Funny People (2009) ***1/2


Adam Sandler og Seth Rogen. Já, Seth Rogen.
 
Uppistandsgrínistum finnst þeir þurfa að fá þig til að hlæja. Þeir eru eins og tillitslaus frændi, bara með betra efni. Samkeppnin er svo hörð þessa dagana að flestir þessara grínista eru nokkuð góðir. Ég hlæ mikið. En ólíkt tilfinningum mínum fyrir Catherine Keener, til dæmis, óska ég þess ekki að þeir væru vinir mínir. Mig grunar að þeir hlæji út á við en gnísti tönnum inn á við.
 
Judd Apatow væri mögulega sammála þessari kenningu. Ég sendi honum tölvupóst um daginn með fullt af spurningum og þetta var sú eina sem hann svaraði ekki. Hann skrifaði efni fyrir uppistand þegar hann var unglingur og innsæi hans inn í þann heim fyllir "Funny People" af fróðleik. Nýja myndin hans er full af húmor og gnísti. Hún er byggð í kringum bestu frammistöðu Adam Sandler til þessa í hlutverki George Simmons, stjörnugrínista sem kemst að því að dagar hans eru taldir.
 
Hann kann ekki að höndla fréttirnar. Hann hefur ekki stuðningshóp sem þeir segja að þú þurfir þegar þú veikist. Hann hefur gert tug kvikmynda sem slegið hafa í gegn og býr við ríkidæmi í húsi með útsýni yfir Los Angeles, en hann er samt svo einangraður að hann virðist ekki hafa nokkra þörf fyrir félagsskap. Adam Sandler leikur örvæntingu George í næmri og samúðarfullri frammistöðu; ég áttaði mig á því hérna, eins og ég gerði við áhorf "Punch Drunk Love" að hann hefur að geyma allt annan leikara en þann sem við könnumst alltof vel við. Aðdáendur hans eru fullkomlega ánægðir með hið venjulega hlutverk Sandler; óvirkan, árásargjarnan einfeldning. Þessi Sandler leikur bæði fyrir ofan og neðan hinn náungann, og fer dýpra.
 
"Funny People" er ekki bara um baráttu George Simmon við dauðleikann. Myndin sér þá baráttu innan innsiglaðs heims einmana uppistandsgrínista, leynilegt samfélag sem hefur miskunnarlausar reglur, ein þeirra sú að jafnvel hreinskilni sé brandari. "Nei -- í alvöru!"
 
Hér er maður án trúnaðarvinar. Þegar þú þarft á umboðsmanni þínum að halda fyrir tilfinningalegan stuðning, þá ertu líklega aðeins að fá 10 prósent af því sem þú þarft. Á sýningartúr hittir George hungraðan og metnaðarfullan ungan mann að nafni Ira Wright (Seth Rogen), en hann hefur skrifað gott efni í uppistand.  George ræður hann til að skrifa fyrir sig, gefur honum svo tækifæri til þess að opna sýningu og hellir síðan áhyggjum sínum yfir hann.

Það var einu sinni stúlka í fortíð George sem hét Laura (Leslie Mann). Hún var sú sem slapp. Hann hittir hana aftur, en hún er nú gift óþolandi áströlsku karlrembusvíni að nafni Clarke (Eric Bana), sem virðist sífellt vera að velta fyrir sér möguleikanum hvort hann eigi að kýla alla sem hann hittir. George gat einu sinni næstum trúað Laura fyrir hlutum, þar til framinn slökkti á honum og nú uppgötvar hann að það er kannski ennþá hægt.

"Funny People" er alvöru kvikmynd. Það þýðir vandlega skrifuð samtöl og vandlega staðsettar aukapersónur -- og hún er um eitthvað.  Hún hefði auðveldlega getað verið formúlumynd, og sýnishornin reyna skammlaust að mistúlka hana sem slíka, en George Simmons lærir og breytist í þjáningu sinni, og við höfum samúð með honum.

Myndin kynnir til sögunnar nýjan Seth Rogen, miklu grennri, rólegri, og með fleiri víddir. Rogen var farinn að sýna merki um að leika að eilífu sömu týpuna sem vina-mynda auka-stjarna, en hér uppgötvum við að hann líka hefur annan leikara innan í sér. Það sama á við um Jason Schwartzman sem leikur oft viðkvæma einstaklinga en býr hér til hæfileikaríkan andstæðing sem þú elskar að hata.

Rogen og Leslie Mann slá á allar réttu nóturnar sem hinn óvenjulegi stuðningshópur George. Sögufléttan krefst þess ekki í blindni að George og Laura finni ástina; heldur gefur einfaldlega í skyn að þau geti gert betur í lífinu. Eric Bana býr til fullnægjandi illmenni, það er rúllandi-á-lóðinni slagsmálaatriði sem á sannfærandi hátt er afar klaufalegt, og Mann gerir grín að honum með hárnákvæmum áströlskum framburði (ekki þessum staðlaða og þægilega, heldur grófari).

Apatow skilur að sérhver aukaleikari þarf að leggja sitt af mörkum. Sá sem réð Torsten Voges til að leika lækni George vann sannarlega inn fyrir launum sínum. Voges er sannfærandi á skrítinn og furðulegan hátt sem bjartsýnn raunsæismaður með hræðilegar fréttir: margfalt betri en staðalmyndin af hinum alvarlega kvikmyndalækni.

Eftir gífurlega árangursríkan feril sem framleiðandi er þetta þriðja mynd Apatow sem leikstjóri, en hann hefur einnig leikstýrt "The 40-Year-Old Virgin" og "Knocked Up". Um hann er hægt að segja: Hann er alvöru leikstjóri. Hann er ekki nema 41. Þá höfum við það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband