Færsluflokkur: Kvikmyndir
Toy Story (1995) ****
3.11.2009 | 17:38
Roger Ebert fjallar hér um 1995 útgáfu Toy Story, ekki hina endurútgefnu Toy Story 3D.
"Toy Story" skapar nýjan alheim út frá nokkrum barnasvefnherbergjum, bensínstöð og hluta af hraðbraut. Hetjurnar eru leikföng sem lifna við þegar enginn fylgist með þeim. Aðal átök myndarinnar eru á milli gamaldags kúreka sem hefur alltaf verið uppáhalds leikfang stráksins sem á hann, og nýju geimlöggunnar sem gæti orðið hið nýja eftirlæti. Skúrkurinn er illkvittinn strákur í næsta húsi sem tekur leikföng í sundur og setur þau aftur saman á djöfullegan hátt. Niðurstaðan er myndræn rússíbanareið.
Mynd eins og þessi virkar fyrir börn vegna þess að hún segir skemmtilega sögu, inniheldur fullt af gríni, og er spennandi að fylgjast með. Eldri áhorfendur verða kannski jafnvel enn djúpt sokknari í myndina, vegna þess að "Toy Story" fyrsta kvikmyndin sem gerð er eingöngu í tölvu, tekst að grípa þrívíddarveruleika og frelsi í hreyfingum sem er bæði frelsandi og ferskt. Því meira sem þú lærir um hvernig myndin var gerð, því dýpri virðingu berðu fyrir henni.
Rifjaðu upp hið fagra teiknimyndaatriði í "Beauty and the Beast" þar sem Fríða og Dýrið dönsuðu saman í stórum sal undir gullfallegri ljósakrónu, og ímyndaðu þér þetta atriði sem teiknimynd í fullri lengd, og þá nærðu hugmyndinni. Kvikmyndin lætur ekki bara persónur hreyfast fyrir framan málaðan bakgrunn; hún gefur bæði persónum og umhverfi þeirra líf, og gerir sjónarhorni myndavélarinnar mögulegt að að fljóta í kring um atburðina. Tölvugrafík er orðin það vel unnin að stundum tekurðu ekki eftir henni (eldflaugaskotið í "Apollo 13" var gert að mestu í tölvu). Hér tekurðu eftir þessu, enda ferðastu gegnum rýmið með ferskri frelsistilfinningu.
Hugsum til dæmis um atriði þar sem Buzz Lightyear, nýja geimleikfangið, hoppar fram af rúmstokknum, skoppar af bolta, þýtur í átt til lofts, spinnur í hringi á meðan hann heldur í leikfangaþyrlu og stekkur inn í bílabraut sem tekur hann í hringi eftir brautinni. Horfðu á Buzz, bakgrunninn og sjónarhornið -- sem teygist og þjappast saman til að hafa áhrif á tilfinninguna fyrir hraða. Þetta er ótrúleg ferð.
Ég lærði úr nýrri grein í Wired tímaritinu að kvikmyndin var framleidd með 300 öflugum Sun örgjörvum, þeim hröðustu sinnar tegundar, og það tók þá um 800.000 klukkustundir af tölvutíma að vinna þetta og önnur atriði -- um tvær til fimmtán klukkustundir fyrir hvern ramma. Hver rammi krefst allt að 300 MB af upplýsingum, sem þýðir að á 1 GB harða disknum mínum, hefði ég pláss fyrir um það bil þrjá ramma, eða einn áttunda úr sekúndu. Að sjálfsögðu eru tölvur jafn heimskar og kassi með múrsteinum ef þær eru ekki vel forritaðar, og leikstjórinn John Lasseter, frumkvöðull í tölvugrafík, hefur tekist að virkja óvenjulegt ímyndunarafl og mikla orku til að gera þetta mögulegt.
En nóg af þessu þotuhausadóti. Við skulum tala um myndina. Lasseter og teymi hans opna myndina í svefnherbergi barns, þar sem leikföng vakna til lífs þegar eigandi þeirra er fjarverandi. Ótvíræður konungur leikfanganna er Woody, kúreki með rödd Tom Hanks. Meðal vina hans eru herra Kartöfluhaus (Don Rickles), Gormahundur (Jim Varney), Svínið Skinka (John Ratzenberger) og Bo Peep (Annie Potts). Leikföngin úr leikherberginu eru flest kunnugleg enda endurgerðir vinsælla leikfanga úr veruleikanum (sem gæti verið auglýsingabrella, en hverjum er ekki sama), meðal þeirra eru stafsetningartölva sem skráir atburði líðandi stundar (þegar herra Kartöfluhaus finnur loks frú Kartöfluhaus, eru skilaboðin "Húbba! Húbba!").
Dag einn verða smá hrókfæringar í þessum litla heimi. Eigandi leikfanganna, Andy, á afmæli. Woody fær alla tindátana í hermannafötunni til að njósna um það sem gerist niðri í veislunni, en tindátarnir nota talstöðvar frá Playskool til að láta vita um þróun mála. Hæsta viðvörunarstig fer í gang þegar nýtt leikfang kemur á svæðið, Buzz Lightyear (Tim Allen), geimlögga.
Buzz er viðkunnanlegasta leikfang kvikmyndarinnar, því að hann fattar ekki brandarann. Hann heldur að hann sé alvöru geimlögga, sem hefur tímabundið villst af leið í mikilvægum leiðangri, og hann ætlar að laga geimskip sitt hvað sem það kostar -- pappakassann sem hann kom í. Það er alvöru dýpt seinna í myndinni þegar hann sér sjónvarpsauglýsingu um sjálfan sig, og uppgötvar að hann er bara leikfang.
Sögufléttan fer virkilega í gang þegar fjölskyldan ákveður að flytja, og Woody og Buzz eru skyldir eftir á bensínstöð án hugmyndar um hvernig þeir geta komist heim. (Það gjörbreytir aðstæðunum þegar leikfangið sjálft segir, "Ég er týnt leikfang!") Og seinna er hrollvekjandi atriði í svefnherbergi Sid, hins hryllilega drengs í næsta húsi, sem tekur leikföng sín í sundur og setur þau aftur saman til að þau verði eins og skrímsli úr martröð. (Systir hans sem þjáist stöðugt vegna grimmdar hans neyðist til að halda teveislu með hauslausum dúkkum).
Þegar ég sá "Toy Story", fann ég fyrir sömu hrifningu og ég hafði þegar ég sá "Who Framed Roger Rabbit". Báðar myndirnar taka hinn þekkta heim í sundur á myndrænan hátt og setja hann svo aftur saman til að við getum séð hann upp á nýtt. "Toy Story" er ekki jafn uppfinningasöm í sögufléttum eða jafn snjöll í húmor sínum og "Rabbit" eða Disney teiknimyndir eins og "Beauty and the Beast"; hún er meira mynd um vináttu á ótroðnum slóðum. Mesta ánægjan er fyrir augun. En hvílík ánægja! Þegar ég horfði á myndina fannst mér að ég væri staddur í dögun nýrra tíma teiknimynda, sem blandar saman því besta úr teiknimyndum og veruleikanum, skapar heim sem er einhvers staðar á milli, þar sem rýmið beygir ekki bara heldur snappar, krakkar og poppar.
The Informant! (2009) ****
2.11.2009 | 19:46
Matt Damon leikur uppljóstrarann Mark Whitacre í hinni óvenjulegu gamanmynd "The Informant!"
Hann hefur eitthvað að segja. Hann fær óskipta athygli þeirra. Hann segir þeim að ADM hafi stundað verðsamráð í mörg ár, að hann hafi verið með í því, að hann hafi upplýsingarnar og vilji hreinsa samvisku sína. Eiginkona hans Ginger (Melanie Lynskey) hafi hjálpað honum að taka þá ákvörðun að gera hið rétta.
FBI ræður hann sem uppljóstrara, lætur hann hlera síma, kennir honum að fela á sér hljóðnema, og jafnvel taka verðsamráðsfundi upp á myndband, og byggja þannig þétt mál. Á endanum eru þrír stjórnarmenn, meðal þeirra varastjórnarformaðurinn Michael Andreas, sonur stofnanda fyrirtækisins, fundnir sekir; fyrirtækið sektað um 100 milljónir dollara og 400 til viðbótar vegna hópmálsóknar.
Ef þetta væri bara svona einfalt, þá hefði "The Informant!" getað verið fyrirtækjaspennumynd eins og "The Insider" (1999) í leikstjórn Michael Mann með Russell Crowe í hlutverki uppljóstrara í sígarettubransanum. Hverjum hefði dottið í hug að reyna fjársvik með fölsuðum ávísinum fyrir framan nefið á endurskoðendum FBI? Hver var sagan öll um iðnaðarnjósnirnar sem Whitaker stoppaði? Bjóst hann virkilega við að með því að uppljóstra um yfirmenn sína, myndi það opna honum ný tækifæri, einum af aðal verðsamráðsmönnunum, til að ná betri stöðu hjá fyrirtækinu?
Hvað flaug um huga Whitacre um nokkurn skapaðan hlut? Ekki einu sinni eiginkona hans var viss. Allt er útskýrt, eiginlega, í "The Informant!", og á meðan Soderbergh afhjúpa lag eftir lag af blekkingum, þróast myndin óvænt í mannlega gamanmynd. Ekki það að persónunum sé skemmt.
Það er heillandi hvernig The Informant! afhjúpar tvo samhliða atburði, sem ekki eru alltaf sýnilegir hvorum öðrum eða áhorfendum. Annað áhorf væri þess virði með þá vitneskju sem við höfum eftir fyrsta áhorf. Leikur Matt Damon er þægilegur á blekkjandi hátt. Whitacre kemur úr heimi bænda Suðurríkjanna, án tilgerðar, umkringdur einhverjum af ríkustu ökrum heimsins. Ákvörðun hans, að hlera samstarfsfélaga sína, leiðir til aðstæðna sem virðast óhjákvæmilegar, en hann virðist svo sakleysislegur að grunur fellur aldrei á hann. Það sem hann ætlar sér, er á ákveðinn hátt, svo ósköp einfalt. Jafnvel þó það fái FBI náungana til að lemja hausnum í vegg.
Mark Whitacre, sleppt stuttu eftir að FBI fulltrúarnir kölluðu hann "bandaríska hetju", stjórnar í dag hátækni sprotafyrirtæki í Kaliforníu og er enn í hjónabandi með Ginger. Nýlega sagði hann dagblaði í heimabæ sínum, Decatur Herald and Review, frá ævintýrum sínum, "Það var eins og ég væri tvær manneskjur. Ég geri ráð fyrir að það sé þess vegna sem þeir völdu Matt Damon í myndina, vegna þess að hann leikur þessi hlutverk sem hafa sálfræðilega spennu. Í 'Bourne' myndunum veit hann ekki einu sinni hver hann er."
Law Abiding Citizen (2009) ***
1.11.2009 | 18:07
Jamie Foxx í "Law Abiding Citizen."
"Law Abiding Citizen" er þétt spennumynd um fjöldamorðingja sem drepur afturábak: Hann er þegar kominn í fangelsi þegar hann fremur öll nema eitt af morðum sínum, og í einangrun mestan tímann. Þannig að sagan er lokaður-innan-í-herbergi ráðgáta: Hvernig fer hann að því að setja upp hin djúpt hugsuðu dráp? Hjálpar einhver honum utan veggja fangelsisins, eða hvað?
Jamie Foxx leikur Nick, saksóknara í Philadelphia, og Gerald Butler er Clyde, morðingi sem er vægast sagt snillingur í sínu fagi. Clyde er í upphafi myndar elskulegur eiginmaður og faðir, en þá eru eiginkona hans og dóttir myrt á hroðalegan hátt. Saksóknarinn Nick semur við morðingjana: annar hinna seku er tekinn af lífi; hinum er sleppt fyrir að bera vitni gegn félaga sínum.
Clyde trúir þessu ekki. Hann sá þá myrða fjölskyldu sína. Báðir eru sekir. Allir eru sammála. Af hverju fær annar þeirra að fara? Vegna þess, útskýrir Nick, að málið er ekki pottþétt án vitnisburðarins, og ef þeir tapa, þá sleppa báðir. Það er ekki nógu góð útskýring fyrir Clyde, sem notar næstu 10 ár til að undirbúa og leggja á ráðin og sjóða í eigin hatri. Þetta er forsagan. Ég fer ekki út í smáatriði um hvað gerist næst, fyrir utan að fyrsta morð Clyde felst í innbroti inn í aftökuklefa -- og það er áður en hann lendir í fangelsi. Er hann Houdini eða hefur hann yfirnáttúrlega krafta?Eftir því sem fleiri af aðferðum hans koma í ljós, er ljóst að hann er ekki töframaður, heldur virkilega snjall einstaklingur með ótrúlega útsjónarsemi. Svo ótrúlega, reyndar, að hún löðrungar heilbrigða skynsemi. Ofurillmenni kvikmynda eiga það til að spá rétt fyrir um það sem allir munu gera og byggja áætlanir sínar á því. Útskýringin á aðferðum Clyde er fáránleg, en hún kemur í ljós nógu seint til að leikstjóranum Gary Gray, takist að skapa töluverða spennu og ugg.
Foxx og Butler standa sig vel í grimmum samleik sínum. Colm Meaney er notaður of lítið sem lögreglufélagi Nick; okkur grunar að hann gæti verið samstarfsfélagi Clyde, þegar haft er í huga að oftast eru vel þekktir leikarar í lykilhlutverkum, en kannski gegnir hann öðru hlutverki. Leslie Bibb virkar vel sem samstarfsfélagi Nick við að sækja dómsmál, með Regina Hall í hlutverki eiginkonu Nick, Annie Corley er dómari sem upplifir óvæntar uppákomur í réttarsalnum, og hin kraftmikla Viola Davis er borgarstjórinn.
"Law Abiding Citizen" er ein af þessum myndum sem þú hefur gaman af á meðan hún varir, en gleymir svo fljótt. Ég meina, í alvöru, hugsar þú. Samt á kvikmynd sem maður hefur gaman af á meðan hún varir eitthvað jákvætt skilið frá okkur.
This Is It (2009) ****
28.10.2009 | 09:58
Michael Jackson og dansarar á æfingu fyrir áætlaða tónleika í London.
Og hún er meira en það. Hún er mynd af Michael Jackson sem gerir ekkert úr þeim orðrómi sem segir að hann hafi verið of veikur fyrir þessa tónleikaröð. Hún sýnir engan vott um ofdekraða prímadonnu. Takmörkunin á fjölda myndavéla gerir okkur fært að lifa okkur inn í starf hans nánast í rauntíma, enda atriðin nánast óklippt í stað þess vera sundruð niður í stutt myndskeið. Það gefur okkur bæði góða hugmynd um það hvernig lokatónleikarnir hefðu verið og sýnir okkur listamanninn að störfum.
Hann hækkar aldrei róminn, sýnir aldrei reiði, talar alltaf mjúkum rómi, er kurteis við samstarfsfólk og tæknimenn. Michael, ásamt leikstjóra sínum, Kenny Ortega, stjórnar framleiðslunni í smáatriðum. Hann leiðréttir tímasetningu, endurskilgreinir merki, talar um mikilvæg atriði í tónlist og dansi. Þar sem ég hef alltaf séð hann úr fjarlægð, taldi ég hann vera verkfæri framleiðsluverksmiðju. Hér sjáum við að hann var höfundur eigin sýninga.
Við vitum núna að Michael neytti fjölda lyfja þegar hann lést af völdum of mikillar lyfjagjafar, þar með talið síðasta stráið, lyf sem er svo hættulegt að það ætti einungis að vera gefið af svæfingarlækni á skurðstofu. Þessi þekking gerir okkur erfiðara að skilja hvernig hann virðist vera í frábæru líkamlegu formi. Dansatriðin, byggð af slíkri nákvæmni, skyndilegum og fullkomlega tímasettum hreyfingum, eru löng og krefjast mikils af honum, en hann sýnir aldrei þreytumerki. Hreyfingar hans eru svo samhæfðar hreyfingum hinna dansaranna á sviðinu, sem eru miklu yngri og í afar góðri þjálfun, að hann virðist vera einn af þeim. Þetta er maður með slíka stjórn á líkama sínum að hann lætur líta út fyrir að spinnast á einum stað í kringum sjálfan sig sé jafn eðlilegt og að blikka auga.
Hann hefur alltaf fyrst og fremst verið dansari, síðan söngvari. Hann sérhæfir sig ekki í því að vinna einn. Með örfáum undantekningum fallegra ástarsöngva, innihalda öll lög hans fjórar bakraddir og líklega aukahljóðrásir sem hann hefur tekið upp fyrir sýninguna. Hann er með heildarmyndina í huga.
Þetta hefði getað orðið helvíti flott sýning. Ortega og tæknibrellu-töframenn samstilla áður upptekin atriði og sviðsvinnuna. Það er hrollvekjuatriði með skrímslum sem brjótast upp úr gröfum kirkjugarðs (og draugar sem ætlað var að fljúga yfir áhorfendur). Michael er settur inn í atriði úr Rita Hayworth og Humphrey Bogart myndum, og með snjöllum tæknibrellum berst hann meira að segja gegn Bogie með vélbyssu. Skilaboð hans um umhverfisvernd eru studd með myndskeiði úr regnskógum. Hann flýgur í krana yfir áhorfendur sína.
Áhorfendur hans eru þó aðeins sviðsfólk, ljósafólk, tæknimenn, og svo framvegis. Þetta er starfandi fólk sem hefur séð þetta allt. Þau elska hann. Þau eru ekki að þykjast. Þau elska hann fyrir tónlistina, og hugsanlega jafnvel meira fyrir framkomu hans. Stórar stjörnur á æfingum eru ósjaldan sársauki í óæðri endann. Michael hellir sér í vinnuna með viðmóti samstarfsmanns, sem er tilbúinn að vinna sitt verk og fara alla leið.
Hvernig var þetta mögulegt? Jafnvel þó að hann hafi haft líkamann í þetta, sem hann hafði augljóslega, hvernig tókst honum að safna sínum andlegu kröftum? Þegar þú hefur lækni á vakt um þig allan sólarhringinn til að sjá um lyfjagjafir, þegar hugmynd þín um góðan svefn er að vera meðvitundarlaus í 24 stundir, hvernig vaknar þú og verður svo fullkomlega meðvitaður og viðbúinn? Þunglyndislyf? Ég held að þau virki ekki alveg þannig. Ég fylgdist eins og haukur með vísbendingum um áhrif lyfjamisnotkunar, en gat ekki séð nein. Kannski það skipti máli að af öllu fólki á æfingunni, er hann sá eini sem felur handleggi sína með löngum ermum.
Jæja, við vitum ekki hvernig hann gerða það. "This Is It" er sönnun fyrir því að hann gerði það. Hann stóð við sín loforð gagnvart fjárfestum og samstarfsmönnum. Hann var fullkomlega undirbúinn fyrir opnunina. Hann og Kenny Ortega, sem leikstýrði líka þessari mynd, voru í toppformi. Það er eitt atriði sem hreyfir við manni þegar Jackson og Ortega, á síðustu æfingunni, mynda hring og haldast í hendur með öllu starfsfólkinu, og þakka þeim fyrir. En tónleikarnir sem þeir lögðu svo mikla vinnu í áttu aldrei að verða.
Þetta er það.
This Is It frumsýnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Couples Retreat (2009) **
26.10.2009 | 20:03
Karlmenn bindast óhjákvæmilega böndum í "Couples Retreat" (Jon Favreau, Fazon Love, Jason Bateman og Vince Vaughn).
Formúlan sjálf hefði getað leitt til bráðfyndinnar uppákomu, en sagan virkar ekki þegar kemur að persónusköpun. Öll pörin haga sér viðstöðulaust sem sýnidæmi af vandamáli þeirra. Myndin þarf á einhverju spennandi að halda og fær hana frá hákarlaárás við köfunaræfingu, þar sem fram koma saklausir hákarlar sem keyrðir eru áfram af blóðlykt og synda stjórnlausir í endalausa hringi til að segja "bú!" Salvadore heillar konurnar á nokkuð margræðan hátt með olíubornum vöðvum og kokteil úr ananas og rommi. Mennirnir bindast ekki jafn mikið þó að þeir standi saman fyrir framan myndavélina og skiptist á bindandi samtölum.
Það er annað hótelsvæði sem heitir Austur Eden, þar sem allir eru á lausu, en ekki pör í erfiðleikum. Þar er veisla hverja einustu nótt; svo framarlega sem ég gat séð, og einu viðskiptavinirnir á Vestur Eden eru pörin fjögur, þannig að það er engin furða að það var helmingsafsláttur af ferðinni, þrátt fyrir tal Cstanley um langan biðlista.
Það besta í "Couples Retreat" er vel tímasett og gáfulegt málfar Vaughn; sérviska Love og Hawk til samanburðar við hin pörin sem virðast öll vera gerð eftir sama formi, og ástaraðferðir Serafinowicz, sem gefa í skyn ofskynjunarhugleiðslu.
Lokaatriðin eru hræðileg, þau arka formúlukennd í gegn til þess að klára myndina. Við vitum öll að pörin fjögur koma á staðinn í vanda. Við vitum að aðstæður þeirra hljóta að vera alvarlegar. Við reiknum með atburði sem breytir öllu, fær þau til að uppgötva hið sanna eðli tilfinninga sinna. Þessi atburður er brjálæðislegt fyllerí í Austur Eden. Við gerum ráð fyrir innilegum játningum djúpra tilfinninga. Og við vitum að það verður að vera gleðilegur endir sem pakkar öllu saman.
Í samhengi myndarinnar verður að sjá hinn gleðilega endi til að trúa honum. Var búist við öllum þeim atburðum sem áttu að breyta samböndunum, voru þau jafnvel skipulögð af hinum alvitra Monsieur Marcel? Marcel afhendir hverju pari dýr sem á að vera fulltrúi þeirra innri anda. Þessar myndir eru skornar út úr myrkum við, nokkuð sem ég áttaði mig á eftir að hafa séð annað, þriðja og fjórða dýrið. Hið fyrsta var kanína, sem leit út eins og súkkulaðikanína. Það hefði verið svolítið skrítið.
Capitalism: A Love Story (2009) ***1/2
26.10.2009 | 14:55
Michael Moore talar í gjallarhorn eftir að hafa innsiglað svæðið þar sem glæpurinn var framinn.
Moore sýnir tvær óvæntar afhjúpanir. Sú fyrsta felur í sér nokkuð sem kallað er "trygging látinna bænda". Vissir þú að fyrirtæki geta líftryggt starfsmenn sína, þannig að þegar starfsmaður deyr, þá fær fyrirtækið bætur þegar við deyjum? Þetta er ein gerð starfsmannatrygginga sem þau eiga ekki í neinum vandræðum með. Fyrirtæki fræða yfirleitt ekki eftirlifandi maka um peninginn sem þau fá í bætur eftir andlátið.
Hin er einnig fjallað um hið ábyrgðarlausa, siðblinda fjárhættuspil sem kallast "afleiður" ("derivatives"). Ég hef lesið að afleiður séu svo flóknar að þær eru búnar til af tölvum og ekki einu sinni höfundar hugbúnaðarins skilja þær til fulls. Moore biður þrjá sérfræðinga að útskýra hugtakið fyrir honum. Þeim mistekst það öllum. Afleiður eru í eðli sínu líkur sem veðjað er um, til dæmis líkur á hvort að við munum geta greitt af húsnæðislánum okkar. Ef við gerum það, borga veðmálin sig. En hvað ef okkur tekst það ekki? Fjárfestar geta varið veðmál sín, með því að veðja á að fólk muni ekki geta borgað. Þeir vonast til að vinna sama hvernig fer.
Húsnæðislán okkar eru fórnarkostnaður þessara veðmála. Moore segir að þau séu skorin niður og skipt og endurpökkuð og send hingað og þangað. Hann tekur viðtal við repúblikanann Marcy Kaptur (D-Ohio), sem ráðleggur þegnum sínum: Ef banki verður gjaldþrota, ekki gera neitt, og krefstu þess að þeir afhendi þér afrit af húsnæðisláni þínu. Í mörgum tilfellum geta þeir það ekki.
Þú hefur hugsanlega séð furðufuglinn sem öskrar í fjármálaþáttum kapalsjónvarpsins um lata heimiliseigendur sem fengu húsnæðislán án þess að hafa í raun haft efni á þeim. Moore segir að í raun hafi tveir þriðju allra persónulegra gjaldþrota Bandaríkjamanna verið vegna sjúkrakostnaðar. Fáir hafa efni á langvarandi veikindum í þessu landi. Moore minnist á þetta í kvikmyndinni "Sicko" (*hóst*).
Myndin er áhrifamest þegar hún útskýrir eða afhjúpar þessar skammir. Hún er áhrifaminni, en kannski skemmtilegri, þegar hún sýnir Michael í Michael-Moore-ham. Hann elskar að taka sér stöðu. Á Wall Street notar hann gjallarhorn til að krefjast endurgreiðslu peninga okkar. Hann notar gulan lögregluborða til að innsigla svæðið þar sem glæpur hefur verið framinn og lokar þannig Hlutabréfakauphöllinni ("Stock Exchange"). Hann er klassískur múgæsingamaður. Hvort sem þú elskar hann eða hatar hlýturðu að viðurkenna það. Hann viðheldur athygli okkar eins og enginn annar heimildarmyndarhöfundur hefur áður gert.
Hann er líka verkamannastéttarstrákur, engin háskólamenntun, ennþá með hafnarboltahúfu á hausnum og í víðum buxum. Hann finnur einnig til samúðar með fórnarlömbum. Horfðu á hann tala við mann sem uppgötvaði að fyrirtækið þar sem eiginkona hans starfaði fékk útgreidda "tryggingu látinna bænda". Hlustaðu á hann tala við fjölskyldu sem tapaði bóndabæ sínum eftir að hafa viðhaldið honum í fjórar kynslóðir.
Titill myndarinnar er aldrei útskýrður. Hvað meinar Moore með honum? Kannski að kapítalismi þýði að þú þurfir aldrei segja afsakið.
Zombieland (2009) ***
26.10.2009 | 08:07
Lifandi dauðir í skemmtigarði.
Í upphafi lítur "Zombieland" út fyrir að vera vegamynd þar sem hinir afdauðu ógna ferðalöngunum stöðugt, enda óteljandi uppvakningar skotnir, klesstir, hamraðir eða gerðir óvirkir á annan hátt. Wichita og Little Rock reynast svikahrappar sem gera lítið úr vonum hins ástfangna Columbus. Samt enda þau öll saman í ævintýraferð í Los Angeles skemmtigarði, fyrir enga betri ástæðu en þá að ekkert jafnast á við staðsetningu eins og tívolí fyrir hrollvekju. Já, jafnvel með draugahúsi, hinni vélknúnu lyftutónlist tækjanna og uppvakningstrúð. Columbus, eins og svo margir aðrir, er haldinn trúðafælni, sem gerir Eisenberg að vanþakklátum einstaklingi, þar sem móðir hans kom honum í gegnum skóla með því að leika trúð í barnaafmælum.
Allt þetta hefði verið hægt að gera á þunglamalegan hátt, en ekki hérna. Kvikmyndagerðarmennirnir eru uppfinningasamir og tímasetja brandarana vel, og það allrabesta við myndina er Bill Murray sem leikur fyndnasta smáhlutverk ársins. Fjórmenningarnir keyra upp að gríðarstóru húsi Murray í Beverly Hills, svo hallarlegu að það lítur út fyrir að vera fimm stjörnu hótel, og komast að því að hann býr þar ennþá. Ég mun ekki segja meira um þetta atriði, nema að það eru ekki margar uppvakningagamanmyndir sem getur minnt þig samtímis á "Psycho" og "Garfield".
Woody Harrelson gegn uppvakningi.
Ég skil vampírur að einhverju leyti, en ekki uppvakninga. Til hvers eru þeir? Af hverju líta þeir alltaf svona illa út? Gæti verið til uppvakningur með góða húð? Hvernig geta þeir verið nógu klárir til að vita að þú sért matur og svo vitlausir að þeir sjá ekki að þú sért um það bil að skjóta þá í tætlur? Ég spyr þessara spurninga einungis vegna þess að mig vantar nokkur orð í viðbót fyrir þessa gagnrýni. Ég mun klára hana með því að benda á að Bill Murray er fyrsta gamanleikarinn síðan Jack Benny var uppi sem getur fengið þig til að hlæja með því einu að standa hreyfingarlaus.
Antichrist (2009) ***1/2
23.10.2009 | 06:03
Hann og Hún eru komin að sálfræðilegu þverhnípi. Hún hefur verið að rannsaka galdra, og það fær hana til að velta fyrir sér hvort að kvenfólk sé fætt illt. Það gæti verið orsök hennar lága sjálfsmats. Hann er stjórnsamur, þrúgandi persónuleiki, sem ég held að finni sig knúinn til að refsa henni, fyrir þetta hræðilega slys, konunni sem bar son hans í heiminn.
Fyrsti kaflinn, Sorg, hentar viðfangsefninu. Mistök þeirra er að líta á sorgina sem eitthvað sem þarf að lækna frekar en að sætta sig við hana og lifa áfram. Auðvitað kenna þau sjálfum sér um fyrir að hafa verið í kynlífsleik þegar þau hefðu átt að gæta barns síns. Sekt krefst refsingar. Hún refsar sjálfri sér andlega. Af ástæðum sem Hann er hugsanlega ekki meðvitaður um, finnst honum að hann þurfi að taka á sekt hennar sem vandamáli, og heldur henni fyrirlestur í rólegum, þolinmóðum, og firrtum sálfræðistíl. Sorg hennar er hennar sök, sko, og hann ætlar að vera viss um að hún finni fyrir sektinni.
Þetta leiðir til sársauka, sérstaklega þegar hann þrábiður hana, á þessum af öllum tímum, að fara með honum í afskekktan kofa, staðsettum í myrkum skógi, sem hún óttast jafnvel á góðum degi. Kofinn er kallaður Eden; túlkaðu eftir eigin hentisemi. Þau hafa þegar borðað ávöxtinn, og kofinn verður aldrei aftur Eden fyrir þau.
Management (2009) ***
22.10.2009 | 08:49
Jennifer Aniston og Steve Zahn í "Management."
Af hverju og hvernig þau enda inni í þvottaherbergi og gera það á þurrkara er nokkuð sem "Management" tekur sem sjálfsögðum hlut. Stundum, virðist vera, að öflugar Manhattankonur svífi inn í líf náunga sem líta út eins og þeir ættu frekar að dæla bensíni á bílinn hennar. Tækni hans er auðveld: Hann tékkar hana inn, ber töskurnar hennar, færir henni blóm, bankar aftur með "sérstaka" flösku af kampavíni í boði hússins, opnar hana, sækir tvö plastvafin glös úr baðherberginu og rembist við að segja nokkur skiljanleg orð í röð.
Við getum fljótt áttað okkur á hvert leiðin liggur. Mike er fiskur á þurru landi. Hann verður að ferðast til New York og gera sem mest úr hvað hann passar henni illa. Sue fer hinsvegar til Washington, þar sem hún hittir Jango (Woody Harrelson), en hann fyrrverandi pönkrokkari sem varð milljónamæringur með því að selja jógúrt (týpískt hlutverk fyrir Harrelson). Að sjálfsögðu verður Mike að elta hana.
Hann er ekki að ofsækja hana, þú skilur. Hann langar bara að sleikja hönd hennar, vefja sig um fætur hennar og fá kastað til sín bein öðru hverju fyrir að vera svona góður strákur. Hlutverk Aniston er að sannfæra okkur um að Sue gæti fallið fyrir þessu og vegna þess að henni tekst það, virkar "Management" sem hugljúf rómantísk gamanmynd sem hægt er að hlæja að.
Það er gaman að sjá Zahn leika náunga sem er ekki dimmasta peran í ljósakrónunni. Af einhverri ástæðu er hann oft ráðinn sem heimskur dópisti, kannski vegna þess að hann var svo góður í að leika slíkar persónur snemma á ferli sínum. Hér er hann klár, en hrikalega bældur. Horfðu á Aniston leika með honum af greind og slíkum stíl að hún gæti auðveldlega tortímt honum, en er snortin af varnarleysi hans.
Fred Ward hefur safaríkt hlutverk föður Mike, manns með fullkomnunaráráttu sem situr uppi með þá staðreynd að erfingi hans er letihaugur. Hann er þó ekki ósnertanlegur. Aðeins ein spurning situr eftir, sem handritshöfundur og leikstjóri sinnar fyrstu myndar, Stephen Belber, sleppir til allrar hamingju að skoða ekki í aukaþræði: Af hverju bókar ferðastjóri skrifstofunnar hana á þetta mótel?
Inglourious Basterds (2009) ****
22.10.2009 | 08:21
Eli Roth og Brad Pitt eru "Inglourious Basterds.
Christoph Waltz í "Inglourious Basterds."
Hetjan er Brad Pitt, sem Aldo Raine liðsforingi og leiðtogi "Hrottanna". Tarantino vill sjálfsagt að við tengjum nafnið við "Aldo Ray", stjörnu óteljandi stríðsmynda og B-mynda. Raine er leikinn af Pitt sem breið skopmynd af harðróma Suðurríkjadreng, sem vill að hver og einn manna sinna færi sér 100 höfuðleður af nasistum. Flokki hans tekst svo ólíklega til að lifa af stríðið í Frakklandi og slátra nasistum í nokkur ár. Hann lætur líka sjá sig í formlegum kvöldverðarklæðnaði með örstuttum fyrirvara. Útgáfa Pitt af ítölsku er í anda Marx bræðranna.
Eitt af noir verkum Jack Vettriano af konu í rauðu.
(Úr safni Roger og Chaz Ebert)
Shosanna daðrar á útreiknaðan hátt við Frederick Zoller (Daniel Bruhl), stríðshetju nasista og nú kvikmyndastjörnu; hann sannfærir Joseph Goebbels um að frumsýna nýju stríðsmyndina sína í kvikmyndahúsi hennar. Þetta setur upp sögufléttu sem gefur Tarantino tækifæri til að brjóta nokkrar reglur og búa til heimildarmynd um hversu eldfimar nítratfilmur eru.
Eftir að ég sá Inglourious Basterds í Cannes, þrátt fyrir að hafa bloggað daglega, forðaðist ég að segja hvað mér fannst um hana. Ég vissi að Tarantino hafði gert merkilega mynd, en ég vildi fá að melta hana aðeins, og langaði að sjá hana aftur. Ég er ánægður með að hafa gert það. Eins og með margar alvöru kvikmyndir þá nýtirðu hennar betur í næsta skipti. Strax eftir að "Pulp Fiction" var sýnd í Cannes, spurði QT hvað mér fannst. "Þetta er annað hvort besta mynd ársins eða sú versta", sagði ég. Ég vissi varla hvað í helvítinu hafði komið fyrir mig. Svarið var: besta myndin. Tarantino myndir eiga það til að vaxa með þér. Það er ekki nóg að sjá þær einu sinni.