Orphan (2009) ***1/2
14.10.2009 | 09:02
Isabelle Fuhrman sem litli munaðarleysinginn Esther.
Eftir að hafa séð "Orphan" geri ég mér nú grein fyrir að Damien í "The Omen" var fyrirmyndarbarn. Djöflasæðið var fyrirtaks uppspretta. Rosemary hefði verið ánægð með barnið sitt. Hér er óskammfeilin og áhrifarík hrollvekja sem byggir á djöfullegustu illmennum kvikmyndanna, barni.
Því er verr og miður. Esther er svo leiftrandi snjallt barn. Hagar sér svo vel. Málverkin hennar eru meistaraverk. Hún fær sér sæti við píanó og spilar smá Tchaikovsky. Af hverju sýnir móðirin sem ættleiddi hana slíkan ótta gagnvart henni? Gæti það verið vegna þess að eftir komu hennar hafi Kate, nýja móðir hennar, drukkið sig fulla og næstum látið son sinn Daniel drukkna? Átt Max, ástkæra dóttur, en síðan misst fóstrið að þriðja barninu? Er hún alkahólisti sem reynir að halda sér þurri? Líkar henni kannski ekki hvernig munaðarleysingjastúlkan lítur út?
Það er eitthvað svo skrítið við hana. Eitthvað of viturt, of fullt þekkingar, of beinskeytt. Og af hverju vill hún ekki fjarlægja þessa borða sem hún er alltaf með í hárinu? Og af hverju klæðir hún sig eins og Little Bo-Peep þegar hún fer í skólann? Daniel er svalur gagnvart henni. Max er of ung til að vera viss. Aðeins John, faðirinn, er sannfærður um að hún sé snjallt barn og saklaus í óheppilegri atburðarrás.
Vera Farmiga er hjarta myndarinnar sem Kate, fyrrum tónlistarkennari við Yale sem finnst hún á ósanngjarnan hátt vera gerð að skotmarki af sálfræðingi sínum, eiginmanni sínum og loks yfirvöldum. Peter Sarsgaard leikur John, hinn skilningsríka eiginmann sem skilur ekki neitt nema það eitt að hann er skilningsríkur. Og Esther, munaðarleysinginn, er leikin af Isabelle Fuhrman sem mun ekki verða sannfærandi sem gott barn í langan, langan tíma.
"Orphan" byggir á klassísku spennuplotti: kvenhetjunni sem veit sannleikann og stendur við hann, jafnvel þó að allir séu sannfærðir um að hún sé biluð og vilja senda hana í endurhæfingu eða jafnvel á geðsjúkrahús. Það er pirrandi þegar þú veist að þú hefur rétt fyrir þér þegar enginn annar getur séð sannleikann sem þér finnst svo augljós.
Ýmislegt gerist í kringum Esther. Barn dettur úr rennibraut á leikvelli. Bíll rennur niður hæð. Nunna lendir í lífshættu. Esther dreifir ósannindum. Hún leynir einhverju. Og stundum er hún svo fullkomin að þú vilt helst snúa henni úr hálsliðnum. Þegar í ljós kemur að munaðarleysingjahælið hefur ónákvæmar upplýsingar um rússneskan uppruna Esther, byrjar Kate að rekja slóð en eiginmaður hennar hafnar þessu sem ofsóknarbrjálæði.
Surrogates (2009) **1/2
14.10.2009 | 06:16
Eftirmyndin og hinn raunverulegi, í "Surrogates."
Afleysingar
Í framtíðarheimi "Surrogates" sitja flestar manneskjur hreyfingarlausar heima hjá sér en lifa á meðan líflegu lífi gegnum vélmenni sem þau stjórna með huganum. Þau þykjast vera yngri og fallegri en þau eru í raun og veru -- og í miklu betra formi, geri ég ráð fyrir, þar sem að eftirmynd þeirra stundar líkamsrækt í stað eigenda sinna. Enginn sem þú hittir er til staðar í raun og veru.
Bruce Willis, sem lítur út fyrir að vera 38 ára og með heilbrigða hártusku, leikur FBI-manninn Greer. Hann og félagi hans Jennifer Peters (Radha Mitchell) fá það verkefni að rannsaka sóðalegt morð sem framið er kvöld eitt fyrir utan skemmtistað, og undra sig á að fórnarlambið er sonur Dr. Lionel Canter (James Cromwell), þess sem fann upp afleysingartæknina. En bíddu aðeins, hugsar þú. Hver deyr ef afleysingin þín er drepin? Hið óþægilega svar er að morðvopnið grillar heila þess sem stjórnar líkamanum. Ég hata þegar það gerist.
Dr. Canter, ekki lengur í samstarfi við samsteypuna sem hannar afleysingar, hefur miklar áhyggjur af hans eigin uppfinningu. Eftir því sem rannsókn Greer heldur áfram og þekking hans dýpkar, finnur hann heim hinna Drauðu -- raunverulegra mannvera, sem hafna afleysingum og búa á "verndarsvæðum" með öðru fólki af kjöti og blóði. Drauðaleiðtoginn er Spámaðurinn (Ving Rhames í frekar draugalegu hlutverki), en hann predikar gegn afleysingjum sem einhverju viðurstyggilegu.
Sem þeir eru. Mér létti þegar eitthvað fór úrskeiðis með eftirmynd Greer og hann þarf að voga sér sjálfur út á götu -- miðaldra, sköllóttur og lítur satt best að segja miklu betur út en hin hryllilega afleysing hans.
Radha Mitchell í "Surrogates."
Við lærum að í þessum framtíðarheimi afleysingja hafa glæpir og kynþáttahatur nánast horfið. Ef einhver getur verið af hvað kynþætti sem er, það kemur í veg fyrir kynþáttahatur, ég skil það. En hvað um glæpi? Hvernig geta þessar manneskjur sem eru fátækar og atvinnulausar borgað fyrir afleysingar sínar? Hvað ef þú ákveður að skipta og fá þér betra módel? Vissulega gæti afleysingin þín haft vinnu, en af hverju ættu launin að vera eitthvað betri? Sérstaklega þar sem vélmenni eru frekar lélegir neytendur. Hvaða ferli á sér í raun og veru stað þegar afleysingjar borða saman á veitingastað? Geta þeir borðað og drukkið?
Eftirmyndir af sjálfum okkur komu fyrst inn í vitund okkar með tölvuleikjum og spjallborðum á netinu. Það er vel þekkt að einhver sem þú hittir á netinu gæti verið einhver annar en hann þykist vera. Afleysingjar hljómar eins og fyrirtaks lausn fyrir kynskiptinga. Engin aðgerð, skiptu bara um kyn eftirmyndarinnar. En myndi það fullnægja hormónum þínum? Það eru raunverulegir líkamar til staðar, og þá kemur upp annað vandamál: ef þú eyðir lífi þínu í kyrrstöðu, munu vöðvar þínir hrörna furðuhratt, og það verður eðlisfræðilega ómögulegt fyrir þig að komast fram úr rúmi og ganga, hvað þá að stökkva inn í hasar eins og Bruce Willis gerir hérna.
Þetta eru svæði sem "Surrogates," hugsanlega viturlega, kannar ekki. Slík kvikmynd hefði hugsanlega þurft leikstjóra eins og Spike Jonze eða Guy Maddin. "Surrogates" er skemmtileg og uppfinningasöm, en hún sættir sig alltof fljótt við formúluleiðina. Annað mál: hún endar með rangri töku. Rétta takan hefði átt að vera af götunni úr lofti, um fjórum tökum fyrr. Þú munt skilja hvað ég meina.
Fame (2009) **
13.10.2009 | 21:36
Dansarar í "Fame": Þau ætla að læra hvernig maður flýgur.
Vinsældir
Til hvers að endurgera "Fame" ef þú hefur ekki hugmynd um hvað það var sem gerði myndina frá 1980 sérstaka? Til hvers að taka hugljúfa reynslu og breyta henni í grunna æfingu? Til hvers að byrja með spennandi sjónarhorn á möguleg ungmenni með alvöru vandamál og hemja það niður í áhorfendavænt sjónvarpsefni? Til hvers að ráða í hlutverkin leikara sem eru stundum of gamlir og reyndir til að leika útskriftarnema, hvað þá busa?
Hin nýja "Fame" er sorgleg spegilmynd af Hollywood, þar sem efni er hreinsað og gert heimskulegt fyrir hinn hugsanlega unglingamarkað sem er alltof fágaður fyrir það. Myndin er eins og sviðsuppsetning á frummyndinni. Það að virkilega hæfileikaríkir leikarar séu í myndinni hjálpar ekki til, því að þeir fá lítið til að skapa eða vinna með.
Vantar okkur á þessu augnabliki enn aðra útgáfu af krumpuðu atriði þar sem kærasti misskilur hvernig stúlkan hans brosir til einhvers annars, og reiðist? Vantar okkur foreldra sem vilja að dóttir þeirra verði klassískur píanóleikari og skilja ekki sálarþörf hennar til að flytja hipp-hopp tónlist? Og umfram allt, vantar okkur stóran endi sem er svo vandaður og yfirframleiddur að hann lítur út eins og tónlistaratriði á Óskarsverðlaunahátíðinni og gæti engan veginn hafa verið settur á svið af framhaldsskólanemendum?
Sem aðdáandi 1980 myndarinnar í leikstjórn Alan Parker hafði ég áhuga á að sjá hvað yrði gert með þessa. Mig grunar að leikstjórinn, Kevin Tancharoen ("Britney Spears Live from Miami") hafi ekki skilið útgáfu Parker. Sú mynd var ekki afsökun fyrir tónlistarmynd. Hún var mynd með frábærum tónlistaratriðum sem spruttu upp úr snertanlegum dramatískum aðstæðum.
Nýja handritið eftir Allison Burnett er grunnt og flatt. Það er ekki tekið á persónulegum eða fjölskyldusamböndum á annan hátt en með klisjum. Sum nemanda-kennara atriðin eru eitthvað sem búast mátti við, en eru áhrifarík, vegna þess að fullorðnir leikarar eins og Charles S. Dutton, BebeNeuwirth, Megan Mullally og Debbie Allen (úr frummyndinni og sjónvarpsþáttunum) tala af sannfæringu og eru ekki til að fylla út í söguþráðinn.
Myndin, eins og frummyndin, er brotin niður í einingar: "Busaár," og svo framleiðis. Í 1980 myndinni höfðum við á tilfinningunni að tíminn væri að líða og persónur að breytast. Í nýju myndinni elta þessi ár miskunnarlaust formúlu handritsins: Inngangur, Persónusköpun, Vandamál, Lausn, Góður Endir. Þegar annað ár byrjaði kíkti ég á klukkuna mína til að staðreyna hversu stuttur tími hafði liðið. Myndin virkar eins og hún hafi verið gerð í flýti. Það er kannski sönnun á klippingu eftir tökur að Kelsey Grammar, í hlutverki kennara, birtist svo sjaldan á tjaldinu (fyrsta samtalið hans er hins vegar gott).
Ég hafði litla tilfinningu fyrir hver þessi ungmenni voru. Mér líkaði mikið við sum þeirra. Þau eru ekki eftirmyndir af frumpersónunum né nota nöfn þeirra, en ég held samt að Naturi Naughton, sem Denise, eigi að virka eins og Irene Cara sem Coco. Naughton er hrífandi og hæfileikarík, en atriðin með stjórnsömum föður hennar eru skrifuð á sjálfsstýringu. Og er það mögulegt fyrir svo hæfileikaríkan klassískan píanóleikara að hafa jafn litla tilfinningu fyrir list hennar?
Kay Panabaker, sem Jenny, minnir svolítið á Molly Ringwald, en persóna hennar er ekki nógu hæfileikarík til að sannfæra okkur um að hún hafi komist í gegnum prufur. Anna Maria Perez deTagle , sem Joy, virkar svo leitandi að við vildum óska okkur að hún hefði fengið betri atriði til að vinna með. Collins Pennie, sem Malik, fer með vanþakkláta hlutverkið sem ungur og reiður maður vegna bernskuminninga; það að hann er 25 gerir unglingaveikina ekkert sérlega sannfærandi.
Kvikmyndagerðarmennirnir hafa stokkað upp í spilastokknum, með nokkrum reynslumiklum leikurum á tvítugsaldri sem líta eiginlega ekki út eins og 14 ára busar en dansa eins og atvinnumenn á Broadway. Reynsluleysi þeirra er leikið, ekki tilfinnanlegt. Kaldhæðnin er sú að persónan sem Dutton leikur í myndinni gefur ráð sem myndin sjálf hefði átt að fara eftir.
23. september 2009
eftir Roger Ebert
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)