, kyppist jarðskorpan til sem nemur þúsundum kílómetra, vatn umlykur plánetuna, og gíraffi fer um borð í örk.

bilde?Site=EB&Date=20091111&Category=REVIEWS&ArtNo=911119994&Ref=V3&Profile=1001&MaxW=415&title=1
Ævintýraferð Cusack.

Ekki má gleyma þeim manneskjum sem ákveðið er að lifi af, meðal þeirra allar persónurnar sem hafa ekki þegar kramist, drukknað eða fallið í gríðarstórar sprungur sem opnast hafa um alla Jörð. Meðal þeirra eru hetjan Jackson Curtis (John Cusack) og fráskilin eiginkona hans, Kate (Amanda Peet); Wilson forseti (Danny Glover), aðal vísindaráðgjafi hans, Adrian Helmsley (Chiwetel Ejiofor), og starfsmannastjórinn, Carl Anheuser (Oliver Platt).

Kínverjar hafa byggt leynilega í Himalayafjöllum fjölmargar gríðarstórar arkir, en þær hafa verið fjármagnaðar af alþjóðlegri samvinnu, og eru þær eini möguleikinn til að mannkynið komist lífs af. Ásamt dýrunum um borð er hinn hugsanlega vel nefndi Nói (Liam James). Hugmyndin er sú að þverskurður Jarðarinnar eigi að fá pláss í örkunum, útnefndir á lýðræðislegan hátt. En það sem gerist er að Carl Anheuser togar í spotta til að þeir ríku og vel tengdu fái miða, og er nokk sama þó  að fátæka og örvæntingarfulla fólkið á bryggjunni verði skilið eftir. Ég er að velta fyrir mér, þegar Emmerich velur nöfn á illmenni sín hefur hann yfirleitt einhvern ákveðinn í huga, eins og með Ebert borgarstjóra í "Godzilla". Þannig að hvernig öðlaðist illmennið nafn sitt? Hvað dettur þér í hug þegar þú heyrir "Anheuser"?

Slíkar spurningar fölna í samanburði við hinar stórfenglegu hörmungar sem Jörðin þarf að þola. Jarðskorpan kippist svo rækilega til að vísindamenn geta næstum séð hana hreyfast á Google Earth. Allt þetta tjón krefst mikilfenglegra tæknibrella. Emmerich fékk 250 milljón dollara til að gera myndina, og "2012" hefur hugsanlega meiri tæknibrellur í tíma talið heldur en nokkur önnur kvikmynd. Þær eru tilkomumiklar. Ekki alltaf sannfærandi, vegna þess að hvernig er hægt að sannfærast um að það flæði yfir Himalaya fjöllin? Emmerich gefur okkur tíma til að virða fyrir okkur stórfenglegt útsýni og njóta eyðileggingar þess með mögnuðum tæknibrellum, svo vel að við finnum næstum gott bragð, ólíkt tæknibrellum athyglisbrestskynslóðarinnar og hraðklippandi Bay-myndavélum.
 
Emmerich setur upp sínar dramatísku sjónhverfingar í fullri stærð, eins og þegar jarðskjálftasprunga klýfur matvöruverslun í tvennt. Cusack er hetjan í afar flóknu atriði þar sem hann reynir á örvæntingarfullan hátt að koma í gang föstum vökvahemlum lyftu sem ógnar að sökkva örkinni. Hann framkvæmir fullt af hetjudáðum í þessari mynd, sérstaklega þegar haft er í huga að hann er rithöfundur, eins og að stökkva á húsbíl yfir geispandi hyldýpi og flýgur lítilli flugvél gegnum gruggug ský jarðskjálftaryks.

Aðalmálið er þetta: Myndin er aðgöngumiðans virði. Er hún meistaraverk? Nei. Er þetta ein af bestu myndum ársins? Nei. Hamrar Emmerich henni saman á olnbogunum með hlutum úr verslun notaðra hörmungarmynda? Já. En er þetta jafngóð mynd og kvikmynd í þessari grein kvikmynda getur verið? Já. Án nokkurs vafa mun hún ýta undir óttann um fráfall okkar 21. desember 2012. Ég hef líka áhyggjur. Ég reikna með að þessi heimsendir verði jafnvel verri en sá sem varð árið 2000.

Hvað er í bíó, núna?

zombieland-movie-image-woody-harrelson

Það er fullt af skemmtilegum myndum í bíó, og nokkrar sem komið hafa mjög á óvart og slegið í gegn. Sérstaka athygli vekur Woody Harrelson sem uppvakningabani og hræódýr draugamynd sem virðist hræða líftóruna úr flestum þeim sem voga sér að sjá hana. Síðustu dagar Michael Jackson koma einnig á óvart og þriðja ísöldin skemmtilegri en fyrstu tvær til samans.

Ég hef verið að þýða greinar eftir kvikmyndarýninn Roger Ebert, sett þær inn á rogerebert.blog.is og miðað við þær myndir sem eru í bíó. Kíktu á listann hérna fyrir neðan til að fræðast um þær myndir sem eru enn í sýningu.

 

Smelltu á titlana til að lesa dómana.

This Is It (2009) ****
Vel gerð og skemmtileg heimildarmynd um síðustu mánuði hins nýlátna Michael Jackson þar sem hann sýnir á sér óvæntar hliðar. Leikstýrð af Kenny Ortega, sem gerði High School Musical myndirnar, en til gaman má geta að vinnuheiti High School Musical var Grease 3.

Roman Polanski: Wanted and Desired (2008) ***1/2
Áhugaverð heimildarmynd um erfitt líf Roman Polanski, hvernig hann lifði seinni heimstyrjöldina af sem pólskur drengur og missti meðal annars móður sína sem myrt var í útrýmingarbúðum nasista, hvernig hann varð frægur kvikmyndaleikstjóri í Hollywood, hvernig fylgjendur Charles Manson myrtu eiginkonu hans og ófætt barn, hvernig hann nauðgaði og var sóttur til saka, fangelsaður og síðan flúði Bandaríkin, en segir ekki frá því hvernig hann var handsamaður á dögunum og mun líklega verða framseldur til Bandaríkjanna þar sem yfir honum vofir hugsanlega fimmtíu ára dómur fyrir að hafa flúið réttvísina.

Orphan (2009) ***1/2
Hrollvekja um stúlku sem lætur Damien í Omen myndunum, son skrattans, líta út eins og leikskólakrakka.

The Informant! (2009) ****

Nokkurs konar gamanmynd með Matt Damon sem byggð er á súrrealískum en jafnframt sönnum atburðum um fyrirtækja- og fjármálaspillingu. Ef þér fannst barnalánin hjá Íslandsbanka eitthvað til að hneykslast yfir, kíktu þá á þessa til að hneykslast ennþá meira.

Zombieland (2009) ***
Woody Harrelson leiðir hóp uppvakningaslátrara í þessari gamanhrollvekju gegnum Bandaríkin sem hafa orðið uppvakningum að bráð. Aðeins örfáar manneskjur hafa lifað óbreyttar af, og gefa áhorfendum ráð í léttum dúr um hvernig lifa skuli af uppvakningaplágur.

Law Abiding Citizen (2009) ***
Gerald Butler leikur fjöldamorðingja sem myrðir fólk utan fangelsisveggja á meðan hann er lokaður í einangrunarklefa innan í fangelsinu, enda fólk svo útreiknanlegt þessa dagana, sérstaklega þegar fólk flest eru flatar persónur í svona spennutrylli. 

Couples Retreat (2009) **
Misheppnuð gamanmynd um fólk sem fer á paradísareyju til að leysa persónuleg vandamál sín. Geisp.

Fame (2009) **
Misheppnuð söngvamynd byggð á snilldarsöngvamynd.

Up (2009) ****
Ef þú hefur gaman af bíómyndum um gamlan kall og unga skáta sem svífa um í húsi sem haldið er uppi af milljón blöðrum eða svo, og hefur gaman af gömlu Indiana Jones myndunum, þá áttu eftir að skemmta þér vel á þessari. Fyrstu tíu mínúturnar eru með því besta sem gert hefur verið í heimi teiknimynda, og sjálfsagt kvikmynda yfir höfuð. Algjört listaverk. Og skemmtileg.

Toy Story (1995) ****
Ef þú hefur ekki séð Toy Story ertu ekki viðræðuhæf(ur).

Ice Age: Dawn of the Dinosaurs (2009) ***1/2
Betri en fyrstu tvær Ice Age myndirnar til samans. Kemur skemmtilega á óvart, sérstaklega þar sem henni tekst að víkka út heim sem áður virtist heldur takmarkaður. Simon Pegg blæs nýju lífi í myndina með persónu sem er hálfur Tarzan og hálfur Ahab skipstjóri, í eilífðarbaráttu við stærsu risaeðlu í heimi. Svona eins og barátta Scrat við akornið, sem ætti reyndar að fá sérstök verðlaun fyrir góðan leik.

9 (2009) ***
Gífurlega vel gerð mynd sem gerist í heimi þar sem mannkynið hefur verið máð af yfirborði jarðarinnar, og eftir sitja 9 litlar tuskudúkkur og eitt stykki gjöreyðingarvélmenni.


Paranormal Activity (2009) ***1/2

"Paranormal Activity"er ódýr hrollvekja, en svo vel gerð að hún hræðir næstum líftóruna úr áhorfandanum svo sannfærður er hann um að sagan sem hún segir sé sönn. Án formlegs upphafs eða endis, hefst hún með þakkarkveðju til "fjölskyldna Micah Sloat og Katie Featherston" og endar með þeim skilaboðum að "núverandi aðsetur sé óþekkt" og með skilaboðum um höfundarrétt. Þessi mynd virðist hafa verið gerð án leikstjóra, handritshöfundar, starfsmanna, förðunarmeistara, hljóðmanna, veitinga- eða hunangsvagns.

Myndin er sýnd eins og ef hún hafi verið uppgötvuð eftir að hún gerðist í raun og veru. Sagan hvíli á þeirri snilld að Micah tók myndina sjálfur. Ekki eitt einasta atriði í myndinni brýtur þessa forsendu, þó að sum þeirra virðist tæknilega ómöguleg án annarra handa á myndavélinni. Það er erfitt að finna þau.

Katie er enskunemi í háskóla. Micah er kaupmaður. Þau hafa verið saman í þrjú ár og hafa nú flutt inn í San Diego hús sem virðist lítið notað. Það er vel innréttað, en allt lítur út fyrir að vera nýtt, það er ekkert drasl. Dag einn tekur Micah á móti Katie fyrir utan húsið með því að taka hana upp á myndband með nýrri myndavél, sem hún segir að líti út fyrir að vera stærri en hin myndavélin hans.

Þau grunar að einhvers konar yfirnáttúrulegir atburðir eigi sér stað inni í svefnherbergi. Micah fær þá snjöllu hugmynd að taka þessa atburði upp á myndband og skilur myndavélina eftir í gangi sem þögull áhorfandi á meðan þau sofa. Eins og flestir karlar með nýtt leikfang fær hann það á heilann -- aðalmálið, fyrir hann, er ekki að róa hræðsluna í Katie, heldur hefur hann meiri áhuga á upptökunum. Eftir atriði sem virkilega hræðir, spyr hún hann með vantrúarsvip, fórstu virkilega til baka að sækja myndavélina þína?

Stundum er myndavélin skilin eftir alein án þess að nokkur setji hana í gang. Hún hvílir á þrífæti við rúmstokk þeirra á meðan þau sofa, og við sjáum hluti gerast á meðan þau hafa augun lokuð. Sumir þessara atburða eru smámunalegir, ég ætla ekki að lýsa neinum þeirra. Staðreyndin að þeir gerðust yfir höfuð er kjarni málsins. Að þeir virðist eiga sér stað af sjálfum sér, aðeins með kyrra myndavél sem vitni, fær þá til að virka afar óþægilega, sérstaklega þar sem sum atriðin virðast óhugsandi án þess að nota tæknibrellur, og það er engin sýnileg vísbending um að tæknibrellur hafi verið notaðar, sama hversu vel við rýnum í myndina.

Micah er oft úr ramma. Katie er næstum alltaf í upptöku, og um leik Featherston nægir að segja að hann sé gallalaus fyrir þessa mynd. Við erum ekki að tala um Meryl Streep hérna, við erum að tala um unga konu sem lítur út og talar algjörlega eins og venjulegur háskólanemi sem er nýflutt inn með kærasta sínum. Það er ekki ein einasta sekúnda "leikin".

Micah hagar sér alveg eins og karlmaður. Þú veist, þessi náungi sem stoppar aldrei og spyr til leiðar. Katie hefur upplifað einhvers konar yfirnáttúrulega nærveru frá barnsaldri, og nú er hún virkilega áhyggjufull, og svar Micah er ekki samúð heldur ákveðni í að ná öllu á myndband.

Þau hafa samband við "miðil" (Mark Fredrichs) en hann gerir ekkert gagn. Hann sérhæfir sig í draugum, útskýrir hann, og veit þegar hann stígur yfir þröskuldinn að það sem ásækir þau er ekki draugur heldur einhvers konar djöfulleg vera. Hann mælir með djöflafræðingi, en því miður er hann "fjarverandi í nokkra daga". Það er ótrúverðugasti hluti sögunnar. Þar sem ég eyddi miklum tíma á mínum auðtrúa árum með því að hanga í Bodhi Tree bókabúðinni í L.A., myndi ég vilja upplýsa þig um að í Kaliforníufylki eru fleiri djöflafræðingar í vinnu en útgefin ljóðskáld. 

Ég hef lært af IMDB að "Paranormal Activity" hafi þrátt fyrir allt handritshöfund og leikstjóra, Oren Peli, og að fleira fólk hafi komið að tæknilegri vinnu. En eins og "The Blair Witch Project", sem hún er sífellt borin saman við, leggur hún mikið á sig til að virðast vera mynd sem er uppgötvuð eftir að atburðirnir eiga sér stað. Hún virkar. Það styður eina af mínum eftirlætis kenningum, að þögn og bið geti verið skemmtilegri en síklipping og brjálæðislegar tæknibrellur. Í langan tíma innan þessarar myndar, gerist alls ekki neitt, og trúðu mér, þér mun ekki leiðast.


Roman Polanski: Wanted and Desired (2008) ***1/2


Fjölmiðlamenn umkringja leikstjórann Roman Polanski við réttarhöldin 1977 þegar hann var ákærður fyrir nauðgun á unglingsstúlku.

Harmsagan um Roman Polanski, líf hans, þjáningar og glæpi, hefur verið sögð og endursögð það oft að hún er nánast orðin að goðsögu. Eftir að hafa misst foreldra sína í tilraun nasista til gereyðingar á gyðingum í Evrópu seinni heimsstyrjaldarinnar, eftir að hafa alið sjálfan sig upp á strætum Póllands undir stjórn nasista, eftir að hafa öðlast virðingarsess í Bandaríkjunum fyrir leikstjórn myndarinnar "Chinatown", eftir að Manson fjölskyldan myrti eiginkonu hans og ófætt barn ... hvað gerðist næst?

Hann var handtekinn og sóttur til saka fyrir að hafa haft ólöglegt samræði með 13 ára stúlku, aðrir ákæruliðir fólust í að hann gaf henni áfengi og fíkniefni. Síðan flúði hann úr landi til að forðast fangelsisdóm og er enn útlagi í Evrópu fyrir þær sakir. Þetta vita allir, og um þetta fjallar þessi óvenjulega heimildarmynd Marina Zenovich, "Roman Polanski: Wanted and Desired".

En myndin er um svo miklu meira, og sagan sem hún byggir upp, stein fyrir stein, með vitnisburði sjónarvotta, er um glæpi gegn réttarkerfinu sem dómarinn í máli Polanski stóð fyrir, Laurence J. Rittenband. Þessi maður var svo spilltur að heimildarmyndin finnur þrjár manneskjur sem bera því vitni (fyrir utan Polanski) og höfðu mikið í húfi vegna niðurstöðu málsins: verjandinn, Douglas Dalton, aðstoðarsaksóknarinn sem sótti málið, Roger Gunson, og Samantha Gailey Geimer, barnið sem átti hlut í máli.

Vitnisburður þeirra neglir Rittenband sem óforskammaðan mann sem leitaði eftir athygli almennings, sem hafði meiri áhyggjur af eigin ímynd heldur en réttlætinu. Sem sveik loforð sín gagnvart lögmönnum beggja megin borðsins. Sem setti á svið falska sviðsetningu í réttarsalnum þar sem Gunson og Geimer áttu að flytja málið áður en dómarinn las skoðun sem hann hafði undirbúið fyrirfram. Sem reyndi að setja á svið slíkt "fals" (orðið sem Gunson notar er "sham") í annað sinn. Sem lék sér að því að hagræða setningum í samræðum við utanaðkomandi, kallaði eitt sinn til sín fréttamann frá Santa Monica, Davvid L. Jonta, og spurði hann, "Hvað í andskotanum ætti ég að gera við Polanski?" Sem ræddi málið við gaur sem stóð við næstu hlandskál í félagsheimili sem hann sótti. Sem hélt fréttamannafund á meðan málið var enn í gangi. Sem var rekinn vegna kröfu frá bæði saksóknurum og verjendum.

Mikilvægasta staðreynd myndarinnar er að saksóknarinn Gunson, smámunasamur mormóni, samþykkir staðhæfingu verjandans um að réttlætinu hafi ekki verið þjónað. Báðir rjúfa þögn sína fyrir þessa mynd eftir mörg ár, og Gunson segir, "Ég er ekki hissa á að hann skuli hafa flúið undir þessum kringumstæðum." Samantha Geimer, en fjölskylda hennar óskaði eftir því á sínum tíma að Polanski yrði ekki sóttur til saka eða fangelsaður, kom opinberlega fram árið 1997 til að fyrirgefa honum, og segir nú að Rittenband hafi keyrt málið fyrir hans eigin upphefð, "skipulagt einhverja litla sýningu sem mig langaði ekki að vera með í". Og árið 2003, hef ég eftir New York Times, að hún gaf út tilkynningu sem endaði þannig: "Hver myndi ekki velta fyrir sér flótta þegar þeir þurfa að horfast í auga við 50 ára dóm frá dómara sem hafði greinilega meiri áhuga á eigin frægð en sanngjörnum dómi eða jafnvel velferð fórnarlambsins?"

Það er hennar eigin velferð sem hefur gert hana bitra gagnvart dómaranum og fjölmiðlum, þegar hún sem barn varð að þungamiðju alþjóðlegrar fjölleikasýningar fjölmiðla. Að lokum segir hún, "Ég lokaði mig bara inni í herbergi mínu." Nú greind og vel máli farin fullorðin manneskja, kemur hún fram af hljóðri tign.

Þrekraun Polanski með fjölmiðlum hófst eftir Manson morðin árið 1969. Áður en málið var tengt Manson, fluttu fjölmiðlar stöðugt fréttir um djöfullega fíkniefnanotkun Polanski og héldu fram kenningum um að hann hefði líklegast skipulagt morðin sjálfur. Það var niðurbrjótandi kaldhæðni fyrir mann sem hafði þjáðst svo mikið sem barn og hafði nú tapað svo miklu sem fullorðinn einstaklingur.

Já, það sem hann gerði með hinni 13 ára stúlku var mjög rangt. Að aðstæður gætu gefið tilefni til mildara viðhorfs ætti ekki að hafa áhrif á okkur. Hann játaði sekt sína með sáttmála sem saminn var af dómaranum og báðum lögmönnum. Hann gaf sig fram í Chino State fangelsinu til að sitja inni í 90 daga til "reynslu". Þegar Chino samþykkti með náðunarnefnd og tveimur sálfræðingum sem rétturinn hafði tilnefnt (annar er í myndinni) að hann ætti að fá reynslulausn fyrir góða hegðun, ákvað Rittenband að hlusta ekki á þessar skoðanir vegna þess að það gæti verið slæmt fyrir ímynd hans, kvartaði hann á skrifstofu sinni, á meðan hann reyndi að skipuleggja aðra falsaða sviðsetningu (Dalton kallar þau "skopréttarhöld").

Zenovich notar brot úr myndböndum af Polanski frá þessum tíma, fréttaskot úr sjónvarpi, klippur úr dagblöðum, jafnvel atriði úr kvikmyndum Polanski ("Rosemary's Baby" hafði slík áhrif að sumir héldu að hún hefði verið gerð með djöfullegum innblæstri). Það eru engin ný viðtöl við sjálfan Polanski -- bara eldri sjónvarpsviðtöl. En hún hefur náð stórmerkilegum aðgangi að hinum leikendunum í þessu máli sem enn eru á lífi, og þeir virðast allir vera sammála: Polanski hafði lög að mæla þegar hann sagði að dómarinn hafi komið fram við hann eins og köttur sem leikur sér að mús. Spillingin í réttarsal Rittenband hefði passað vel inn í "Chinatown". 

 

Minnispunktur: 15. júlí, 2008, báðu Polanski og Dalton saksóknara Los Angeles að fara yfir mál hans með þeim nýju sönnunargögnum sem afhjúpuð voru í myndinni, meðal þeirra óeðlileg samskipti milli félaga á skrifstofu saksóknara (ekki Gunson) og Rittenband.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband