Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

This Is It (2009) ****


Michael Jackson og dansarar á æfingu fyrir áætlaða tónleika í London.
 
"This is it," sagði Michael Jackson við aðdáendur sína í London, þegar hann tilkynnti næstu tónleikaröð sína. "Þetta er hinsta kveðjan." Kveðjan kom fyrr en búast mátti við. Það sem eftir stendur er þessi magnaða heimildarmynd, gjörólík því sem ég átti von á. Hér er ekki sjúkur og dópaður maður að pína sig í gegnum erfiðar æfingar, heldur andi umvafinn tónlist. Michael Jackson var eitthvað annað.
 
Myndin var sett saman úr upptökum af æfingum frá apríl til júní 2009 fyrir tónleikaröð sem átti að hefjast í sumar. Myndefnið "náðist á fáeinum myndavélum", er sagt í upphafsatriðinu, en þetta eru hágæðamyndavélar sem ná hæstu upplausn og hljóðrásin er í hágæða steríó. Niðurstaðan er ein áhugaverðasta heimildarmynd um tónlist sem ég hef séð.

Og hún er meira en það. Hún er mynd af Michael Jackson sem gerir ekkert úr þeim orðrómi sem segir að hann hafi verið of veikur fyrir þessa tónleikaröð. Hún sýnir engan vott um ofdekraða prímadonnu. Takmörkunin á fjölda myndavéla gerir okkur fært að lifa okkur inn í starf hans nánast í rauntíma, enda atriðin nánast óklippt í stað þess vera sundruð niður í stutt myndskeið. Það gefur okkur bæði góða hugmynd um það hvernig lokatónleikarnir hefðu verið og sýnir okkur listamanninn að störfum.

Hann hækkar aldrei róminn, sýnir aldrei reiði, talar alltaf mjúkum rómi, er kurteis við samstarfsfólk og tæknimenn. Michael, ásamt leikstjóra sínum, Kenny Ortega, stjórnar framleiðslunni í smáatriðum. Hann leiðréttir tímasetningu, endurskilgreinir merki, talar um mikilvæg atriði í tónlist og dansi. Þar sem ég hef alltaf séð hann úr fjarlægð, taldi ég hann vera verkfæri framleiðsluverksmiðju. Hér sjáum við að hann var höfundur eigin sýninga.

Við vitum núna að Michael neytti fjölda lyfja þegar hann lést af völdum of mikillar lyfjagjafar, þar með talið síðasta stráið, lyf sem er svo hættulegt að það ætti einungis að vera gefið af svæfingarlækni á skurðstofu. Þessi þekking gerir okkur erfiðara að skilja hvernig hann virðist vera í frábæru líkamlegu formi. Dansatriðin, byggð af slíkri nákvæmni, skyndilegum og fullkomlega tímasettum hreyfingum, eru löng og krefjast mikils af honum, en hann sýnir aldrei þreytumerki. Hreyfingar hans eru svo samhæfðar hreyfingum hinna dansaranna á sviðinu, sem eru miklu yngri og í afar góðri þjálfun, að hann virðist vera einn af þeim. Þetta er maður með slíka stjórn á líkama sínum að hann lætur líta út fyrir að spinnast á einum stað í kringum sjálfan sig sé jafn eðlilegt og að blikka auga.

Hann hefur alltaf fyrst og fremst verið dansari, síðan söngvari. Hann sérhæfir sig ekki í því að vinna einn. Með örfáum undantekningum fallegra ástarsöngva, innihalda öll lög hans fjórar bakraddir og líklega aukahljóðrásir sem hann hefur tekið upp fyrir sýninguna. Hann er með heildarmyndina í huga.

Þetta hefði getað orðið helvíti flott sýning. Ortega og tæknibrellu-töframenn samstilla áður upptekin atriði og sviðsvinnuna. Það er hrollvekjuatriði með skrímslum sem brjótast upp úr gröfum kirkjugarðs (og draugar sem ætlað var að fljúga yfir áhorfendur). Michael er settur inn í atriði úr Rita Hayworth og Humphrey Bogart myndum, og með snjöllum tæknibrellum berst hann meira að segja gegn Bogie með vélbyssu. Skilaboð hans um umhverfisvernd eru studd með myndskeiði úr regnskógum. Hann flýgur í krana yfir áhorfendur sína.

Áhorfendur hans eru þó aðeins sviðsfólk, ljósafólk, tæknimenn, og svo framvegis. Þetta er starfandi fólk sem hefur séð þetta allt. Þau elska hann. Þau eru ekki að þykjast. Þau elska hann fyrir tónlistina, og hugsanlega jafnvel meira fyrir framkomu hans. Stórar stjörnur á æfingum eru ósjaldan sársauki í óæðri endann. Michael hellir sér í vinnuna með viðmóti samstarfsmanns, sem er tilbúinn að vinna sitt verk og fara alla leið.

Hvernig var þetta mögulegt? Jafnvel þó að hann hafi haft líkamann í þetta, sem hann hafði augljóslega, hvernig tókst honum að safna sínum andlegu kröftum? Þegar þú hefur lækni á vakt um þig allan sólarhringinn til að sjá um lyfjagjafir, þegar hugmynd þín um góðan svefn er að vera meðvitundarlaus í 24 stundir, hvernig vaknar þú og verður svo fullkomlega meðvitaður og viðbúinn? Þunglyndislyf? Ég held að þau virki ekki alveg þannig. Ég fylgdist eins og haukur með vísbendingum um áhrif lyfjamisnotkunar, en gat ekki séð nein. Kannski það skipti máli að af öllu fólki á æfingunni, er hann sá eini sem felur handleggi sína með löngum ermum.

Jæja, við vitum ekki hvernig hann gerða það. "This Is It" er sönnun fyrir því að hann gerði það. Hann stóð við sín loforð gagnvart fjárfestum og samstarfsmönnum. Hann var fullkomlega undirbúinn fyrir opnunina. Hann og Kenny Ortega, sem leikstýrði líka þessari mynd, voru í toppformi. Það er eitt atriði sem hreyfir við manni þegar Jackson og Ortega, á síðustu æfingunni, mynda hring og haldast í hendur með öllu starfsfólkinu, og þakka þeim fyrir. En tónleikarnir sem þeir lögðu svo mikla vinnu í áttu aldrei að verða.

Þetta er það.


mbl.is This Is It frumsýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Couples Retreat (2009) **


Karlmenn bindast óhjákvæmilega böndum í "Couples Retreat" (Jon Favreau, Fazon Love, Jason Bateman og Vince Vaughn).
 
"Couples Retreat"segir sögu fjögurra para sem eru plöguð af erfiðleikum og hvernig hægt er leysa vandann með gamanþáttarformúlum. Vegna þess að handritið segir það. Hún er ekki mjög fyndin, fyrir utan nokkra sjálfstæða frasa, og ekki spennandi, fyrir utan tímasetningu hinnar óhjákvæmilegu lausnar. Hún lætur þig ekki einu sinni þrá þessa paradísareyju.
 
Öll pörin virðast koma frá Buffalo Grove sem hefur engin önnur sýnileg áhrif en stuttermabol. Þrjú þeirra telja sig vera sæmilega hamingjusöm, en Jason (Jason Bateman) og Cynthia (Kristen Bell) grátbiðja hin um að koma með sér í viku á hótelsvæði sem er ætlað það eitt að hjúkra samböndum (fjögur pör fyrir verð tveggja).
 
Jason og Cynthia eru í öngum sínum því þau hafa ekki eignast barn. Hin pörin eru Dave (VinceVaughn ) og Ronnie (Malin Akerman); Joey (Jon Favreau) og Lucy (Kristin Davis); og Shane (Faizon Love) og Trudy (Kali Hawk). Vandamál þeirra: (1) Foreldrahlutverkið truflar tilhugalífið; (2) auga Joey flakkar; (3) Shane hefur skilið við konu sína og sefur hjá tvítugri ljósku.
 
Þau fljúga í Edengarðinn, tekinn upp á Bora Bora, virkilega fallegan stað sem er smækkaður niður á strandveislustandard. Eden er stjórnað af Monsieur Marcel (Jean Reno), bardagameistara og dulspekingi, og Cstanley (Peter Serafinowicz), sem útskýrir af hverju nafn hans er stafað með "C". Aðrir starfsmenn eru Salvadore (Poppsöngvarinn Carlos Ponce) sem situr fyrir á kápum ódýrra ástarsagna. 

Formúlan sjálf hefði getað leitt til bráðfyndinnar uppákomu, en sagan virkar ekki þegar kemur að persónusköpun. Öll pörin haga sér viðstöðulaust sem sýnidæmi af vandamáli þeirra. Myndin þarf á einhverju spennandi að halda og fær hana frá hákarlaárás við köfunaræfingu, þar sem fram koma saklausir hákarlar sem keyrðir eru áfram af blóðlykt og synda stjórnlausir í endalausa hringi til að segja "bú!" Salvadore heillar konurnar á nokkuð margræðan hátt með olíubornum vöðvum og kokteil úr ananas og rommi. Mennirnir bindast ekki jafn mikið þó að þeir standi saman fyrir framan myndavélina og skiptist á bindandi samtölum.

Það er annað hótelsvæði sem heitir Austur Eden, þar sem allir eru á lausu, en ekki pör í erfiðleikum. Þar er veisla hverja einustu nótt; svo framarlega sem ég gat séð, og einu viðskiptavinirnir á Vestur Eden eru pörin fjögur, þannig að það er engin furða að það var helmingsafsláttur af ferðinni, þrátt fyrir tal Cstanley um langan biðlista.

Það besta í "Couples Retreat" er vel tímasett og gáfulegt málfar Vaughn; sérviska Love og Hawk til samanburðar við hin pörin sem virðast öll vera gerð eftir sama formi, og ástaraðferðir Serafinowicz, sem gefa í skyn ofskynjunarhugleiðslu.

Lokaatriðin eru hræðileg, þau arka formúlukennd í gegn til þess að klára myndina. Við vitum öll að pörin fjögur koma á staðinn í vanda. Við vitum að aðstæður þeirra hljóta að vera alvarlegar. Við reiknum með atburði sem breytir öllu, fær þau til að uppgötva hið sanna eðli tilfinninga sinna. Þessi atburður er brjálæðislegt fyllerí í Austur Eden. Við gerum ráð fyrir innilegum játningum djúpra tilfinninga. Og við vitum að það verður að vera gleðilegur endir sem pakkar öllu saman.

Í samhengi myndarinnar verður að sjá hinn gleðilega endi til að trúa honum. Var búist við öllum þeim atburðum sem áttu að breyta samböndunum, voru þau jafnvel skipulögð af hinum alvitra Monsieur Marcel? Marcel afhendir hverju pari dýr sem á að vera fulltrúi þeirra innri anda. Þessar myndir eru skornar út úr myrkum við, nokkuð sem ég áttaði mig á eftir að hafa séð annað, þriðja og fjórða dýrið. Hið fyrsta var kanína, sem leit út eins og súkkulaðikanína. Það hefði verið svolítið skrítið.  


Capitalism: A Love Story (2009) ***1/2


Michael Moore talar í gjallarhorn eftir að hafa innsiglað svæðið þar sem glæpurinn var framinn.
 
Hæsta röddin í nýjustu kvikmynd Michael Moore talar við okkur að handan. Hún tilheyrir Franklin Delano Roosevelt, tæplega ári fyrir andlát hans, þar sem hann mælti fyrir frumvarpi um 2. Réttindasáttmála Bandaríkjamanna. Hann mælti fyrir að allir borgarar hefðu rétt á eigin heimili, starfi, menntun og heilsuvernd. Með yfirveguðum og vel völdum örðum, talar hann alvarlega inn í myndavélina.
 
Þar til rannsóknarmaður á vegum Moore fann þetta myndskeið hafði það aldrei áður birst almenningi. Roosevelt, of veikur til að flytja frumvarp sitt fyrir þingið í eigin persónu, flutti það í útvarpi og bauð síðan Movietone News að taka upp myndskeið til viðbótar þar sem hann mælir fyrir 2. Réttindasáttmála Bandaríkjamanna. Þetta myndskeið hefur aldrei verið birt sem frétt. Ávarp Roosevelt virðist eiga við enn þann dag í dag, og það óþægilega er, að breytingarnar sem hann mælti fyrir hafa ekki enn verið teknar fyrir.
 
Á slíkum augnablikum talar kvikmynd Moore "Capitalism: A Love Story" á fágaðan hátt. Á öðrum augnablikum eru skilaboð hans svolítið óskýr. Hann trúir að kapítalismi sé kerfi sem þykist verðlauna frjálst framtak en verðlaunar í raun græðgi. Hann segir kapítalismann ábyrgan fyrir uppsöfnun auðæva á toppnum: Ríkustu 1 prósent Bandaríkjamanna eiga meira en 95 prósent þjóðarinnar til samans. Á tímum þegar Bandaríkjamenn kappræða um lögleiðingu fjárhættuspila, hefur fjárhættuspil lengi verið stundað á Wall Street.
 
En hvað þarf að gera til að laga efnahagslífið? Moore mælir ekki með sósíalisma. Hann trúir á kosningar, en telur að Obama hafi verið of fljótur að friða hina ríku og hafi ekki lagt mikið til grundvallar endurreisnar. Helsta vopnið sem Moore notar er skömm. Að fyrirtækjasamsteypur og fjármálastofnanir skuli halda áfram að ræna meirihluta Bandaríkjamanna, þeirra á meðal mótmælendur með kröfuspjöld við þinghúsið, er saga sem enn hefur ekki verið sögð.

Moore sýnir tvær óvæntar afhjúpanir. Sú fyrsta felur í sér nokkuð sem kallað er "trygging látinna bænda". Vissir þú að fyrirtæki geta líftryggt starfsmenn sína, þannig að þegar starfsmaður deyr, þá fær fyrirtækið bætur þegar við deyjum? Þetta er ein gerð starfsmannatrygginga sem þau eiga ekki í neinum vandræðum með. Fyrirtæki fræða yfirleitt ekki eftirlifandi maka um peninginn sem þau fá í bætur eftir andlátið.

Hin er einnig fjallað um hið ábyrgðarlausa, siðblinda fjárhættuspil sem kallast "afleiður" ("derivatives"). Ég hef lesið að afleiður séu svo flóknar að þær eru búnar til af tölvum og ekki einu sinni höfundar hugbúnaðarins skilja þær til fulls. Moore biður þrjá sérfræðinga að útskýra hugtakið fyrir honum. Þeim mistekst það öllum. Afleiður eru í eðli sínu líkur sem veðjað er um, til dæmis líkur á hvort að við munum geta greitt af húsnæðislánum okkar. Ef við gerum það, borga veðmálin sig. En hvað ef okkur tekst það ekki? Fjárfestar geta varið veðmál sín, með því að veðja á að fólk muni ekki geta borgað. Þeir vonast til að vinna sama hvernig fer.

Húsnæðislán okkar eru fórnarkostnaður þessara veðmála. Moore segir að þau séu skorin niður og skipt og endurpökkuð og send hingað og þangað. Hann tekur viðtal við repúblikanann Marcy Kaptur (D-Ohio), sem ráðleggur þegnum sínum: Ef banki verður gjaldþrota, ekki gera neitt, og krefstu þess að þeir afhendi þér afrit af húsnæðisláni þínu. Í mörgum tilfellum geta þeir það ekki.

Þú hefur hugsanlega séð furðufuglinn sem öskrar í  fjármálaþáttum kapalsjónvarpsins um lata heimiliseigendur sem fengu húsnæðislán án þess að hafa í raun haft efni á þeim. Moore segir að í raun hafi tveir þriðju allra persónulegra gjaldþrota Bandaríkjamanna verið vegna sjúkrakostnaðar. Fáir hafa efni á langvarandi veikindum í þessu landi. Moore minnist á þetta í kvikmyndinni "Sicko" (*hóst*). 

Myndin er áhrifamest þegar hún útskýrir eða afhjúpar þessar skammir. Hún er áhrifaminni, en kannski skemmtilegri, þegar hún sýnir Michael í Michael-Moore-ham. Hann elskar að taka sér stöðu. Á Wall Street notar hann gjallarhorn til að krefjast endurgreiðslu peninga okkar. Hann notar gulan lögregluborða til að innsigla svæðið þar sem glæpur hefur verið framinn og lokar þannig Hlutabréfakauphöllinni ("Stock Exchange"). Hann er klassískur múgæsingamaður. Hvort sem þú elskar hann eða hatar hlýturðu að viðurkenna það. Hann viðheldur athygli okkar eins og enginn annar heimildarmyndarhöfundur hefur áður gert.

Hann er líka verkamannastéttarstrákur, engin háskólamenntun, ennþá með hafnarboltahúfu á hausnum og í víðum buxum. Hann finnur einnig til samúðar með fórnarlömbum. Horfðu á hann tala við mann sem uppgötvaði að fyrirtækið þar sem eiginkona hans starfaði fékk útgreidda "tryggingu látinna bænda". Hlustaðu á hann tala við fjölskyldu sem tapaði bóndabæ sínum eftir að hafa viðhaldið honum í fjórar kynslóðir.

Titill myndarinnar er aldrei útskýrður. Hvað meinar Moore með honum? Kannski að kapítalismi þýði að þú þurfir aldrei segja afsakið


Zombieland (2009) ***


Lifandi dauðir í skemmtigarði.
 
Það er ekki hægt neita því: Uppvakningar eru fyndnir. Ég held ég hafi hætt að hræðast þá við blálokin á "Night of the Living Dead". Allt í lagi, kannski virkuðu þeir vel í í fleiri myndum, eins og "28 Days Later". Þeir eru Energizer kanínur dauðra manneskja, en megintilgangur þeirra er að láta hakka sig í spað. En hvern hefði grunað að hægt væri að gera jafn fyndna mynd og "Zombieland" um uppvakninga? Það er ekki hinum lifandi dauðu að þakka.
 
Kvikmyndin er sögð frá sjónarhóli gaurs sem leikinn er af Jesse Eisenberg, skírður eftir heimabæ hans Columbus í Ohio, en hann er á heimleið yfir Bandaríkin þar sem flestar manneskjur hafa breyst í lifandi dauða. Landslagið er stráð brenndum bílum og líkum. Hann finnur annan lifandi ekki-uppvakning, Tallahassee (Woody Harrelson). Tvímenningarnir gerast félagar, þrátt fyrir að vera ósammála um flest, og finna loks tvær heilbrigðar konur: hina kynþokkafullu Wichita (Emma Stone) og systur hennar Little Rock (Abigail Breslin).

Í upphafi lítur "Zombieland" út fyrir að vera vegamynd þar sem hinir afdauðu ógna ferðalöngunum stöðugt, enda óteljandi uppvakningar skotnir, klesstir, hamraðir eða gerðir óvirkir á annan hátt. Wichita og Little Rock reynast svikahrappar sem gera lítið úr vonum hins ástfangna Columbus. Samt enda þau öll saman í ævintýraferð í Los Angeles skemmtigarði, fyrir enga betri ástæðu en þá að ekkert jafnast á við staðsetningu eins og tívolí fyrir hrollvekju. Já, jafnvel með draugahúsi, hinni vélknúnu lyftutónlist tækjanna og uppvakningstrúð. Columbus, eins og svo margir aðrir, er haldinn trúðafælni, sem gerir Eisenberg að vanþakklátum einstaklingi, þar sem móðir hans kom honum í gegnum skóla með því að leika trúð í barnaafmælum.

Allt þetta hefði verið hægt að gera á þunglamalegan hátt, en ekki hérna. Kvikmyndagerðarmennirnir eru uppfinningasamir og tímasetja brandarana vel, og það allrabesta við myndina er Bill Murray sem leikur fyndnasta smáhlutverk ársins. Fjórmenningarnir keyra upp að gríðarstóru húsi Murray í Beverly Hills, svo hallarlegu að það lítur út fyrir að vera fimm stjörnu hótel, og komast að því að hann býr þar ennþá. Ég mun ekki segja meira um þetta atriði, nema að það eru ekki margar uppvakningagamanmyndir sem getur minnt þig samtímis á "Psycho" og "Garfield".

bilde?Site=EB&Date=20090930&Category=REVIEWS&ArtNo=909309991&Ref=V3&Profile=1001&MaxW=415&title=1
Woody Harrelson gegn uppvakningi.

Eisenberg, góður leikari, leikur þægilegan staula sem hefur safnað saman að því er virðist óendanlega löngum lista um hvernig þú kemst af í Bandaríkjum Uppvakninga. Þessi listi er frekar skondinn og birtist smám saman á skjánum með vísun í Aftursætisreglur úr  kvikmyndahugtakabókinni minni, sem kennir okkur -- en ég er viss um að þú munir þetta.
 
Woody Harrelson nýtur þess til hins ýtrasta að drepa uppvakninga, afþakkar oft að nota byssu vegna þess að honum finnst skemmtilegra að drepa þá með bílhurðum, felgujárnum og hverju því sem er hendi næst. Eins og venjulega eru uppvakningarnir heimskir, drumbalegir klaufar, sem stilla sér upp af skyldurækni fyrir slátrun.

Ég skil vampírur að einhverju leyti, en ekki uppvakninga. Til hvers eru þeir? Af hverju líta þeir alltaf svona illa út? Gæti verið til uppvakningur með góða húð? Hvernig geta þeir verið nógu klárir til að vita að þú sért matur og svo vitlausir að þeir sjá ekki að þú sért um það bil að skjóta þá í tætlur? Ég spyr þessara spurninga einungis vegna þess að mig vantar nokkur orð í viðbót fyrir þessa gagnrýni. Ég mun klára hana með því að benda á að Bill Murray er fyrsta gamanleikarinn síðan Jack Benny var uppi sem getur fengið þig til að hlæja með því einu að standa hreyfingarlaus.

Antichrist (2009) ***1/2

 
Hugtakið antikristur er yfirleitt notað í merkingunni "andstæða Krists". Reyndar er upprunaleg grísk merking þess "andstæðingur Krists". Þetta er gagnlegt að hafa í huga fyrir vangaveltur um hina nýju kvikmynd Lars von Trier. Aðalpersóna "Antichrist" er ekki yfirnáttúruleg, heldur venjulegur maður sem tapar siðferðisvitund sinni. Hann skortir alla gæsku og er umvafinn illsku, en illska hans sprettur úr náttúrulegu eðli hans frekar en af trúarbrögðum.
 
Þessi maður, nefndur Hann, er leikinn af Willem Dafoe sem alvarleg, þurfandi, kvalin sál. Kvikmyndin hefst þegar Hann og eiginkona hans, Hún (Charlotte Gainsbourg) njóta ásta af miklum losta. Þetta er hið algóða augnablik. Á sama tíma í næsta herbergi, klifrar kornungur sonur þeirra upp í gluggasyllu í saklausri rannsókn, dettur út um gluggann og deyr. Þetta er í sjálfu sér hlutlaust slys. En það keyrir áfram restina af myndinni, sem skipt er í þrjá kafla: Sorg, Sársauki og Örvænting.

Hann og Hún eru komin að sálfræðilegu þverhnípi. Hún hefur verið að rannsaka galdra, og það fær hana til að velta fyrir sér hvort að kvenfólk sé fætt illt. Það gæti verið orsök hennar lága sjálfsmats. Hann er stjórnsamur, þrúgandi persónuleiki, sem ég held að finni sig knúinn til að refsa henni,  fyrir þetta hræðilega slys, konunni sem bar son hans í heiminn.

Fyrsti kaflinn, Sorg, hentar viðfangsefninu. Mistök þeirra er að líta á sorgina sem eitthvað sem þarf að lækna frekar en að sætta sig við hana og lifa áfram. Auðvitað kenna þau sjálfum sér um fyrir að hafa verið í kynlífsleik þegar þau hefðu átt að gæta barns síns. Sekt krefst refsingar. Hún refsar sjálfri sér andlega. Af ástæðum sem Hann er hugsanlega ekki meðvitaður um, finnst honum að hann þurfi að taka á sekt hennar sem vandamáli, og heldur henni fyrirlestur í rólegum, þolinmóðum, og firrtum sálfræðistíl. Sorg hennar er hennar sök, sko, og hann ætlar að vera viss um að hún finni fyrir sektinni.

Þetta leiðir til sársauka, sérstaklega þegar hann þrábiður hana, á þessum af öllum tímum, að fara með honum í afskekktan kofa, staðsettum í myrkum skógi, sem hún óttast jafnvel á góðum degi. Kofinn er kallaður Eden; túlkaðu eftir eigin hentisemi. Þau hafa þegar borðað ávöxtinn, og kofinn verður aldrei aftur Eden fyrir þau.

bilde?Site=EB&Date=20091021&Category=REVIEWS&ArtNo=910219990&Ref=V3&Profile=1001&MaxW=415&title=1

Hinn andlegi sársauki ráðgjafar hans og ferð þeirra í kofann blandast nú sársauka af bæði náttúrunnar hendi og þeirra eigin. Í skóginum eru skrítin dýr sem líta ósköp venjulega út -- dádýr, refur, kráka -- en þau eru haldin illum öndum og eru ónáttúruleg. Hann og Hún leita ekkert endilega skjóls í kofanum, en ráfa mikið í guðsgrænni náttúrunni um skóginn. Þau byrja að kvelja hvort annað á óheyrilega og hryllilega náinn hátt.
 
Þessi atriði hafa verið kölluð "pyntingarklám". Þau eru sannarlega sadómasókísk, en klám er algjörlega í huga áhorfandans. Mun jafnvel einn einasti áhorfandi fá á tilfinninguna að þessi atriði séu erótísk? Það er erfitt að ímynda sér það. Þau eru öfgafull af ákveðnum ástæðum; von Trier, sem hefur ávallt reynt að ýta við fólki, hefur meiri þörf til að fá áhorfendur til að horfast í augu við sjálfa sig og hræra í þeim meira en nokkur annar alvarlegur kvikmyndagerðarmaður -- jafnvel meira en Bunuel og Herzog. Hann gerir þetta með kynlífi, sársauka, leiðindum, guðfræði og furðulegum stíltilraunum. Og af hverju ekki? Við erum þó viss um að þetta sé kvikmynd sem er nákvæmlega eins og hann ætlaði henni að vera, en ekki afmyndun eftir útþynningu stjórnenda í kvikmyndaveri sem hafa stanslausar áhyggjur af viðtökum kvikmynda.
 
Að því mæltu, þá grunar mig hvað von Trier fær út úr þessu. Hvað fékk ég út úr þessu? Umfram allt annað, þá hreyfðu leikararnir við mér. Kvikmyndir geta verið skáldskapur, en þær eru líka ákveðin tegund heimildarmyndar sem sýnir leikara fyrir framan myndavél. Bæði Dafoe og Gainsbourg eru þekkt fyrir að taka áhættu við hlutverkaval, rétt eins og allir sem voga sér að vinna með von Trier hljóta að gera. Það sem þau þurfa að leika í þessari kvikmynd er magnað. Þau svara hvort öðru án þess að hika. Það sem skiptir mestu, þau sannfæra. Hver getur sagt hvað von Trier ætlaði sér? Hans eigin útskýringar hafa verið óskýrar. Leikararnir leggja í  orð og athafnir og leggja alla þá sannfæringu sem þau geta fyrir hlutverkin. Niðurstaðan, á ákveðinn hátt, er að Hann og Hún losna undan böndum von Trier og eru þau sjálf á sinn eigin hátt, eins og þeim finnst þau þurfa að vera.
 
Við vitum ekki eins mikið og við höldum að við gerum um leiklist. Í nýlegu viðtali, spurði ég Dafoe hvað hann hefði rætt við Gainsbourg áður en erfiðustu atriðin þeirra voru tekin upp. Hann sagði að þau hefðu rætt mjög lítið: "Við höfðum frábært og innilegt samband á sviðinu, en sannleikurinn er sá að við þekkjum varla hvort annað. Við kysstumst í fyrsta sinn fyrir framan myndavél, við fórum saman úr fötunum í fyrsta sinn með myndavél í gangi. Þetta er þykjustan í sinni hreinustu mynd. Þar sem nálægð okkar er einungis til fyrir framan myndavélina, gerir það upplifunina enn kraftmeiri fyrir okkur".
 
Þannig að hún er heimildarmynd á einn hátt. Hvaða heimildir skráir hún? Í fyrsta lagi, hugrekki leikaranna. Einnig myndsköpun von Trier. Og á persónulegu stigi, ótta okkar við að illska sé til í heiminum, að samferðarfólk okkar búi yfir takmarkalausri grimmd, og að það geti leitt til, eins og í myndinni, gjöreyðingar á mannlegri von. Þriðji kaflinn er Örvænting.

Management (2009) ***


Jennifer Aniston og Steve Zahn í "Management."
 
Stundum snúast kvikmyndir fyrst og fremst um leikarana. Í fæstum tilfellum myndi kraftmikill sölustjóri samsteypu ekki hafa mikil afskipti af Mike, ósæla aumingjanum sem vinnur og býr á Arizona móteli þar sem hún ætlar að gista yfir nóttina. En þegar þú ræður Steve Zahn í hlutverk aumingjans, þá ertu kannski með eitthvað í höndunum.
 
Í "Management" er sölustjórinn Sue (Jennifer Aniston) á hraðri uppleið, hefur náð frábærum árangri, er vel klædd en neyðist til að eyða kvöldum á fjarlægum mótelum þar sem hún spilar tölvuleiki á fartölvu sína. Sue er allar þær konur sem Mike hefur aldrei fengið. Mike er góður náungi, oft svolítið dópaður, stjórnað með harðri hendi foreldra sinna sem eiga mótelið. Hann horfir á hana með lotningaraugum ástfangins hvolps.

Af hverju og hvernig þau enda inni í þvottaherbergi og gera það á þurrkara er nokkuð sem "Management" tekur sem sjálfsögðum hlut. Stundum, virðist vera, að öflugar Manhattankonur svífi inn í líf náunga sem líta út eins og þeir ættu frekar að dæla bensíni á bílinn hennar. Tækni hans er auðveld: Hann tékkar hana inn, ber töskurnar hennar, færir henni blóm, bankar aftur með "sérstaka" flösku af kampavíni í boði hússins, opnar hana, sækir tvö plastvafin glös úr baðherberginu og rembist við að segja nokkur skiljanleg orð í röð.

Við getum fljótt áttað okkur á hvert leiðin liggur. Mike er fiskur á þurru landi. Hann verður að ferðast til New York og gera sem mest úr hvað hann passar henni illa. Sue fer hinsvegar til Washington, þar sem hún hittir Jango (Woody Harrelson), en hann fyrrverandi pönkrokkari sem varð milljónamæringur með því að selja jógúrt (týpískt hlutverk fyrir Harrelson). Að sjálfsögðu verður Mike að elta hana.

Hann er ekki að ofsækja hana, þú skilur. Hann langar bara að sleikja hönd hennar, vefja sig um fætur hennar og fá kastað til sín bein öðru hverju fyrir að vera svona góður strákur. Hlutverk Aniston er að sannfæra okkur um að Sue gæti fallið fyrir þessu og vegna þess að henni tekst það, virkar "Management" sem hugljúf rómantísk gamanmynd sem hægt er að hlæja að.

Það er gaman að sjá Zahn leika náunga sem er ekki dimmasta peran í ljósakrónunni. Af einhverri ástæðu er hann oft ráðinn sem heimskur dópisti, kannski vegna þess að hann var svo góður í að leika slíkar persónur snemma á ferli sínum. Hér er hann klár, en hrikalega bældur. Horfðu á Aniston leika með honum af greind og slíkum stíl að hún gæti auðveldlega tortímt honum, en er snortin af varnarleysi hans.

Fred Ward hefur safaríkt hlutverk föður Mike, manns með fullkomnunaráráttu sem situr uppi með þá staðreynd að erfingi hans er letihaugur. Hann er þó ekki ósnertanlegur. Aðeins ein spurning situr eftir, sem handritshöfundur og leikstjóri sinnar fyrstu myndar, Stephen Belber, sleppir til allrar hamingju að skoða ekki í aukaþræði: Af hverju bókar ferðastjóri skrifstofunnar hana á þetta mótel?


Inglourious Basterds (2009) ****


Eli Roth og Brad Pitt eru "Inglourious Basterds.
 
Inglourious Basterds” í leikstjórn Quentin Tarantino er stór, hugdjörf, óttalaus stríðsmynd sem mun fara í taugarnar á sumum, trufla aðra og sýna enn og aftur að hann er alvöru leikstjóri af rómantíska skólanum. Til að byrja með endar hann Seinni heimsstyrjöldina á nýjan hátt sem flesta hefur dreymt um. Loksins fá hrottarnir það sem þeir eiga skilið.
 
Frá titlinum sem stolið er úr B-mynd frá 1978, til vestratónlistar Ennio Morricone í upphafi myndarinnar, að lykilstaðsetningunni, kvikmyndahúsi, er kvikmyndin umvafin af ást Tarantino á kvikmyndum. Notkun 35 mm filmu með ríkum litum og dýpt gleður einnig augað. Persóna sem sést í upphafi og enda myndarinnar, en aldrei á milli, lokar myndinni í hring. "Hrottarnir" sjálfir, miskunnarlausir bardagamenn sem sendir eru inn fyrir víglínu nasista, eiga án nokkurs vafa fyrirmynd í "The Dirty Dozen".
 
Og það sem öllu máli skiptir, þrjár goðsagnakenndar aðalpersónur sem eru teiknaðar með breiðum pensli og ást: Hetjan, Nasistinn og Stúlkan. Þessar þrjár persónur, leiknar af Brad Pitt, ChristophWaltz og Melanie Laurent, gætu verið klisjukenndar, en Tarantino gerir þær allar að Persónum, nákvæmum, stærri en lífið sjálft, nálgast satíru í ákafa sínum en fer ekki - alveg- svo langt. Segjum að þær virki stærri en flest það fólk sem við hittum í bíó.
 
Sagan byrjar í herteknu Frakklandi, snemma í seinni heimstyrjöldinni, þegar grimmur, en svolítið furðulegur ofursti nasistaflokks Hans Landa (Waltz) kemur að afskekktu mjólkurbúi þar sem hann grunar bóndann (Denis Menochet) um að fela gyðinga. Hann hefur rétt fyrir sér, og ung kona að nafni Shosanna (Melanie Laurent) tekst að flýja út í skóg. Það er fyrir þetta atriði og fyrir leik hans í kvikmyndinni allri að Christoph Waltz á skilið tilnefningu til Óskarsverðlauna sem myndu fara vel með verðlaunum hans sem besti leikarinn á Cannes hátíðinni. Hann skapar persónu sem er ólík öllum öðrum nasistum - í raun, ólík nokkurri manneskju - sem ég hef séð í kvikmynd: hann er illur, kaldhæðinn, írónískur, kurteis, fáránlegur.
 
bilde?Site=EB&Date=20090819&Category=REVIEWS&ArtNo=908199995&Ref=V3&Profile=1001&MaxW=415&title=1
Christoph Waltz í "Inglourious Basterds."

Hetjan er Brad Pitt, sem Aldo Raine liðsforingi og leiðtogi "Hrottanna". Tarantino vill sjálfsagt að við tengjum nafnið við "Aldo Ray", stjörnu óteljandi stríðsmynda og B-mynda. Raine er leikinn af Pitt sem breið skopmynd af harðróma Suðurríkjadreng, sem vill að hver og einn manna sinna færi sér 100 höfuðleður af nasistum. Flokki hans tekst svo ólíklega til að lifa af stríðið í Frakklandi og slátra nasistum í nokkur ár. Hann lætur líka sjá sig í formlegum kvöldverðarklæðnaði með örstuttum fyrirvara. Útgáfa Pitt af ítölsku er í anda Marx bræðranna.

Stúlkan er Shosanna, leikin af Laurent sem vel löguð sírena með rauðan varalit og í lok myndarinnar, klædd heillandi rauðum kjól. Tarantino myndar hana með slíkum ákafa og lotningu, með nærmynd af skóm, vörum, andlitsblæju og smáatriðum í líkama og kjól, að þú getur ekki sagt mér annað en að hann hafi séð verk skoska listamannsins Jack Vettriano, og noir málverk af sígarettureykjandi konum í rauðu.
 

Eitt af noir verkum Jack Vettriano af konu í rauðu.
(Úr safni Roger og Chaz Ebert)

Shosanna daðrar á útreiknaðan hátt við Frederick Zoller (Daniel Bruhl), stríðshetju nasista og nú kvikmyndastjörnu; hann sannfærir Joseph Goebbels um að frumsýna nýju stríðsmyndina sína í kvikmyndahúsi hennar. Þetta setur upp sögufléttu sem gefur Tarantino tækifæri til að brjóta nokkrar reglur og búa til heimildarmynd um hversu eldfimar nítratfilmur eru. 

Tarantino kvikmyndir er erfitt að flokka. “Inglourious Basterds” er ekkert meira um stríð en “PulpFiction ” er um - um hvað í helvítinu var hún aftur? Auðvitað er ekkert í kvikmyndinni mögulegt, fyrir utan það hvað hún er ógeðslega skemmtileg. Leikarar hans smjatta ekki á hlutverkum sínum, þeir sleikja þau. Tarantino er meistari í að ná fram leik sem hneppir staðalmyndir í persónutöfra.

Eftir að ég sá “Inglourious Basterds” í Cannes, þrátt fyrir að hafa bloggað daglega, forðaðist ég að segja hvað mér fannst um hana. Ég vissi að Tarantino hafði gert merkilega mynd, en ég vildi fá að melta hana aðeins, og langaði að sjá hana aftur. Ég er ánægður með að hafa gert það. Eins og með margar alvöru kvikmyndir þá nýtirðu hennar betur í næsta skipti. Strax eftir að "Pulp Fiction" var sýnd í Cannes, spurði QT hvað mér fannst. "Þetta er annað hvort besta mynd ársins eða sú versta", sagði ég. Ég vissi varla hvað í helvítinu hafði komið fyrir mig. Svarið var: besta myndin. Tarantino myndir eiga það til að vaxa með þér. Það er ekki nóg að sjá þær einu sinni.

Jennifer's Body (2009) ***


Megan Fox (vinstri) og Amanda Seyfried í atriði úr "Jennifer's Body."
 
Nákvæmlega það sem við vorum að bíða eftir: "Twilight" fyrir stráka með Megan Fox í hlutverki Robert Pattinson, fyrir utan að Pattinson var stundum ber að ofan. Næsta handrit Diablo Cody eftir "Juno" er 180 gráðu viðsnúningur, með kvenhetju sem hefur breyst í púka sem étur hold unglingsdrengja. Geturðu ímyndað þér aumingja kærastann hans Juno, Michael Cera, með grillsósu?
 
Jennifer's Body” blekkir okkur í upphafi með að byrja í léttum tón þar sem Jennifer Check (Megan Fox) og Needy Lesnicky (Amanda Seyfried) eru kynntar til sögunnar sem eilífðarvinkonur í framhaldsskóla. Jennifer er heitasta og vinsælasta skvísan í skólanum, og Needy er - tja, þurfandi. Needy hlýtur að vera gælunafn. Hvaða foreldrar færu að skýra barnið sitt Needy?
 
Jennifer er þessi klassíska unglingadrottning sem ræður yfir skólanum. Strákar girnast hana, hún er aðal klappstýran, og kannski gerir það sjálfsmynd hennar greiða að hin þurfandi Needy eltir hana út um allt. En svo breytist hún í, ekki nákvæmlega vampíru, þó að hún sökkvi sér helst í hálsa með hvössum tönnum. Hún er einhvers konar púki eða skrímsli, eiginlega óskilgreind, en tilgangur lífs hennar verður að ráðast á unglingsdrengi.

Ímynd hennar gefur henni dýrmætt vopn til að fullnægja hennar óvenjulegu matarlist. Feimnir strákar sem hefðu aldrei getað dreymt um að komast í samband með Jennifer uppgötva að hún er þeim óvænt vinsamleg, jafnvel tælandi. Einum strák er jafnvel boðið heim til hennar. Þetta reynist vera óhugnanlegt tómt hús. Af hverju fer fólk alltaf inn í óhugnanleg tóm hús og staulast um í myrkrinu þegar það er hægt standa úti á gangstétt og blístra?

Jennifer kemst upp með morð vegna þess að, nú, hvern myndi gruna kynþokkafulla og vinsæla klappstýru til að drekka blóð í leyni og mögulega háma í sig mannakjöt? Aðeins Needy grunar hinn hryllilega veruleika og loks er það hún sem stendur á milli Jennifer og fleiri fórnarlamba, meðal þeirra Chip Dove (Johnny Simmons) sem þú veist að er góður strákur af því að hann heitir sakleysislegu nafni, þegar allt kemur til alls, hvers konar nafn væri Chip Dove fyrir illmenni?

Það væri auðvelt að halda þessari grein áfram á svipaðan hátt, en ég er að gleyma svolitlu. Það er innan í Diablo Cody sál listamanns, og handrit hennar gefur þessu efni ákveðna skerpu, nokkurs konar barnslega kæti sem gefur ekkert eftir. Þetta er ekki unglingahrollvekja sem kemur beint af framleiðslulínunni. Jennifer og Needy eru aðeins of gáfulegar, samræðan er aðeins of ýkt, persónusköpunin er aðeins of öðruvísi. Eftir að hafa séð nóg af unglingahrollvekjum, lærirðu að meta þennan mun. Það má orða þetta þannig: Ég myndi frekar horfa á "Jennifer's Body" aftur heldur en "Twilight".

Megan Fox er svolítið spes. Við lítum á hana sem stjörnu, en þetta er samt fyrsta aðalhlutverk hennar. Hún komst ekki á 18. sæti Maxim yfir þær heitustu 100 árið 2007 fyrir leik. (Lindsay Lohan lenti í fyrsta sæti. Hversu fljótt hlutirnir breytast.) Fox er líka fræg fyrir að hafa mörg húðflúr, og þegar ég rannsakaði betur þann hluta af ímynd hennar, gerði ég jákvæða uppgötvun. Hver sem er getur verið með húðflúr af fiðrildi. Verið þar, gert það. En Megan Fox hefur húðflúr sem vitnar í "King Lear": "Við munum dást að gylltum fiðrildum." Hversu svalt er það? Þar að auki, til þessa, eru engar þreytandi slúðursögur um áfengi og fíkniefni.

Fox gerði ferli sínum mikið gagn með "Transformers" myndunum tveimur, en þetta er fyrsta tækifæri hennar til að leika, og veistu hvað? Hún er góð. Hún þarf að fara í gegnum hið nauðsynlega spúandi æluatriði og lifir það einhvern veginn af, hún leikur hlutverkið hreint út, og hún lítur frábærlega út í blóði drifnum kjól með hárið út um allt. Amanda Seyfried er góð í hetjuhlutverkinu.

Myndin er leikstýrð af Karyn Kusama, en hún kynnti kvikmyndaheiminum Michelle Rodriguez í hinni afbragðsgóðu "Girlfight" (2000). Hún meðhöndlar efnið á áhrifaríkan hátt og með mikilli sköpunargleði. Þetta er ekki list, þetta er ekki "Juno", þetta er ekki "Girlfight", heldur mynd um mannætuklappstýru. Hún er betri en hún þarf að vera.


The Haunting in Connecticut (2009) **


Virginia Madsen í "The Haunting in Connecticut": Hvaða hljóð var þetta þarna uppi?
 
"The Haunting in Connecticut" er ekki byggð á hvaða gömlu sönnu sögu sem er. Nei, hún er byggð á "sönnu sögunni". Það er sagan um Snedeker fjölskylduna sem flutti inn í draugahús um 1970 í Southington, Connecticut, og þurfti að þola endalaust álag. Við vitum að saga þeirra er sönn af því að hún er vottuð af Ed og Lorraine Warren, yfirnáttúrulegum rannsóknarmönnum sem einnig vottuðu söguna um Bill Ramsey, djöfullegan varúlf sem beit fólk; "The Amityville Horror" og sagan um Jack og Janet Smurl, sem blés lífi í "The Haunting".
 
Þrátt fyrir það, efast ég um að hún sé "byggð á". Líklegra að hún hafi verið "lauslega innblásin af". Ég trúi ekki að einn einasti þráður í þessari kvikmynd sé sannur. Ray Garton, höfundur A Dark Place, bókar sem fjallar um málið, tók eftir að Snedeker fjölskyldan var ekki samróma um það sem hafði gerst. Þegar hann lét rannsóknarmenn vita, segir Wikipedia, var honum sagt að "búa eitthvað til og gera það hræðilegt".

En hvaða máli skiptir það ef þú ert bara að leita eftir draugasögu? "The Haunting in Connecticut" er tæknilega vel gerð hrollvekja og vel leikin. Við höfum ekki staðlaðar persónur, heldur Virginia Madsen og Martin Donovan í hjónabandi með erfiðleika, Kyle Gallner sem dauðvona son þeirra og Elias Koteas sem grimman prest. Þau gera fjölskylduna, nú undir nafninu Campbells, álíka raunverulega og hún getur verið við þessar aðstæður. Myndin hefur magnaða tónlist og kvikmyndatakan vekur óhug, og hús sem vill ekki hafa íbúa vegna þess að upprunalegu íbúarnir... dóu, getum við sagt.

Þannig að allt er til staðar, og einn gagnrýnandi sagðist hafa "öskrað eins og smástelpa þrisvar sinnum," þó að hann sé frekar þekktur fyrir að gera það. Það eru tvennt í myndinni sem getur fengið þig til að skrækja: (1) Óvæntar uppákomur og (2) Draugar.

Óvæntu uppákomurnar eru þessi augnablik þegar hönd, andlit, líkami, líkamshluti eða (venjulega) köttur stekkur inn í rammann, og þú hoppar í sætinu þínu og segir, "Ó, þetta var bara köttur." Eða andlit, líkamshluti, vampíra, og svo framvegis. Draugarnir innihalda frekar draugalegar sýnir sem geta verið eða eru mögulega ekki efnislegar.

Matt, sonur Campbell hjónanna, er dauðvona af krabbameini og þarf að keyra hann marga kílómetra fyrir geislameðferðina hans. Madsen tekur þá "yfiriveguðu ákvörðun" að kaupa hús í fjarlægum bæ til að Matt, með brunasár eftir geislameðferðina og stöðugt óglatt, þurfi ekki að keyra of langt í meðferð. Ef kvikmyndin hefur galla, og hún hefur þá, þá er það of margir óvæntir atburðir. Allar dyr, gluggar, svefnherbergi, gangar, stigar, kjallari, loft og jafnvel svæði sem þarf að nálgast með því að skríða innihalda öll óvænta atburði, þannig að það er sjaldgæft ef eðlilegur hlutur gerist í húsinu. Campbell hjónin lenda svo oft í óvæntum atburðum, að þau hljóta að vera dauðuppgefin í lok hvers dag eftir öll þessi hlaup, hopp og að standa virkilega kyrr.

En ég má ekki vera of harður, vegna þess að óvæntir atburðir eru það sem kvikmyndir eins og þessi nærast á. Koteas er frábær sem presturinn, ekki sem draugabani með rómverskan kraga heldur sem sjúklingur í þjáningu af áhrifum geislavirkni sem virðist aldrei sannfærður um að hið góða muni  vinna á endanum.

Þannig. Fáránleg saga, svo oft brugðið að það hættir að hafa áhrif, góður leikur og listi starfsmanna sem komu að myndinni, og hvað annað? Ó, hvað með árurnar? Afhjúpaði Houdini slíkt ekki sem svik? Og gerði hinn stórfenglegi Randi það ekki líka? Og hvernig stendur á að þær séu enn notaðar sem sönnunargögn í sönnu sögunni?


Bandslam (2009) ***


Will (Gaelan Conell, fyrir miðju) lendir í menntaskólarokkbandi með einfaranum Sa5m (Vanessa Hudgens, til vinstri) og klappstýrunni Charlotte (Aly Michalka) í “Bandslam.”
 
Will Burton er mikið innan í sjálfum sér. Hann er framhaldsskólanemi í nýjum bæ og er of mikið nörd til að komast á stefnumót með stelpunum sem hann tekur eftir í skólanum. Hann hefur umbreytt herbergi sínu í hof til dýrðar David Bowie (sem hann hefur samskipti við einu sinni á dag með tölvupósti) og óskar þess að hann hefði fæðst nógu snemma til að geta stundað GBGB, klúbb í New York sem var einn af stökkpöllum pönksins. 
 
Ekki að þú haldir að hann væri pönkari þegar þú sérð hann. Hann er bara venjulegur strákur, alltaf tengdur iPodnum. Þar til dag einn að líf hans breytist þegar hin vinsæla Charlotte (Aly Michalka, úr Aly & AJ) fær hann til liðs við sig vegna sérfræðiþekkingar hans á tónlist. Hún leiðir þriggja manna hljómsveit sem ætlar að taka þátt í fylkjakeppninni Hljómsveitabardagi, og Will heldur (réttilega) að hún eigi ekki neinn möguleika á sigri.

Hann tekur eftir einmana stúlku að nafni Sa5m ("5 heyrist ekki"). Hún er leikin af Vanessa Hudgens ("High School Musical") sem hlédræg, yfirleitt svartklædd, dularfull. Eitt af leyndarmálum hennar er að hún er hæfileikaríkur tónlistarmaður. Will fær hana með í hljómsveitina og aðra tónlistarmenn sem hafa verið til hliðar, meðal þeirra mjög hljóðláta asíska stúlku að nafni Kim Lee (Lisa Chung), sem er klassískur píanóleikari en spilar frábærlega á hljómborð jafnvel þó að henni sé lífsómögulegt að brosa.

Hljómsveit Charlotte heitir Glory Dogs. Will endurskýrir hana sem "Ég get ekki haldið áfram ég mun halda áfram," sem óhjákvæmilega endurspeglar aðstæður sem koma upp í myndinni. Hann leggur sig allan fram við að endurútfæra tónlist bandsins, svo mikið að yfirþyrmandi móðir hans (Lisa Kudrow) verður áhyggjufull - en hún kemur til að hlusta á hljómsveitina og heillast.

Will veit ekkert um stelpur. Þegar Charlotte segir að henni líki virkilega við hann, trúir hann því, jafnvel þó að fyrrverandi klappstýra sé ólíkleg til að velja nörd eins og hann. Sa5m sýnir mikinn áhuga á tilhugalífi og er augljóslega rétta stúlkan fyrir hann. Einnig er í myndinni myndarlegi útskriftarneminn Ben (Scott Porter), en hljómsveit hans sigraði tónlistarkeppnina árið áður, auk þess að hann er fyrrverandi kærasti Charlotte. Hann er svona ruddi sem þykist rekast óvart utan í þig á göngunum.

Kvikmyndin leiðir að fylkiskeppninni, að sjálfsögðu, þar sem mörg sambönd eru ræktuð og vandamál leyst. Þannig að sögufléttan inniheldur í sjálfu sér ekkert óvænt. Það sem fær myndina til að virka er tilfinning hennar fyrir persónum sínum, og heillandi aðalleikarar. Gaelan Connell hefur verið líkt við ungan John Cusack og Tom Hanks, af góðri ástæðu; hann er aðlaðandi en svolítið sérstakur, ekki of myndarlegur, góður í að skipta úr sjálfhverfu viðhorfi yfir í nýfundið traust sem framleiðandi hljómsveitar. Það gerir ótrúlegustu hluti fyrir mannorð manns í framhaldsskóla þegar allir trúa því að vinsælasta stelpan sé hrifin af honum.

Flestir nemendur eru að sjálfsögðu algjörlega blindir á hæfileika Sa5m, sem er reyndar regla í veruleikanum frekar en undantekning. Líttu í kringum þig á skólalóð eftir þeim snjöllu sem passa ekki inn, og þú munt finna þá sem ná lengra en "hinir vinsælu"; það er ekki óbrigðull sannleikur, en gagnlegt að kannast við tilhneiginguna. Þú munt líka finna einhvern sem gæti sagst líka við þig og meint það bókstaflega.

Bæði Aly Michalka og Vanessa Hudgens eru tónlistarmenn, nokkuð sem gerir æfingar og framkomu á tónleikum sannfærandi. Þær búa einnig yfir fegurð og nærveru, og virðast samt raunverulegar. Lisa Kudrow forðast gildrur hinnar ofverndandi móður; við lærum eitthvað um það af hverju hún hefur svona miklar áhyggjur. Þetta er ekki skotheld mynd, en fyrir það sem hún er, þá er hún heillandi og ekkert saklausari en hún þarf að vera


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband