Roman Polanski: Wanted and Desired (2008) ***1/2


Fjölmiðlamenn umkringja leikstjórann Roman Polanski við réttarhöldin 1977 þegar hann var ákærður fyrir nauðgun á unglingsstúlku.

Harmsagan um Roman Polanski, líf hans, þjáningar og glæpi, hefur verið sögð og endursögð það oft að hún er nánast orðin að goðsögu. Eftir að hafa misst foreldra sína í tilraun nasista til gereyðingar á gyðingum í Evrópu seinni heimsstyrjaldarinnar, eftir að hafa alið sjálfan sig upp á strætum Póllands undir stjórn nasista, eftir að hafa öðlast virðingarsess í Bandaríkjunum fyrir leikstjórn myndarinnar "Chinatown", eftir að Manson fjölskyldan myrti eiginkonu hans og ófætt barn ... hvað gerðist næst?

Hann var handtekinn og sóttur til saka fyrir að hafa haft ólöglegt samræði með 13 ára stúlku, aðrir ákæruliðir fólust í að hann gaf henni áfengi og fíkniefni. Síðan flúði hann úr landi til að forðast fangelsisdóm og er enn útlagi í Evrópu fyrir þær sakir. Þetta vita allir, og um þetta fjallar þessi óvenjulega heimildarmynd Marina Zenovich, "Roman Polanski: Wanted and Desired".

En myndin er um svo miklu meira, og sagan sem hún byggir upp, stein fyrir stein, með vitnisburði sjónarvotta, er um glæpi gegn réttarkerfinu sem dómarinn í máli Polanski stóð fyrir, Laurence J. Rittenband. Þessi maður var svo spilltur að heimildarmyndin finnur þrjár manneskjur sem bera því vitni (fyrir utan Polanski) og höfðu mikið í húfi vegna niðurstöðu málsins: verjandinn, Douglas Dalton, aðstoðarsaksóknarinn sem sótti málið, Roger Gunson, og Samantha Gailey Geimer, barnið sem átti hlut í máli.

Vitnisburður þeirra neglir Rittenband sem óforskammaðan mann sem leitaði eftir athygli almennings, sem hafði meiri áhyggjur af eigin ímynd heldur en réttlætinu. Sem sveik loforð sín gagnvart lögmönnum beggja megin borðsins. Sem setti á svið falska sviðsetningu í réttarsalnum þar sem Gunson og Geimer áttu að flytja málið áður en dómarinn las skoðun sem hann hafði undirbúið fyrirfram. Sem reyndi að setja á svið slíkt "fals" (orðið sem Gunson notar er "sham") í annað sinn. Sem lék sér að því að hagræða setningum í samræðum við utanaðkomandi, kallaði eitt sinn til sín fréttamann frá Santa Monica, Davvid L. Jonta, og spurði hann, "Hvað í andskotanum ætti ég að gera við Polanski?" Sem ræddi málið við gaur sem stóð við næstu hlandskál í félagsheimili sem hann sótti. Sem hélt fréttamannafund á meðan málið var enn í gangi. Sem var rekinn vegna kröfu frá bæði saksóknurum og verjendum.

Mikilvægasta staðreynd myndarinnar er að saksóknarinn Gunson, smámunasamur mormóni, samþykkir staðhæfingu verjandans um að réttlætinu hafi ekki verið þjónað. Báðir rjúfa þögn sína fyrir þessa mynd eftir mörg ár, og Gunson segir, "Ég er ekki hissa á að hann skuli hafa flúið undir þessum kringumstæðum." Samantha Geimer, en fjölskylda hennar óskaði eftir því á sínum tíma að Polanski yrði ekki sóttur til saka eða fangelsaður, kom opinberlega fram árið 1997 til að fyrirgefa honum, og segir nú að Rittenband hafi keyrt málið fyrir hans eigin upphefð, "skipulagt einhverja litla sýningu sem mig langaði ekki að vera með í". Og árið 2003, hef ég eftir New York Times, að hún gaf út tilkynningu sem endaði þannig: "Hver myndi ekki velta fyrir sér flótta þegar þeir þurfa að horfast í auga við 50 ára dóm frá dómara sem hafði greinilega meiri áhuga á eigin frægð en sanngjörnum dómi eða jafnvel velferð fórnarlambsins?"

Það er hennar eigin velferð sem hefur gert hana bitra gagnvart dómaranum og fjölmiðlum, þegar hún sem barn varð að þungamiðju alþjóðlegrar fjölleikasýningar fjölmiðla. Að lokum segir hún, "Ég lokaði mig bara inni í herbergi mínu." Nú greind og vel máli farin fullorðin manneskja, kemur hún fram af hljóðri tign.

Þrekraun Polanski með fjölmiðlum hófst eftir Manson morðin árið 1969. Áður en málið var tengt Manson, fluttu fjölmiðlar stöðugt fréttir um djöfullega fíkniefnanotkun Polanski og héldu fram kenningum um að hann hefði líklegast skipulagt morðin sjálfur. Það var niðurbrjótandi kaldhæðni fyrir mann sem hafði þjáðst svo mikið sem barn og hafði nú tapað svo miklu sem fullorðinn einstaklingur.

Já, það sem hann gerði með hinni 13 ára stúlku var mjög rangt. Að aðstæður gætu gefið tilefni til mildara viðhorfs ætti ekki að hafa áhrif á okkur. Hann játaði sekt sína með sáttmála sem saminn var af dómaranum og báðum lögmönnum. Hann gaf sig fram í Chino State fangelsinu til að sitja inni í 90 daga til "reynslu". Þegar Chino samþykkti með náðunarnefnd og tveimur sálfræðingum sem rétturinn hafði tilnefnt (annar er í myndinni) að hann ætti að fá reynslulausn fyrir góða hegðun, ákvað Rittenband að hlusta ekki á þessar skoðanir vegna þess að það gæti verið slæmt fyrir ímynd hans, kvartaði hann á skrifstofu sinni, á meðan hann reyndi að skipuleggja aðra falsaða sviðsetningu (Dalton kallar þau "skopréttarhöld").

Zenovich notar brot úr myndböndum af Polanski frá þessum tíma, fréttaskot úr sjónvarpi, klippur úr dagblöðum, jafnvel atriði úr kvikmyndum Polanski ("Rosemary's Baby" hafði slík áhrif að sumir héldu að hún hefði verið gerð með djöfullegum innblæstri). Það eru engin ný viðtöl við sjálfan Polanski -- bara eldri sjónvarpsviðtöl. En hún hefur náð stórmerkilegum aðgangi að hinum leikendunum í þessu máli sem enn eru á lífi, og þeir virðast allir vera sammála: Polanski hafði lög að mæla þegar hann sagði að dómarinn hafi komið fram við hann eins og köttur sem leikur sér að mús. Spillingin í réttarsal Rittenband hefði passað vel inn í "Chinatown". 

 

Minnispunktur: 15. júlí, 2008, báðu Polanski og Dalton saksóknara Los Angeles að fara yfir mál hans með þeim nýju sönnunargögnum sem afhjúpuð voru í myndinni, meðal þeirra óeðlileg samskipti milli félaga á skrifstofu saksóknara (ekki Gunson) og Rittenband.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, það sem hann gerði með hinni 13 ára stúlku var mjög rangt.

Ein setning um það. (Reyndar gerði hann stúlkunni þetta, ekki með henni). Allt hitt mælsk málsvörn fyrir brotamanninn. Ekki má gleyma því að þessi athygli umheimsins sem eyðilagði líf fórnarlambsins var vegna gjörða Polanskis. En það er munur að vera frægur. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.11.2009 kl. 21:18

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Í fyrra kom út Indie kvikmynd í Hollywood, sem heitir Polanski Unauthorized, þar sem frænka mín Leah Grimsson lék stúlkuna í þessu máli. Ég og Jón faðir hennar erum bræðrasynir og ég er nokkuð montinn af frænku, svo ég varð að koma þessu að.  Hún virðist rísandi stjarna og lé nú síðast í Journey to the center of the earth, sem má segja að sé "close to home."

Jón Steinar Ragnarsson, 6.11.2009 kl. 21:30

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sigurður: það sem mér finnst merkilegt er að samkvæmt greininni hefur Polanski þegar tekið út dóminn í fangelsi (til reynslu), en er ætlað að gera það aftur (í alvöru). Hvar er réttlætið í því?

Jón Steinar: Hljómar spennandi. Þú mátt nú rifna af monti, enda kannast ég við hversu mikinn áhuga þú hefur á heimi kvikmynda - og gleymi aldrei sögunni sem þú skrifaðir um kynni þín af A. Jolie. :)

Hrannar Baldursson, 6.11.2009 kl. 21:44

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er ekki bara áhugamaður, ég hef lifað og hrærst í kvikmyndagerð í rúm 20 ár og enn er enginn endir á, þótt það sé með hléum núna.  Mér finnst annars þessi frami frænku minnar ætti skilið greinarkorn í Íslenskum blöðum. Eina sem ég finn hér er lítil frátt í BB (Bæjarins Besta á Ísafirði) enda er mín manneskja ættuð þaðan eins og ég.

Svo er ég Edduverðlaunahafi, sem er nokkuð pró.

Þetta veistu náttúrlega, en maður verður að fá að flassa, þegar gluggi opnast.  Það verður varla um neina frægð að ræða aðra en forna frægð úr þessu hvort sem er.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.11.2009 kl. 21:51

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Já það geta ekki margir státað af jafn nánum kynnum við Jolie nema kannski Billie Bob Thornton og Brad Pitt.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.11.2009 kl. 21:53

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þér til heiðurs, Jón Steinar, fletti ég þér upp á IMDB, og hér er listi sem margir fagmenn í kvikmyndagerð væru stoltir af:

  • "LazyTown" (2004) (11 episodes, 2004-2006)
  • Nói albínói (2003)
  • Lara Croft: Tomb Raider (2001)
  • Fíaskó (2000)
  • Ikíngut (2000)
  • Englar alheimsins (2000)
  • Sporlaust (1998)
  • Draumadísir (1996)
  • The Viking Sagas (1995)
  • Benjamín dúfa (1995)
  • Agnes (1995)
  • Einkalíf (1995)
  • Sódóma Reykjavík (1992)
  • Svo á jörðu sem á himni (1992)
  • Hvíti víkingurinn (1991)
Ég sé ekki betur en að þú megir vera afar stoltur af þeim verkum sem þú hefur unnið við. "Lazy Town" settið er náttúrulega eitt það eftirminnilegasta sem hannað hefur verið, og eiginkona mín var afar stolt þegar hún fékk að setjast í sæti Glanna Glæps, þegar verið var að flytja stúdíóið úr Garðabænum fyrr á þessu ári. Komst þú kannski að hönnun sviðsins hans Glanna?

Hrannar Baldursson, 6.11.2009 kl. 22:11

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Nei. Meistari Snorri Freyr Hilmarson er hönnuður að þessu öllu. Ég hinsvegar var með í að byggja þetta allt saman, en sérsvið mitt eru þó allskyns gizmó og græjur. Flaug Sportakusar t.d. er mitt handverk.

Inni í þessum lista eru ekki ótölulegar auglýsingar og annað sjónvarpsefni, erlent og innlent, sem ég hef hannað.  Það sem menn ættu kannski helsat að kannast við af því eru Fóstbræðraþættirnir illræmdu.

Annars er best að hætta sjálfmæringuni hér.  Þetta kemur náttúrlega efni greinarinnar ekkert við, en spannst óvart svona. 

Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2009 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband