Jennifer's Body (2009) ***
20.10.2009 | 09:35
Megan Fox (vinstri) og Amanda Seyfried í atriði úr "Jennifer's Body."
Ímynd hennar gefur henni dýrmætt vopn til að fullnægja hennar óvenjulegu matarlist. Feimnir strákar sem hefðu aldrei getað dreymt um að komast í samband með Jennifer uppgötva að hún er þeim óvænt vinsamleg, jafnvel tælandi. Einum strák er jafnvel boðið heim til hennar. Þetta reynist vera óhugnanlegt tómt hús. Af hverju fer fólk alltaf inn í óhugnanleg tóm hús og staulast um í myrkrinu þegar það er hægt standa úti á gangstétt og blístra?
Jennifer kemst upp með morð vegna þess að, nú, hvern myndi gruna kynþokkafulla og vinsæla klappstýru til að drekka blóð í leyni og mögulega háma í sig mannakjöt? Aðeins Needy grunar hinn hryllilega veruleika og loks er það hún sem stendur á milli Jennifer og fleiri fórnarlamba, meðal þeirra Chip Dove (Johnny Simmons) sem þú veist að er góður strákur af því að hann heitir sakleysislegu nafni, þegar allt kemur til alls, hvers konar nafn væri Chip Dove fyrir illmenni?
Það væri auðvelt að halda þessari grein áfram á svipaðan hátt, en ég er að gleyma svolitlu. Það er innan í Diablo Cody sál listamanns, og handrit hennar gefur þessu efni ákveðna skerpu, nokkurs konar barnslega kæti sem gefur ekkert eftir. Þetta er ekki unglingahrollvekja sem kemur beint af framleiðslulínunni. Jennifer og Needy eru aðeins of gáfulegar, samræðan er aðeins of ýkt, persónusköpunin er aðeins of öðruvísi. Eftir að hafa séð nóg af unglingahrollvekjum, lærirðu að meta þennan mun. Það má orða þetta þannig: Ég myndi frekar horfa á "Jennifer's Body" aftur heldur en "Twilight".
Megan Fox er svolítið spes. Við lítum á hana sem stjörnu, en þetta er samt fyrsta aðalhlutverk hennar. Hún komst ekki á 18. sæti Maxim yfir þær heitustu 100 árið 2007 fyrir leik. (Lindsay Lohan lenti í fyrsta sæti. Hversu fljótt hlutirnir breytast.) Fox er líka fræg fyrir að hafa mörg húðflúr, og þegar ég rannsakaði betur þann hluta af ímynd hennar, gerði ég jákvæða uppgötvun. Hver sem er getur verið með húðflúr af fiðrildi. Verið þar, gert það. En Megan Fox hefur húðflúr sem vitnar í "King Lear": "Við munum dást að gylltum fiðrildum." Hversu svalt er það? Þar að auki, til þessa, eru engar þreytandi slúðursögur um áfengi og fíkniefni.
Fox gerði ferli sínum mikið gagn með "Transformers" myndunum tveimur, en þetta er fyrsta tækifæri hennar til að leika, og veistu hvað? Hún er góð. Hún þarf að fara í gegnum hið nauðsynlega spúandi æluatriði og lifir það einhvern veginn af, hún leikur hlutverkið hreint út, og hún lítur frábærlega út í blóði drifnum kjól með hárið út um allt. Amanda Seyfried er góð í hetjuhlutverkinu.
Myndin er leikstýrð af Karyn Kusama, en hún kynnti kvikmyndaheiminum Michelle Rodriguez í hinni afbragðsgóðu "Girlfight" (2000). Hún meðhöndlar efnið á áhrifaríkan hátt og með mikilli sköpunargleði. Þetta er ekki list, þetta er ekki "Juno", þetta er ekki "Girlfight", heldur mynd um mannætuklappstýru. Hún er betri en hún þarf að vera.
The Haunting in Connecticut (2009) **
19.10.2009 | 09:15
Virginia Madsen í "The Haunting in Connecticut": Hvaða hljóð var þetta þarna uppi?
En hvaða máli skiptir það ef þú ert bara að leita eftir draugasögu? "The Haunting in Connecticut" er tæknilega vel gerð hrollvekja og vel leikin. Við höfum ekki staðlaðar persónur, heldur Virginia Madsen og Martin Donovan í hjónabandi með erfiðleika, Kyle Gallner sem dauðvona son þeirra og Elias Koteas sem grimman prest. Þau gera fjölskylduna, nú undir nafninu Campbells, álíka raunverulega og hún getur verið við þessar aðstæður. Myndin hefur magnaða tónlist og kvikmyndatakan vekur óhug, og hús sem vill ekki hafa íbúa vegna þess að upprunalegu íbúarnir... dóu, getum við sagt.
Þannig að allt er til staðar, og einn gagnrýnandi sagðist hafa "öskrað eins og smástelpa þrisvar sinnum," þó að hann sé frekar þekktur fyrir að gera það. Það eru tvennt í myndinni sem getur fengið þig til að skrækja: (1) Óvæntar uppákomur og (2) Draugar.
Óvæntu uppákomurnar eru þessi augnablik þegar hönd, andlit, líkami, líkamshluti eða (venjulega) köttur stekkur inn í rammann, og þú hoppar í sætinu þínu og segir, "Ó, þetta var bara köttur." Eða andlit, líkamshluti, vampíra, og svo framvegis. Draugarnir innihalda frekar draugalegar sýnir sem geta verið eða eru mögulega ekki efnislegar.
Matt, sonur Campbell hjónanna, er dauðvona af krabbameini og þarf að keyra hann marga kílómetra fyrir geislameðferðina hans. Madsen tekur þá "yfiriveguðu ákvörðun" að kaupa hús í fjarlægum bæ til að Matt, með brunasár eftir geislameðferðina og stöðugt óglatt, þurfi ekki að keyra of langt í meðferð. Ef kvikmyndin hefur galla, og hún hefur þá, þá er það of margir óvæntir atburðir. Allar dyr, gluggar, svefnherbergi, gangar, stigar, kjallari, loft og jafnvel svæði sem þarf að nálgast með því að skríða innihalda öll óvænta atburði, þannig að það er sjaldgæft ef eðlilegur hlutur gerist í húsinu. Campbell hjónin lenda svo oft í óvæntum atburðum, að þau hljóta að vera dauðuppgefin í lok hvers dag eftir öll þessi hlaup, hopp og að standa virkilega kyrr.
En ég má ekki vera of harður, vegna þess að óvæntir atburðir eru það sem kvikmyndir eins og þessi nærast á. Koteas er frábær sem presturinn, ekki sem draugabani með rómverskan kraga heldur sem sjúklingur í þjáningu af áhrifum geislavirkni sem virðist aldrei sannfærður um að hið góða muni vinna á endanum.
Þannig. Fáránleg saga, svo oft brugðið að það hættir að hafa áhrif, góður leikur og listi starfsmanna sem komu að myndinni, og hvað annað? Ó, hvað með árurnar? Afhjúpaði Houdini slíkt ekki sem svik? Og gerði hinn stórfenglegi Randi það ekki líka? Og hvernig stendur á að þær séu enn notaðar sem sönnunargögn í sönnu sögunni?
Bandslam (2009) ***
19.10.2009 | 08:34
Will (Gaelan Conell, fyrir miðju) lendir í menntaskólarokkbandi með einfaranum Sa5m (Vanessa Hudgens, til vinstri) og klappstýrunni Charlotte (Aly Michalka) í Bandslam.
Hann tekur eftir einmana stúlku að nafni Sa5m ("5 heyrist ekki"). Hún er leikin af Vanessa Hudgens ("High School Musical") sem hlédræg, yfirleitt svartklædd, dularfull. Eitt af leyndarmálum hennar er að hún er hæfileikaríkur tónlistarmaður. Will fær hana með í hljómsveitina og aðra tónlistarmenn sem hafa verið til hliðar, meðal þeirra mjög hljóðláta asíska stúlku að nafni Kim Lee (Lisa Chung), sem er klassískur píanóleikari en spilar frábærlega á hljómborð jafnvel þó að henni sé lífsómögulegt að brosa.
Hljómsveit Charlotte heitir Glory Dogs. Will endurskýrir hana sem "Ég get ekki haldið áfram ég mun halda áfram," sem óhjákvæmilega endurspeglar aðstæður sem koma upp í myndinni. Hann leggur sig allan fram við að endurútfæra tónlist bandsins, svo mikið að yfirþyrmandi móðir hans (Lisa Kudrow) verður áhyggjufull - en hún kemur til að hlusta á hljómsveitina og heillast.
Will veit ekkert um stelpur. Þegar Charlotte segir að henni líki virkilega við hann, trúir hann því, jafnvel þó að fyrrverandi klappstýra sé ólíkleg til að velja nörd eins og hann. Sa5m sýnir mikinn áhuga á tilhugalífi og er augljóslega rétta stúlkan fyrir hann. Einnig er í myndinni myndarlegi útskriftarneminn Ben (Scott Porter), en hljómsveit hans sigraði tónlistarkeppnina árið áður, auk þess að hann er fyrrverandi kærasti Charlotte. Hann er svona ruddi sem þykist rekast óvart utan í þig á göngunum.
Kvikmyndin leiðir að fylkiskeppninni, að sjálfsögðu, þar sem mörg sambönd eru ræktuð og vandamál leyst. Þannig að sögufléttan inniheldur í sjálfu sér ekkert óvænt. Það sem fær myndina til að virka er tilfinning hennar fyrir persónum sínum, og heillandi aðalleikarar. Gaelan Connell hefur verið líkt við ungan John Cusack og Tom Hanks, af góðri ástæðu; hann er aðlaðandi en svolítið sérstakur, ekki of myndarlegur, góður í að skipta úr sjálfhverfu viðhorfi yfir í nýfundið traust sem framleiðandi hljómsveitar. Það gerir ótrúlegustu hluti fyrir mannorð manns í framhaldsskóla þegar allir trúa því að vinsælasta stelpan sé hrifin af honum.
Flestir nemendur eru að sjálfsögðu algjörlega blindir á hæfileika Sa5m, sem er reyndar regla í veruleikanum frekar en undantekning. Líttu í kringum þig á skólalóð eftir þeim snjöllu sem passa ekki inn, og þú munt finna þá sem ná lengra en "hinir vinsælu"; það er ekki óbrigðull sannleikur, en gagnlegt að kannast við tilhneiginguna. Þú munt líka finna einhvern sem gæti sagst líka við þig og meint það bókstaflega.
Bæði Aly Michalka og Vanessa Hudgens eru tónlistarmenn, nokkuð sem gerir æfingar og framkomu á tónleikum sannfærandi. Þær búa einnig yfir fegurð og nærveru, og virðast samt raunverulegar. Lisa Kudrow forðast gildrur hinnar ofverndandi móður; við lærum eitthvað um það af hverju hún hefur svona miklar áhyggjur. Þetta er ekki skotheld mynd, en fyrir það sem hún er, þá er hún heillandi og ekkert saklausari en hún þarf að vera
District 9 (2009) ***
19.10.2009 | 07:56
Wikus van der Merwe (Sharlto Copley) er ráðinn til að takast á við geimver, sem eru uppnefndar "rækjur".
Þessi vísindafantasía, leikstýrð af nýjum leikstjóra, Neill Blomkamp og framleidd af Peter ("The Lord of the Rings") Jackson, er að upphafi í formi skopheimildarmyndar þegar kemur að verkefni van der Merwe við flutning geimveranna, sýkingu hans af dularfullum vírus, flótta hans til Svæðis 9 og óvænta vináttu við geimveru sem hagar sér gáfulega og í ljós kemur að hefur, ef ég má orða það svo, mannlegar tilfinningar. Þessi geimvera, nefnd Christopher Johnson - já, Christopher Johnson - hefur undir húsi sínu falið vinnustofu þar sem hann undirbýr flótta til móðurskipsins, en markmið hans er að koma fólki sínu heim.
Mikið af söguþræðinum tengist þráhyggju einkarekins öryggisfyrirtækis til að læra um vopn geimveranna. em manneskjur geta ekki notað þau. Áhugavert er að geimverurnar nota ekki þessi vopn sér til varnar. Skiptir ekki máli. Eftir að út úr handleggi van der Merwe sprettur humarkló í stað handar, getur hann notað vopnin, og verður þar af leiðandi eftirsóknarverður af öryggisfyrirtækinu og nígerískum glæpamönnum sem misnota sér geimverurnar með því að selja þeim kattamat. Allt þetta er framsett á afar alvarlegan máta.
Suður Afrísk staðsetning myndarinnar kallar óhjákvæmilega á hliðstæður við fyrrum Apartheit aðskilnaðarstefnuna. Margar þeirra eru augljósar, eins og sú að færa heilan þjóðflokk út úr borginni og á fjarlægt svæði. Aðrar hitta beint í mark. Titillinn "District 9" er vísun í District 6 í Höfðaborg, þar sem Höfðalitaðir (eins og þeir voru kallaðir þá) áttu heimili og fyrirtæki til margra ára áður en þeim var rutt úr vegi með jarðýtum og fólkið flutt nauðugt af svæðinu. Nafn hetjunnar, van der Merwe, er ekki algengt nafn meðal Afríkana, hinna hvítu Suður Afríkumanna af hollenskum uppruna, en er nafn sem notað er mikið í hinum svokölluðu van der Merwe bröndurum, þar sem hetjan er yfirleitt afar heimsk. Suður afrískt eyra myndi ekki láta framhjá sér fara að tungumál geimveranna er samsett af klikkandi smellum, rétt eins og Bantu, tungumál stórs hóps af skotmörkum Apartheid stefnunnar. Hér má einnig finna harða ádeilu um útlegð og meðferð flóttamanna.
Sannarlega er þessi van der Merwe ekki skýrasta ljósaperan í krónunni. Í peysuvesti yfir stuttermaskyrtu, gengur hann upp að kofum geimvera og biður þær vinsamlegast um að undirrita eyðublað til samþykktar flutnings. Hann hefur lítið skynbragð á varkárni, sem er ástæða þess að hann lendir í töluverðum vandræðum. Neill Blomkamp tekst einhvern veginn að vekja samúð með Christopher Johnson og syni hans, litla CJ, þrátt fyrir útlitið. Þetta tekst honum með því að gefa þeim, en engum öðrum geimverum, líkamlega og mannlega tjáningu, og litli CJ hefur jafnvel stór og rök augu, rétt eins og E.T.
District 9 gerir margt rétt. Eitt af því er að sýna okkur geimverur sem líta ekki út eins og áttfættir englar eða úr ryðfríu stáli. Þær eru greinilega ekki héðan. Heimildarmynd og tæknibrellum (geimverurnar eru gerðar með tölvugrafík) er blandað saman á afar faglegan hátt.
Ég varð fyrir vonbrigðum með þriðja hluta myndarinnar, sem innihélt staðlaða skotbardaga og hasar. Engin tilraun var gerð til að leysa vandamálið, og ef það er góður endir, hef ég séð þá betri. Þrátt fyrir sköpunargleði, er myndin geimópera og forðast að feta sig út í metnaðarfyllri svæði vísindafantasíunnar.
Mér þykir áhugavert að sjá hvort að áhorfendur sætti sig við þessar geimverur. Ég sagði að þær væru ógeðslegar í útliti og viðbjóðslegar í framkomu, og ég held að það sé ekki bara ég. Einnig kemur fram í myndinni að nígerískar vændiskonur selja sig kynferðislega geimverunum, en sleppir til allrar hamingju að skemmta okkur með að sýna hvernig svoleiðis fer fram.
G-Force (2009) **1/2
18.10.2009 | 08:30
Hurley (Jon Favreau) og þrjár mýs sem hafa ekki talhlutverk.
Illi milljarðamæringurinn Saber, leikinn af Bill Nighly í hlutverki sem við gætum lýst sem einstakri frammistöðu, hefur verið á flótta undan FBI í tvö ár, en á einni kvöldstund tekst G-Force að bjarga plánetunni með því að lauma inn ormi eða vírus, eða einhverju drasli, inn í djöfullegan hugbúnað heimilistækjanna sem Saber framleiðir. Öll forritun er unnin af lyklaborðasnillingi sem sýnir viðeigandi ákafa forritara þegar hann keppist við að slá inn kóða áður en forritið áttar sig á hvað hann er að gera. Þú ættir að sjá þennan litla gaur lemja á lyklaborðið. Gaur, ó gaur.
Það er takmarkaður fjöldi dýra í myndinni. Meðal þeirra loftmikill hamstur og vinur naggrísanna sem leysir oft vind án þess að bæla niður prumphljóðið. Mér heyrðist einhver félaga hans kalla hann "Farty", en það gæti verið bara ég. G-Force teymið er sett saman af Darwin (Sam Rockwell), Juarez (Penélope Cruz) og Bucky (Steve Buscemi). Nicholas Cage leikur moldvörpuna Speckles sem ekki er leikin af hans venjulega ákafa. Þú vilt ekki ofvirka moldvörpu. Ég vissi ekki að þær væru með þessa titrandi bleiku nema á snoppunni. Hlýtur að kitla. Juarez hefur dýrslegan kynþokka, en ef þú spyrð mig, þá lítur einn naggrís út eins og hver annar.
Hér er eitt sniðugt atriði. Hvernig eiga fjarstýrð heimilistæki að ná heimsyfirráðum? Jú, herra, að sjálfsögðu munu þau öll fljúga og safnast saman í risavaxin vélmenni sem gerð eru úr allskonar tækjapörtum. Við sjáum eitt af þessum málmskrímslum, og veistu hvað, ef ég vissi ekki betur, þá myndi ég segja að það liti út eins og... já, ég held það bara... eins og... Transformers! Fyrir utan að það er gert úr eldhúsáhöldum en ekki Chevrolet bílum. Hvernig munu þau ná heimsyfirráðum? Að sjálfsögðu með því að traðka á hlutum.
G-Force nagdýrin bæta einum félaga í hópinn; Hurley (Jon Favreau), þybbnum naggrís. Þessi sérforrituðu heimilistæki geta verið ansi hættuleg. Örbylgjuofn nokkur fangar Hurley og setur sig í gang. Hann skiptir sér yfir á ólíkar stillingar, frá Köku til Kjúklings, en tekst samt ekki að elda fanga sinn. Ég átti einu sinni svona örbylgjuofn. Hann eldaði ekki heldur nokkurn skapaðan hlut. Bölvað drasl.
Það eru líka alvöru fólk sem leikur í myndinni, ekki bara Bill Nighly, heldur einnig Kelli Garner sem dýralæknir, Zach Galifianakis sem stór, tötralegur gaur, Will Arnett sem mjór, ótötralegur gaur, og Gabriel Casseus sem fulltrúi að nafni Trigstad. Eitthvað annað sem þú þarft að vita?
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 08:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ice Age: Dawn of the Dinosaurs (2009) ***1/2
17.10.2009 | 07:11
Scrat frá sjónarhorni hálskirtla í risaeðlu.
Allir vinir okkar eru komnir til baka, ásamt nýjum, meðal þeirra hinn ógurlegi T-Rex og skvísa fyrir íkornann Scrat, sem kallast Scrattè, með áberandi frönskum framburði yfir è-inu. Eins og er við hæfi fyrir þetta land fyrir tímatal, þá eru Scrat og Scrattè sverðtenntir íkornar. Engin furða að stóru tennurnar dóu út. Þær eru gagnlegri fyrir kjötætur en grænmetisætur. En rökfræði eins og þessi gerir ekkert gagn í kvikmynd þar sem letidýrið Sid (með rödd John Leguizamo) fóstrar þrjú risaeðluegg og ætlar að ala afkvæmin upp sjálfur.
Þannig enda þau öll undir yfirborði hinnar Holu Jarðar, landinu sem Edgar Rice Burroughs kallaði Pellucidar, og ég reikna með að slíkum stað megi gefa hvaða því nafni sem þér dettur í hug. Risaeðlumóðirin leitar að erfingjum sínum, grípur þá og Sid, og hverfur svo undir yfirborðið. Allir-fyrir-einn, einn-fyrir-alla er mottóið sem gildir meðal vina okkar, sem veita eftirför: Loðfílarnir Manny og Ellie (Ray Romano og Queen Latifah), sverðtennta tígrisdýrið Diego (Denis Leary), og sófadýrin Eddie og Crash (Josh Peck og Seann William Scott). Þau hitta hreysiköttinn Buck (Simon Pegg) sem er með lepp fyrir auga í staðinn fyrir staurfót, en hann hefur sterka þráhyggju um að finna hina stórfenglegu hvítu risaeðlu, sem því miður heitir ekki Moby Dino.
Ný-útunguð móðurlaus börn í "Ice Age: Dawn of the Dinosaurs."
Í Ice Age myndunum lærir tígrisdýrið að lifa í sátt og samlyndi með jafn ætilegum tegundum og letidýrum og gasellum, en risaeðlur hafa ekki verið skráðar í sáttmálann, og þessi er svo stór að hún gæti jafnvel étið heilan loðfíl í einum bita. Það er sviðsetning fyrir það sem myndaröðin er þekkt fyrir -- eltingarleiki sem innihalda svimandi hröp, slöngvun til himna og bjarganir á síðustu stundu frá ókunnugum meltingarvegi. Þetta er hrein sköpun. Ólíkt samdauna eltingarleikjum í sumum fjölskylduteiknimyndum þá er "Ice Age: Dawn of the Dinosaurs" stöðugt uppfinningasöm á myndrænan hátt.
Carlos Saldanha, handritshöfundur myndarinnar frá 2002 og aðstoðarleikstjóri (vonbrigði) "Ice Age: The Meltdown" (2006) leikstýrir í þetta skiptið, og mörg af atriðunum hans eru í anda snilldaratriðsins þar sem Scrat eltist við akarnið í opnunaratriði fyrstu "Ice Age" myndarinnar. Meðal þeirra er atriði þar sem Scrat, Scrattè og akarnið eru föst innan í fljótandi kúlum, sem er ekkert mál fyrir akarnið. Þetta akarn er afar hæfileikaríkt og minnir á Gilbert O'Sullvian söngbókina sem tjáir hversu einmana akarn hlýtur stundum að vera. Þú vilt ekki borða of hratt svona gáfað akarn.
Mér fannst þrívíddin vel gerð. Samt er ég ósannfærður um ferlið. Þú þarft að fikta í gleraugunum, birtan er minni en á venjulegri sýningu, og svo framvegis. En ég var hissa á hversu vel "Dawn of the Dinosaurs" notfærir sér þrívíddina. Hún skapar miklu minna af truflandi fljúgandi víddir, og tekst með mikilli færni að láta alla myndina virðast heilsteypta. Myndin er einnig víða sýnd í tvívídd ef þú vilt spara þér nokkrar krónur. Ég mæli með þeirri leið.
Up (2009) ****
16.10.2009 | 16:07
Blöðrur, hús, hundur, strákur, karl: "Up."
"Up" segir sögu sem kitlar ímyndunaraflið á sama hátt og hinar töfrandi teiknimyndir sem ég man eftir úr barnæsku minni, þegar ég hélt í minni einfeldni að það væri vegna þess að litirnir væru bjartari, útlínur persóna betur skilgreindar og söguþráðurinn einfaldari, en sannleikurinn er sá að þær voru meira sannfærandi en venjulegar kvikmyndir.
Hún hefst með ástarsögu sem er jafn hugljúf og yndisleg og nokkuð sem ég man eftir úr teiknimyndum. Tvö börn að nafni Carl og Ellie hittast og uppgötva að þau eiga sér þann sameiginlega draum að einhvern daginn vilja þau kanna heiminn. Í fréttaskotum sjá þau sagt frá ævintýrum Charles Muntz (Christopher Plummer), sem notar gríðarstórt loftskip sitt til að kanna týndan heim á landsvæði í Venezuela og kemur til baka með bein úr furðudýrum sem hafa ekki áður fundist. Þegar hann er sakaður um að falsa uppgötvanir sínar, flýgur hann í fússi aftur til Suður Ameríku og sver að hann muni snúa aftur með lifandi dýr til að sanna mál sitt.
Ekkert spyrst til hans í fjölmörg ár. Ellie og Carl (Edward Asner) vaxa úr grasi, verða ástfangin, giftast, kaupa sér töturlegt hús og breyta því í draumaheimili sitt, eru hamingjusöm saman og verða gömul. Þetta ferli er hljóðlátt, fyrir utan tónlistina (hin eldri Ellie hefur ekki einu sinni rödd). Docter sýnir á fagran hátt, án samtala, atriði sem sýnir lífsreynslu á máta sem aldrei hefur verið gert í fjölskylduteiknimynd. Turtuldúfurnar spara smámynt í krukku til að eiga á endanum fyrir ferðalaginu til hinna goðsagnarkenndu Paradísarfossa, en veruleiki lífsins hindrar þau: sprungin dekk, lagfæringar á heimilinu, lækniskostnaður. Síðan uppgötva þau sorglega staðreynd. Þessi inngangur er ljóðrænn og áhrifamikill.
Kvikmyndin fjallar um líf Carls eftir að Ellie hefur fallið frá. Hann verður einangraður, ver sig gegn heiminum, heldur heimili sínu til minningar, talar við hina fjarlægu Ellie. Dag einn ákveður hann að pakka saman og fljúga í burt -- bókstaflega. Þar sem hann hefur starfað alla sína ævi sem blöðrumaður, hefur hann búnað til staðar sem dugar til að lyfta húsinu með óteljandi helíumfylltum blöðrum og uppfylla draum þeirra um að leita Paradísarfossa. Hann reiknaði hins vegar ekki með ómeðvituðum laumufarþega, Russell (Jordan Nagai), skylduræknum skáta, sem lítur út fyrir að vera af austrænum uppruna.
Ég mun ekki tala um það sem þeir finna við Paradísarfossa eða það sem gerist þar. En ég vil lýsa gríðarstóru loftskipi Charles Muntz sem sveimar þar. Það er stóráfangi í hönnun og er hugsanlega innblásin, þó ekki í útliti, af "Castle in the Sky" eftir Miyazaki. Utanfrá séð er það ekkert sérstakt: bara virkilega stórt loftskip. En innviðir skipsins er eitt af þessum kvikmyndasvæðum sem þér finnst að þú munir aldrei gleyma.
Að innan er loftskipið útbúið eins og skemmtiferðarskip frá gullna tímanum, með formlegt kvöldverðarherbergi, langa ganga, sýningarrými sem jafnast á við Náttúrusögusafnið í New York, og loft sem er nógu rúmgott til að geyma orustuflugvélar. Muntz, sem hlýtur að vera orðinn aldargamall þegar hér kemur við sögu, er drífandi, ástríðufullur og illskeyttur, en einangruðu lífi sínu hefur hann deilt með hundum sem líkjast helst vélmennum.
Ævintýrin í frumskóginum eru jafn skemmtileg og í myndum eins og Mummy/Tomb Raider/Indiana Jones. En þau eru ekki uppistaðan í kvikmyndinni. Þetta er ekki mynd eins og "Monsters vs Aliens", sem býður að mestu upp á stanslausan hasar. Hér eru mikilvæg mál í húfi, persónuleikar sem slysast inn í atburðarrásina, og tveir gamlir karlar sem berjast um tilgangs lífs þeirra. Og strákur sem til tilbreytingar, er ekki klárari en allir hinir fullorðnu. Og tryggur hundur. Og dýr sem slæst með í förina. Og alltaf þetta hús og þessar blöðrur.
Funny People (2009) ***1/2
16.10.2009 | 11:57
Adam Sandler og Seth Rogen. Já, Seth Rogen.
Það var einu sinni stúlka í fortíð George sem hét Laura (Leslie Mann). Hún var sú sem slapp. Hann hittir hana aftur, en hún er nú gift óþolandi áströlsku karlrembusvíni að nafni Clarke (Eric Bana), sem virðist sífellt vera að velta fyrir sér möguleikanum hvort hann eigi að kýla alla sem hann hittir. George gat einu sinni næstum trúað Laura fyrir hlutum, þar til framinn slökkti á honum og nú uppgötvar hann að það er kannski ennþá hægt.
"Funny People" er alvöru kvikmynd. Það þýðir vandlega skrifuð samtöl og vandlega staðsettar aukapersónur -- og hún er um eitthvað. Hún hefði auðveldlega getað verið formúlumynd, og sýnishornin reyna skammlaust að mistúlka hana sem slíka, en George Simmons lærir og breytist í þjáningu sinni, og við höfum samúð með honum.
Myndin kynnir til sögunnar nýjan Seth Rogen, miklu grennri, rólegri, og með fleiri víddir. Rogen var farinn að sýna merki um að leika að eilífu sömu týpuna sem vina-mynda auka-stjarna, en hér uppgötvum við að hann líka hefur annan leikara innan í sér. Það sama á við um Jason Schwartzman sem leikur oft viðkvæma einstaklinga en býr hér til hæfileikaríkan andstæðing sem þú elskar að hata.
Rogen og Leslie Mann slá á allar réttu nóturnar sem hinn óvenjulegi stuðningshópur George. Sögufléttan krefst þess ekki í blindni að George og Laura finni ástina; heldur gefur einfaldlega í skyn að þau geti gert betur í lífinu. Eric Bana býr til fullnægjandi illmenni, það er rúllandi-á-lóðinni slagsmálaatriði sem á sannfærandi hátt er afar klaufalegt, og Mann gerir grín að honum með hárnákvæmum áströlskum framburði (ekki þessum staðlaða og þægilega, heldur grófari).
Apatow skilur að sérhver aukaleikari þarf að leggja sitt af mörkum. Sá sem réð Torsten Voges til að leika lækni George vann sannarlega inn fyrir launum sínum. Voges er sannfærandi á skrítinn og furðulegan hátt sem bjartsýnn raunsæismaður með hræðilegar fréttir: margfalt betri en staðalmyndin af hinum alvarlega kvikmyndalækni.
Eftir gífurlega árangursríkan feril sem framleiðandi er þetta þriðja mynd Apatow sem leikstjóri, en hann hefur einnig leikstýrt "The 40-Year-Old Virgin" og "Knocked Up". Um hann er hægt að segja: Hann er alvöru leikstjóri. Hann er ekki nema 41. Þá höfum við það.
9 (2009) ***
15.10.2009 | 08:01
#9, hetjan í "9."
Fyrstu myndskeiðin í "9" eru heillandi. Í nærmynd sauma þykkir fingur síðustu sporin í næstum mannlega litla tuskudúkku og bætir við augum sem líkjast sjónauka. Þessi vera lifnar við, gengur um á riðandi fótum og vogar sér óttaslegin út í landslag borgar sem sprengd hefur verið í tætlur.
Þessi framtíðarheimur var fyrst búinn til sem stuttmynd af Shane Acker, nemanda við UCLA, og var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2006. Þá þótti mér hún hafa "skríðandi, mölvandi, illskeytt andrúmsloft... virkaði eins og feluleikur, fallega teiknuð og sérstaklega ósnyrtileg." Þannig er það ennþá þegar aðalpersónan kölluð "9" hittir forvera sína frá #1 til #8 og þeir lenda í bardaga við Transformers-legt rauðeygt skrímsli sem kallast Skepnan.
Maður gæti spurt um tilgang þess að búa til lífsform í heimi sem annars er án lífs, til þess eins að útvega því óvin sem vill öllu kosta til að eyða því. Tilgangurinn, í hamingjunnar nafni, er að búa til undirstöðu fyrir runu hasaratriða, bardaga í heimsendatón sem er áhugaverður fyrir augað, en jafn miskunnarlaus og samskonar stanslaus-hasar-allan-tímann myndir. Þetta eru vonbrigði. Með væntingar í kjölfar upphaflegu stuttmyndarinnar í huga hafði ég hlakkað til að sjá hvað Acker myndi gera við mynd í fullri lengd, sérstaklega með framleiðanda eins og Tim Burton sér við hlið.
Persónurnar eru allar nokkuð líkar, en samt er nokkuð auðvelt að greina þær í sundur, ekki síst vegna þess að þær hafa tölustaf saumaðan á bakið. Þær hafa sýnileg persónueinkenni og tala röddum virtra leikara, meðal annars Christopher Plummer sem leiðtogi þeirra #1 og Jennifer Connelly sem aðalkvenhetjan #7. Gagnsemi kyns hjá verum sem hafa ekki kynfæri er ekki rætt, ekki einu sinni ýjað að málinu.
Níu er yngsta, líklega greindasta og örugglega sú hugaðasta þegar hann leiðir hina úr hópnum gegn óskum #1, í leiðangur til að skoða sig um í rústunum, sem líta út eins og afgangur af borg úr fortíðinni, ekki framtíðinni, og inniheldur fréttaskot sem virðist vera frá 1940 um hrikalega alþjóðlega styrjöld sem nokkurs konar einræðisherra eins og Hitler kom í gang. Var Skepnan skilin eftir til að þurrka út þá sem komust lífs af, og til að tryggja endanlegan sigur í fjarveru sigurvegaranna?
Slíkar spurningar, viðurkenni ég, eru afar áhugaverðar. En samtölin eru aðallega í einfölduðu hasarmyndamáli, með geltar viðvaranir og leiðbeiningar og kappræður um áætlanir á sem grynnstan hátt. Þar sem þessi kvikmynd er greinilega ekki ætluð börnum, heldur unglingum og eldri, er það nú orðið að kenningu í Hollywood að kjarnyrt mál og gáfulegt sé ekki lengur gagnlegt í hasarmyndamáli?
Einn af kostum fortíðarinnar áður en tölvugrafík náði völdum var að þó hasaratriði gætu að einhverju leiti verið gervileg, þá þurfti að setja þau saman í smáatriðum sem var hægt að horfa á. Nútíma tölvugrafíklistamenn, eitraðir af guðlegri stjórn sinni yfir myndmáli, gleyma sér og bæta við ruglingslegum flækjum. Ef ég væri neyddur til að gefa löggunni nákvæma lýsingu á Skepnunni, gæti ég ekki gert betur en: "Þú munt þekkja hana þegar þú sérð hana. Hún hefur líka stórt og glóandi rautt auga."
Berðu þetta saman við gríðarstóra byggingu í "Howl's Moving Castle" eftir Miyazaki. Hún er rosalega flókin, en ég á stóra mynd af einni stillimynd sem Miyazaki teiknaði fyrir myndina, og þú getur séð skýrt að hún er öll þarna.
"9" er samt sem áður þess virði að sjá. Hún hefði getað verið tækifæri fyrir krefjandi pælingar sem vísindafantasíur gera best. Samt sem áður er besta ástæðan til að sjá hana einfaldlega sköpunarkrafturinn sem farið hefur í útlitið. Það er heillandi.
Kvikmyndir | Breytt 20.10.2009 kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
The Ugly Truth (2009) **
14.10.2009 | 13:25
Katherine Heigl og Gerard Butler í "The Ugly Truth."
Katherine Heigl og Gerard Butler eru svo þægileg í "The Ugly Truth" að það er synd að spilla veislunni. En sama hvað þau rembast og reyna sitt besta, sekkur gamanleikurinn niður í kviksyndi fyrirsjáanleikans og undarlega ofnotkun dónalegra orða.
Einu sinni var bannað að nota f-orðið í kvikmyndum, en í þessari er það ekkert annað en opnunaratriði fyrir stöðugar sprengiárásir með salernisorðalagi. Heigl leikur Abby, framleiðanda morgunfrétta á Sacramento sjónvarpsstöð sem líkist engri annarri stöð í sögu sjónvarpsins. Fréttamennirnir eru síþrætandi hjón og fréttirnar fá það lélegt áhorf, að yfirmaður Abby neyðir hana til að ráða Mike Chadway (Gerald Butler), karlrembusvín og stjörnu úr kapalsjónvarpi á stöðina, en hugmyndir hans um kynjastríðið ná aftur til Alley Oop.
Í fyrsta skiptið sem hann birtist fylgir hann ekki handritinu, greinir fréttamanninn sem fórnarlamb eiginkonu með ofstjórnunáráttu og minnist á að þau hafi líklega hætt að sofa saman. "Þetta er frábært!" hrópar stjórnandi sjónvarpsstöðvarinnar í fögnuði, þrátt fyrir að atriðið taki svo langan tíma að það nær yfir fyrstu fimm mínútur morgunstundar sjónvarpskeðjunnar.Abby er ómótstæðilega fögur og getur að sjálfsögðu ekki fundið sér karlmann, hugsanlega vegna þess að staðlar hennar miða við fullkomnun. Myndarlegur ungur skurðlæknir (Eric Winter) verður á vegi hennar eftir að hún snýr ökkla þegar hún dettur úr tré fyrir utan svefnherbergisglugga hans þar sem hún hefur verið að fylgjast með honum þurrka sér eftir sturtu á meðan hún reyndi að bjarga kettinum sínum. Þetta er einn af þessum hlutum, ertu ekki sammála, sem gerast alltof sjaldan í lífinu?
Mike, þessi töff kynlífsmalandi predikari, segir henni að hún sé að gera allt rangt ef hún ætlar sér nokkurn tíma að ná þessum gaur og byrjar að þjálfa hana. Með hvorum gæjanum ætli hún endi? Giskaðu. Kvikmyndin skoðar allar hliðar málsins, þar með talið hið nánast nauðsynlega atriði um fegrun, þar sem Mike ráðleggur henni að nota þröngan brjóstarhaldara og segir henni að safna meira hári. A-ha. Og þegar læknirinn fer með henni á knattleik, hefur Mike samskipti við hana gegnum heyrnartæki, rétt eins og framleiðendur á sjónvarpsstöð nota til að hafa samskipti við fréttamenn.
Það er eitt atriði með virkilega fyndnum möguleikum, en það virkar ekki. Mike lætur hana fá rafhlöðufylltar, fjarstýrðar nærbuxur sem titra. (Já, þessi vara er framleidd í veruleikanum. Er ekki vefurinn gagnleg auðlind?) Abby, kjánalega stúlkan, ákveður að fara í þessum nærjum í viðskiptakvöldverð og tekur með sér fjarstýringuna, ástæðurnar er erfitt að útskýra. Strákur á næsta borði grípur fjarstýringuna. Við vitum öll hvað er í nánd, og Heigl gerir sitt allra besta, en ég er hræddur um að veitingahúsfullnæging Meg Ryan í "When Harry Met Sally" sé ennþá best þessara sjaldgæfu en aldrei leiðinlegu tegundar atriða.
Sjónvarpsfréttirnar eins og þær birtast okkur í kvikmyndinni lætur "Anchorman -- The Legend of Ron Burgundy" líta út eins og heimildarmynd. Hvert einasta fréttabrot má keyra eins lengi og nauðsynlegt er. Karlrembusvínið Mike döbbar allt. Já, hann hefur góð áhrif á áhorfið, en eftir nokkra daga mætir hann í vinnuna um kl. 12 þegar hann ætti að vera mættur klukkan fimm að morgni. Ef hann væri á besta tíma myndi hann fá betra áhorf en Óskarinn. Og myndavélar fylgja yfirleitt ekki fréttamönnum út úr myndverinu og út á götur og fylgjast með öllu sem þeir gera - sem væri okkur kannski ekkert á móti skapi ef það væri fyndnara en myndin er.
Aftur, Katherine Heigl og Gerald Butler eru virkilega þægileg hérna en kvikmyndin kæfir þau. Merkilegt að þetta grófa handrit skuli hafa verið skrifað af þremur konum. Að lokum neyðist ég til að tilkynna að myndin er sönnunargagn sem styður þá trú mína að góð kvikmynd hafi sjaldan haft loftbelg með heitu lofti í aðalhlutverki.