Paranormal Activity (2009) ***1/2

"Paranormal Activity"er ódýr hrollvekja, en svo vel gerð að hún hræðir næstum líftóruna úr áhorfandanum svo sannfærður er hann um að sagan sem hún segir sé sönn. Án formlegs upphafs eða endis, hefst hún með þakkarkveðju til "fjölskyldna Micah Sloat og Katie Featherston" og endar með þeim skilaboðum að "núverandi aðsetur sé óþekkt" og með skilaboðum um höfundarrétt. Þessi mynd virðist hafa verið gerð án leikstjóra, handritshöfundar, starfsmanna, förðunarmeistara, hljóðmanna, veitinga- eða hunangsvagns.

Myndin er sýnd eins og ef hún hafi verið uppgötvuð eftir að hún gerðist í raun og veru. Sagan hvíli á þeirri snilld að Micah tók myndina sjálfur. Ekki eitt einasta atriði í myndinni brýtur þessa forsendu, þó að sum þeirra virðist tæknilega ómöguleg án annarra handa á myndavélinni. Það er erfitt að finna þau.

Katie er enskunemi í háskóla. Micah er kaupmaður. Þau hafa verið saman í þrjú ár og hafa nú flutt inn í San Diego hús sem virðist lítið notað. Það er vel innréttað, en allt lítur út fyrir að vera nýtt, það er ekkert drasl. Dag einn tekur Micah á móti Katie fyrir utan húsið með því að taka hana upp á myndband með nýrri myndavél, sem hún segir að líti út fyrir að vera stærri en hin myndavélin hans.

Þau grunar að einhvers konar yfirnáttúrulegir atburðir eigi sér stað inni í svefnherbergi. Micah fær þá snjöllu hugmynd að taka þessa atburði upp á myndband og skilur myndavélina eftir í gangi sem þögull áhorfandi á meðan þau sofa. Eins og flestir karlar með nýtt leikfang fær hann það á heilann -- aðalmálið, fyrir hann, er ekki að róa hræðsluna í Katie, heldur hefur hann meiri áhuga á upptökunum. Eftir atriði sem virkilega hræðir, spyr hún hann með vantrúarsvip, fórstu virkilega til baka að sækja myndavélina þína?

Stundum er myndavélin skilin eftir alein án þess að nokkur setji hana í gang. Hún hvílir á þrífæti við rúmstokk þeirra á meðan þau sofa, og við sjáum hluti gerast á meðan þau hafa augun lokuð. Sumir þessara atburða eru smámunalegir, ég ætla ekki að lýsa neinum þeirra. Staðreyndin að þeir gerðust yfir höfuð er kjarni málsins. Að þeir virðist eiga sér stað af sjálfum sér, aðeins með kyrra myndavél sem vitni, fær þá til að virka afar óþægilega, sérstaklega þar sem sum atriðin virðast óhugsandi án þess að nota tæknibrellur, og það er engin sýnileg vísbending um að tæknibrellur hafi verið notaðar, sama hversu vel við rýnum í myndina.

Micah er oft úr ramma. Katie er næstum alltaf í upptöku, og um leik Featherston nægir að segja að hann sé gallalaus fyrir þessa mynd. Við erum ekki að tala um Meryl Streep hérna, við erum að tala um unga konu sem lítur út og talar algjörlega eins og venjulegur háskólanemi sem er nýflutt inn með kærasta sínum. Það er ekki ein einasta sekúnda "leikin".

Micah hagar sér alveg eins og karlmaður. Þú veist, þessi náungi sem stoppar aldrei og spyr til leiðar. Katie hefur upplifað einhvers konar yfirnáttúrulega nærveru frá barnsaldri, og nú er hún virkilega áhyggjufull, og svar Micah er ekki samúð heldur ákveðni í að ná öllu á myndband.

Þau hafa samband við "miðil" (Mark Fredrichs) en hann gerir ekkert gagn. Hann sérhæfir sig í draugum, útskýrir hann, og veit þegar hann stígur yfir þröskuldinn að það sem ásækir þau er ekki draugur heldur einhvers konar djöfulleg vera. Hann mælir með djöflafræðingi, en því miður er hann "fjarverandi í nokkra daga". Það er ótrúverðugasti hluti sögunnar. Þar sem ég eyddi miklum tíma á mínum auðtrúa árum með því að hanga í Bodhi Tree bókabúðinni í L.A., myndi ég vilja upplýsa þig um að í Kaliforníufylki eru fleiri djöflafræðingar í vinnu en útgefin ljóðskáld. 

Ég hef lært af IMDB að "Paranormal Activity" hafi þrátt fyrir allt handritshöfund og leikstjóra, Oren Peli, og að fleira fólk hafi komið að tæknilegri vinnu. En eins og "The Blair Witch Project", sem hún er sífellt borin saman við, leggur hún mikið á sig til að virðast vera mynd sem er uppgötvuð eftir að atburðirnir eiga sér stað. Hún virkar. Það styður eina af mínum eftirlætis kenningum, að þögn og bið geti verið skemmtilegri en síklipping og brjálæðislegar tæknibrellur. Í langan tíma innan þessarar myndar, gerist alls ekki neitt, og trúðu mér, þér mun ekki leiðast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband