2012 (2009) ***1/2


John Cusack í "2012."
 
Aðalmálið er ekki að Jörðin sé eyðilögð, heldur hversu gjörsamlega þessari eyðileggingu eru gerð skil. "2012", móðir allra hörmungarmynda (og faðir, frænkur og frændur líka) eyðir hálftíma í undirbúning fyrir hörmungarnar (vísindamenn uppgötva og vara við að undarlegir hlutir séu að gerast, dularfullir atburðir eiga sér stað, spámenn spá af miklum krafti og að sjálfsögðu er fjölskylda kynnt til sögunnar) og síðan er tveimur klukkustundum af stórhörmungum sem hamra miskunnarlaust á Jörðinni sleppt lausum.
 
Þetta er skemmtilegt. "2012" skilar því sem hún lofar, og þar sem engin skynsamleg vera mun kaupa sér miða og búast við einhverju öðru, mun hún verða, fyrir áhorfendur sína, ein af ánægjulegustu kvikmyndum ársins. Það eru meira að segja alvöru leikarar í henni. Eins og er með allar bestu hörmungarmyndirnar, þá er hún fyndnust á meðan hún er algjörlega móðursjúk. Heldurðu að þú hafir séð enda-lok-heimsins kvikmyndir? Þessi klárar heiminn, traðkar á honum, hakkar hann í sig og hrækir honum svo út úr sér.

Hún fylgir tískunni um eyðileggingu á heimsfrægum byggingum. Roland Emerich, leikstjóri og meðhöfundur, hefur unnið skemmdarverk á frægum byggingum í mörg ár, eins og í "Independence Day," "The Day After Tomorrow" og "Godzilla". Ég er ennþá svolítið fúll út í hann fyrir að kalla borgarstjórann í New York Ebert án þess að láta Godzilla traðka á mér og fletja mig út.

Í öllum hörmungarmyndum hrynja kennileiti eins og dómínókubbar. Empire State byggingin er gerð úr plasti. Golden Gate brúin fellur saman eins og upptrekkt leikfang. Big Ben klukkan fer loksins í gang. Eiffel turninn? Quel dommage!

Minnismiði til allra sem eru að skoða þjóðfræga minnisvarða Þegar jarðskorpan er á hreyfingu, ekki standa nálægt turninum í Washinton. Chicago sleppur oft; við erum ekki jafn merkileg og Manhattan. Það er ekki margt nógu áberandi í Los Angeles til að vera eyðilagt, en það fer samt allt.

Emmerich hugsar stórt. Já, hann eyðileggur venjulegt dót. Það kemur ekki á óvart (enda hefur, þegar þetta er skrifað, sýnishornið fyrir myndina fengið meira en 7.591.413 áhorf á YouTube) að flugmóðurskipið John F. Kennedy ríður á risaöldu og skellur á Hvíta Húsið. Þegar dómhús St. Peter er eyðilagt, eru Guð og Adam Leónardós aðskildir nákvæmlega þar sem fingur þeirra snertast (loftið í Sistine kapellunni hefur verið flutt inn í St. Peter af þessu tilefni). Síðan þegar Emmerich fer að hitna, kyppist jarðskorpan til sem nemur þúsundum kílómetra, vatn umlykur plánetuna, og gíraffi fer um borð í örk.

bilde?Site=EB&Date=20091111&Category=REVIEWS&ArtNo=911119994&Ref=V3&Profile=1001&MaxW=415&title=1
Ævintýraferð Cusack.

Ekki má gleyma þeim manneskjum sem ákveðið er að lifi af, meðal þeirra allar persónurnar sem hafa ekki þegar kramist, drukknað eða fallið í gríðarstórar sprungur sem opnast hafa um alla Jörð. Meðal þeirra eru hetjan Jackson Curtis (John Cusack) og fráskilin eiginkona hans, Kate (Amanda Peet); Wilson forseti (Danny Glover), aðal vísindaráðgjafi hans, Adrian Helmsley (Chiwetel Ejiofor), og starfsmannastjórinn, Carl Anheuser (Oliver Platt).

Kínverjar hafa byggt leynilega í Himalayafjöllum fjölmargar gríðarstórar arkir, en þær hafa verið fjármagnaðar af alþjóðlegri samvinnu, og eru þær eini möguleikinn til að mannkynið komist lífs af. Ásamt dýrunum um borð er hinn hugsanlega vel nefndi Nói (Liam James). Hugmyndin er sú að þverskurður Jarðarinnar eigi að fá pláss í örkunum, útnefndir á lýðræðislegan hátt. En það sem gerist er að Carl Anheuser togar í spotta til að þeir ríku og vel tengdu fái miða, og er nokk sama þó  að fátæka og örvæntingarfulla fólkið á bryggjunni verði skilið eftir. Ég er að velta fyrir mér, þegar Emmerich velur nöfn á illmenni sín hefur hann yfirleitt einhvern ákveðinn í huga, eins og með Ebert borgarstjóra í "Godzilla". Þannig að hvernig öðlaðist illmennið nafn sitt? Hvað dettur þér í hug þegar þú heyrir "Anheuser"?

Slíkar spurningar fölna í samanburði við hinar stórfenglegu hörmungar sem Jörðin þarf að þola. Jarðskorpan kippist svo rækilega til að vísindamenn geta næstum séð hana hreyfast á Google Earth. Allt þetta tjón krefst mikilfenglegra tæknibrella. Emmerich fékk 250 milljón dollara til að gera myndina, og "2012" hefur hugsanlega meiri tæknibrellur í tíma talið heldur en nokkur önnur kvikmynd. Þær eru tilkomumiklar. Ekki alltaf sannfærandi, vegna þess að hvernig er hægt að sannfærast um að það flæði yfir Himalaya fjöllin? Emmerich gefur okkur tíma til að virða fyrir okkur stórfenglegt útsýni og njóta eyðileggingar þess með mögnuðum tæknibrellum, svo vel að við finnum næstum gott bragð, ólíkt tæknibrellum athyglisbrestskynslóðarinnar og hraðklippandi Bay-myndavélum.
 
Emmerich setur upp sínar dramatísku sjónhverfingar í fullri stærð, eins og þegar jarðskjálftasprunga klýfur matvöruverslun í tvennt. Cusack er hetjan í afar flóknu atriði þar sem hann reynir á örvæntingarfullan hátt að koma í gang föstum vökvahemlum lyftu sem ógnar að sökkva örkinni. Hann framkvæmir fullt af hetjudáðum í þessari mynd, sérstaklega þegar haft er í huga að hann er rithöfundur, eins og að stökkva á húsbíl yfir geispandi hyldýpi og flýgur lítilli flugvél gegnum gruggug ský jarðskjálftaryks.

Aðalmálið er þetta: Myndin er aðgöngumiðans virði. Er hún meistaraverk? Nei. Er þetta ein af bestu myndum ársins? Nei. Hamrar Emmerich henni saman á olnbogunum með hlutum úr verslun notaðra hörmungarmynda? Já. En er þetta jafngóð mynd og kvikmynd í þessari grein kvikmynda getur verið? Já. Án nokkurs vafa mun hún ýta undir óttann um fráfall okkar 21. desember 2012. Ég hef líka áhyggjur. Ég reikna með að þessi heimsendir verði jafnvel verri en sá sem varð árið 2000.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Takk fyrir þetta

Gunnar Helgi Eysteinsson, 16.11.2009 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband