This Is It (2009) ****


Michael Jackson og dansarar á æfingu fyrir áætlaða tónleika í London.
 
"This is it," sagði Michael Jackson við aðdáendur sína í London, þegar hann tilkynnti næstu tónleikaröð sína. "Þetta er hinsta kveðjan." Kveðjan kom fyrr en búast mátti við. Það sem eftir stendur er þessi magnaða heimildarmynd, gjörólík því sem ég átti von á. Hér er ekki sjúkur og dópaður maður að pína sig í gegnum erfiðar æfingar, heldur andi umvafinn tónlist. Michael Jackson var eitthvað annað.
 
Myndin var sett saman úr upptökum af æfingum frá apríl til júní 2009 fyrir tónleikaröð sem átti að hefjast í sumar. Myndefnið "náðist á fáeinum myndavélum", er sagt í upphafsatriðinu, en þetta eru hágæðamyndavélar sem ná hæstu upplausn og hljóðrásin er í hágæða steríó. Niðurstaðan er ein áhugaverðasta heimildarmynd um tónlist sem ég hef séð.

Og hún er meira en það. Hún er mynd af Michael Jackson sem gerir ekkert úr þeim orðrómi sem segir að hann hafi verið of veikur fyrir þessa tónleikaröð. Hún sýnir engan vott um ofdekraða prímadonnu. Takmörkunin á fjölda myndavéla gerir okkur fært að lifa okkur inn í starf hans nánast í rauntíma, enda atriðin nánast óklippt í stað þess vera sundruð niður í stutt myndskeið. Það gefur okkur bæði góða hugmynd um það hvernig lokatónleikarnir hefðu verið og sýnir okkur listamanninn að störfum.

Hann hækkar aldrei róminn, sýnir aldrei reiði, talar alltaf mjúkum rómi, er kurteis við samstarfsfólk og tæknimenn. Michael, ásamt leikstjóra sínum, Kenny Ortega, stjórnar framleiðslunni í smáatriðum. Hann leiðréttir tímasetningu, endurskilgreinir merki, talar um mikilvæg atriði í tónlist og dansi. Þar sem ég hef alltaf séð hann úr fjarlægð, taldi ég hann vera verkfæri framleiðsluverksmiðju. Hér sjáum við að hann var höfundur eigin sýninga.

Við vitum núna að Michael neytti fjölda lyfja þegar hann lést af völdum of mikillar lyfjagjafar, þar með talið síðasta stráið, lyf sem er svo hættulegt að það ætti einungis að vera gefið af svæfingarlækni á skurðstofu. Þessi þekking gerir okkur erfiðara að skilja hvernig hann virðist vera í frábæru líkamlegu formi. Dansatriðin, byggð af slíkri nákvæmni, skyndilegum og fullkomlega tímasettum hreyfingum, eru löng og krefjast mikils af honum, en hann sýnir aldrei þreytumerki. Hreyfingar hans eru svo samhæfðar hreyfingum hinna dansaranna á sviðinu, sem eru miklu yngri og í afar góðri þjálfun, að hann virðist vera einn af þeim. Þetta er maður með slíka stjórn á líkama sínum að hann lætur líta út fyrir að spinnast á einum stað í kringum sjálfan sig sé jafn eðlilegt og að blikka auga.

Hann hefur alltaf fyrst og fremst verið dansari, síðan söngvari. Hann sérhæfir sig ekki í því að vinna einn. Með örfáum undantekningum fallegra ástarsöngva, innihalda öll lög hans fjórar bakraddir og líklega aukahljóðrásir sem hann hefur tekið upp fyrir sýninguna. Hann er með heildarmyndina í huga.

Þetta hefði getað orðið helvíti flott sýning. Ortega og tæknibrellu-töframenn samstilla áður upptekin atriði og sviðsvinnuna. Það er hrollvekjuatriði með skrímslum sem brjótast upp úr gröfum kirkjugarðs (og draugar sem ætlað var að fljúga yfir áhorfendur). Michael er settur inn í atriði úr Rita Hayworth og Humphrey Bogart myndum, og með snjöllum tæknibrellum berst hann meira að segja gegn Bogie með vélbyssu. Skilaboð hans um umhverfisvernd eru studd með myndskeiði úr regnskógum. Hann flýgur í krana yfir áhorfendur sína.

Áhorfendur hans eru þó aðeins sviðsfólk, ljósafólk, tæknimenn, og svo framvegis. Þetta er starfandi fólk sem hefur séð þetta allt. Þau elska hann. Þau eru ekki að þykjast. Þau elska hann fyrir tónlistina, og hugsanlega jafnvel meira fyrir framkomu hans. Stórar stjörnur á æfingum eru ósjaldan sársauki í óæðri endann. Michael hellir sér í vinnuna með viðmóti samstarfsmanns, sem er tilbúinn að vinna sitt verk og fara alla leið.

Hvernig var þetta mögulegt? Jafnvel þó að hann hafi haft líkamann í þetta, sem hann hafði augljóslega, hvernig tókst honum að safna sínum andlegu kröftum? Þegar þú hefur lækni á vakt um þig allan sólarhringinn til að sjá um lyfjagjafir, þegar hugmynd þín um góðan svefn er að vera meðvitundarlaus í 24 stundir, hvernig vaknar þú og verður svo fullkomlega meðvitaður og viðbúinn? Þunglyndislyf? Ég held að þau virki ekki alveg þannig. Ég fylgdist eins og haukur með vísbendingum um áhrif lyfjamisnotkunar, en gat ekki séð nein. Kannski það skipti máli að af öllu fólki á æfingunni, er hann sá eini sem felur handleggi sína með löngum ermum.

Jæja, við vitum ekki hvernig hann gerða það. "This Is It" er sönnun fyrir því að hann gerði það. Hann stóð við sín loforð gagnvart fjárfestum og samstarfsmönnum. Hann var fullkomlega undirbúinn fyrir opnunina. Hann og Kenny Ortega, sem leikstýrði líka þessari mynd, voru í toppformi. Það er eitt atriði sem hreyfir við manni þegar Jackson og Ortega, á síðustu æfingunni, mynda hring og haldast í hendur með öllu starfsfólkinu, og þakka þeim fyrir. En tónleikarnir sem þeir lögðu svo mikla vinnu í áttu aldrei að verða.

Þetta er það.


mbl.is This Is It frumsýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég varð hissa þegar ég sá hversu heilleg þessi mynd var, ég og 12 ára dóttir mín skemmtum okkur báðar vel á myndinni.  Ég er ekki sammála að hann hafi verið í fínu líkamlegu formi, hann var alveg grindhoraður en reyndi að klæða það af sér.  Hann þurfti líka að hlífa röddinni hvað eftir annað, sem er veikleiki.  Tæknibrellurnar í Smooth Criminal (Humphrey Bogart og Rita Hayworth) voru æðislegar.  Og nýja Thriller myndbandið var líka æðislegt. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.11.2009 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband