Surrogates (2009) **1/2


Eftirmyndin og hinn raunverulegi, í "Surrogates."

Afleysingar

Í framtíðarheimi "Surrogates" sitja flestar manneskjur hreyfingarlausar heima hjá sér en lifa á meðan líflegu lífi gegnum vélmenni sem þau stjórna með huganum. Þau þykjast vera yngri og fallegri en þau eru í raun og veru -- og í miklu betra formi, geri ég ráð fyrir, þar sem að eftirmynd þeirra stundar líkamsrækt í stað eigenda sinna. Enginn sem þú hittir er til staðar í raun og veru.

Bruce Willis, sem lítur út fyrir að vera 38 ára og með heilbrigða hártusku, leikur FBI-manninn Greer. Hann og félagi hans Jennifer Peters (Radha Mitchell) fá það verkefni að rannsaka sóðalegt morð sem framið er kvöld eitt fyrir utan skemmtistað, og undra sig á að fórnarlambið er sonur Dr. Lionel Canter (James Cromwell), þess sem fann upp afleysingartæknina. En bíddu aðeins, hugsar þú. Hver deyr ef afleysingin þín er drepin? Hið óþægilega svar er að morðvopnið grillar heila þess sem stjórnar líkamanum. Ég hata þegar það gerist.

Dr. Canter, ekki lengur í samstarfi við samsteypuna sem hannar afleysingar, hefur miklar áhyggjur af hans eigin uppfinningu. Eftir því sem rannsókn Greer heldur áfram og þekking hans dýpkar, finnur hann heim hinna Drauðu -- raunverulegra mannvera, sem hafna afleysingum og búa á "verndarsvæðum" með öðru fólki af kjöti og blóði. Drauðaleiðtoginn er Spámaðurinn (Ving Rhames í frekar draugalegu hlutverki), en hann predikar gegn afleysingjum sem einhverju viðurstyggilegu.

Sem þeir eru. Mér létti þegar eitthvað fór úrskeiðis með eftirmynd Greer og hann þarf að voga sér sjálfur út á götu -- miðaldra, sköllóttur og lítur satt best að segja miklu betur út en hin hryllilega afleysing hans.


Radha Mitchell í "Surrogates."

Því miður, þó að "Surrogates" sé metnaðarfyllri en hún þarf að vera, þá dettur hún alltof fljótt inn í hasaratriði. Af hverju þurfa svo mörg handrit að smækka hugmyndir sínar niður í eltingarleiki og skotbardaga? Hugtakið sem byggir á teiknimyndasögu eftir Robert Venditti og Brett Weldele, hefði farið á afar eðlilegan hátt í áhugaverðar pælingar.
 
Veltu fyrir þér fegrunaraðgerðum. Að hversu miklu leyti er Joan Rivers, 76 ára kona, að lifa í 56 ára eftirmynd? Veltu fyrir þér vandamálunum sem tengjast kynlífi. Eftir að tvær manneskjur hittast sem eru hrifnar hvor af annarri, kyssast og langar til að sofa saman, þá koma upp tveir möguleikar: (1) eftirmyndir þeirra hafa einhvers konar vélrænan ástarfund á meðan eigendur þeirra fróa sér heima; eða (2) tvær raunverulegar manneskjur, guð hjálpi mér, þurfa að uppgötva hvernig hin lítur út í raun og veru. Þar sem að þróunarkenningin gefur í skyn að við metum mögulega maka út frá möguleikum til fjölgunar, gæti þetta valdið truflunum í náttúruvali.

Við lærum að í þessum framtíðarheimi afleysingja hafa glæpir og kynþáttahatur nánast horfið. Ef einhver getur verið af hvað kynþætti sem er, það kemur í veg fyrir kynþáttahatur, ég skil það. En hvað um glæpi? Hvernig geta þessar manneskjur sem eru fátækar og atvinnulausar borgað fyrir afleysingar sínar? Hvað ef þú ákveður að skipta og fá þér betra módel? Vissulega gæti afleysingin þín haft vinnu, en af hverju ættu launin að vera eitthvað betri? Sérstaklega þar sem vélmenni eru frekar lélegir neytendur. Hvaða ferli á sér í raun og veru stað þegar afleysingjar borða saman á veitingastað? Geta þeir borðað og drukkið?

Eftirmyndir af sjálfum okkur komu fyrst inn í vitund okkar með tölvuleikjum og spjallborðum á netinu. Það er vel þekkt að einhver sem þú hittir á netinu gæti verið einhver annar en hann þykist vera. Afleysingjar hljómar eins og fyrirtaks lausn fyrir kynskiptinga. Engin aðgerð, skiptu bara um kyn eftirmyndarinnar. En myndi það fullnægja hormónum þínum? Það eru raunverulegir líkamar til staðar, og þá kemur upp annað vandamál: ef þú eyðir lífi þínu í kyrrstöðu, munu vöðvar þínir hrörna furðuhratt, og það verður eðlisfræðilega ómögulegt fyrir þig að komast fram úr rúmi og ganga, hvað þá að stökkva inn í hasar eins og Bruce Willis gerir hérna.

Þetta eru svæði sem "Surrogates," hugsanlega viturlega, kannar ekki. Slík kvikmynd hefði hugsanlega þurft leikstjóra eins og Spike Jonze eða Guy Maddin. "Surrogates" er skemmtileg og uppfinningasöm, en hún sættir sig alltof fljótt við formúluleiðina. Annað mál: hún endar með rangri töku. Rétta takan hefði átt að vera af götunni úr lofti, um fjórum tökum fyrr. Þú munt skilja hvað ég meina.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband